Þórir Hergeirsson
Þórir Hergeirsson
ÞÓRIR Hergeirsson, þjálfari norska kvennalandsliðsins í handknattleik, hefur eflaust lesið hressilega yfir leikmönnum sínum í hálfleik þegar Norðmenn mættu Spánverjum á heimsmeistaramótinu í Kína í gær.

ÞÓRIR Hergeirsson, þjálfari norska kvennalandsliðsins í handknattleik, hefur eflaust lesið hressilega yfir leikmönnum sínum í hálfleik þegar Norðmenn mættu Spánverjum á heimsmeistaramótinu í Kína í gær. Sæti í undanúrslitum var í húfi og eftir að hafa verið sex mörkum undir í hálfleik, 14:8, sneru þær norsku blaðinu við í seinni hálfleik og unnu frækinn sigur, 27:24.

Noregur mætir heimsmeisturum Rússa í undanúrslitunum á föstudaginn en í hinni undanúrslitaviðureigninni mætast Frakkland og Spánn.

Sex mörk eru engin forysta

„Þetta var ótrúlega flott hjá stúlkunum og munurinn á hálfleikjunum var gríðarlegur. Okkur tókst að fá þær til að brosa á ný og njóta þess að spila handbolta. Sex mörk eru engin forysta í handboltaleik,“ sagði Selfyssingurinn Þórir Hergeirsson við norsku sjónvarpsstöðina TV2 eftir leikinn.

Það var jafnræði með liðunum til að byrja með en í stöðunni 6:6 hrökk allt í baklás hjá norska liðinu og á síðustu 15 mínútunum tókst því aðeins að skora tvö mörk gegn átta mörkum Spánverja. Norðmenn skoruðu þrjú fyrstu mörkin í seinni hálfleik og náðu smátt og smátt að sauma að spænska liðinu. Eftir 16 mínútna leik í seinni hálfleik var staðan orðin jöfn, 16:16, og fjórum mínútum síðar náðu þær norsku forystu, 21:20, og á lokakaflanum dró enn í sundur með liðunum en Spánverjar höfðu fyrir leikinn tryggt sér farseðilinn í undanúrslitin.

Þórir Hergeirsson tók við þjálfun norska landsliðsins í apríl af Marit Breivik en Þórir hafði verið aðstoðarmaður hennar í átta ár.

„Þetta var frábær sigur hjá liðinu og ég var virkilega hrifin af leik þess í seinni hálfleik. Það sýndi gífurlegan karakter,“ sagði Breivik eftir leikinn.

Heimsmeistararar Rússa lögðu Dani, 30:25, og þar með er ljóst að Danir leika um fimmta sætið á mótinu gegn Suður-Kóreu en Rússar, sem hafa hampað heimsmeistaratitlinum á síðustu tveimur mótum, etja kappi við Noreg í undanúrslitunum en Norðmenn eru Evrópu- og ólympíumeistarar. Noregur og Rússar áttust við í úrslitaleik Ólympíuleikanna í Peking síðastliðið sumar þar sem Norðmenn höfðu betur, 34:27.

gummih@mbl.is