Árni Jóhannsson fæddist í Teigi í Fljótshlíð 2. apríl 1932. Hann lést á Sjúkrahúsi Suðurlands að morgni sunnudagsins 6. desember sl. Árni var sonur hjónanna Jóhanns Jenssonar bónda í Teigi í Fljótshlíð, f. 1895, d. 1978, og Margrétar Albertsdóttur, f. 1900, d. 1989. Systkini Árna eru Guðni, f. 1926, búsettur á Hvolsvelli, Albert, f. 1926, d. 1998, bjó á Skógum undir Eyjafjöllum, Ágúst, f. 1927, búsettur á Selfossi, Sigrún, f. 1930, búsett á Hvolsvelli, og Jens, f. 1942, búsettur í Teigi.

Eiginkona Árna er Jónína Björg Guðmundsdóttir, f. á Dvergasteini við Seyðisfjörð 31. janúar 1937, dóttir hjónanna Guðmundar Sigfússonar, f. 1913, d. 1996, og Þorbjargar Pálsdóttur, f. 1915, d. 2002. Árni og Jónína gengu í hjónaband árið 1958. Börn þeirra eru: 1) Hrafnhildur, f. 30. september 1958, búsett í Reykjavík, gift Páli P. Theódórs og eru synir þeirra Árni Björn, f. 1982, unnusta Sylvía Sigurbjörnsdóttir, Fannar, f. 1986, og Hlynur, f. 1993. 2) Guðbjörn, f. 1. mars 1960, búsettur í Reykjavík, kvæntur Hlín Hólm, börn þeirra eru Anna Þrúður, f. 1988, (móðir hennar er Ragnhildur Anna Gunnarsdóttir), Helga, f. 1992 og Hugi, f. 1995.

Árni lauk prófi frá Bændaskólanum á Hvanneyri vorið 1955 og keypti jörðina Teig II í Fljótshlíð árið 1957. Fyrstu árin vann Árni ýmis störf samhliða búrekstrinum, m.a. hjá Kaupfélagi Rangæinga á Hvolsvelli og við akstur skólabarna. Árni sat í stjórn hestmannafélagsins Geysis í all nokkur ár og var fulltrúi félagsins á Landsþingum Landssambands hestamanna um árabil. Árni var gerður að heiðursfélaga í Geysi árið 2007 og árið 2008 var hann sæmdur gullmerki Landssambands hestamannafélaga fyrir störf sín í þágu hestamanna. Árni gegndi hinum ýmsu trúnaðarstörfum fyrir bændur í sinni sveit og var m.a. formaður Búnaðarfélags Fljótshlíðar og formaður sóknarnefndar Hlíðarendakirkju um tíma. Árni var fjallkóngur á afrétti Fljótshlíðinga í 19 ár samfellt.

Útför Árna fer fram frá Breiðabólstaðarkirkju í Fljótshlíð í dag, miðvikudaginn 16. desember 2009, og hefst athöfnin kl. 14.

mbl.is/minningar

Það er alltaf erfitt að kveðja, sérstaklega þegar maður veit að það er í hinsta sinn. Pabbi kvaddi að morgni sunnudags 6. desember sl. Þessi stolti og metnaðargjarni bóndi er allur. Hann hafði kennt sér meins í baki snemma í vor, en það var ekki fyrr en í byrjun september, sem hann fékk sjúkdómsgreininguna. Krabbamein.

Hann átti erfiðan tíma eftir það. Fór í aðgerð 18. nóvember, en náði ekki þeim bata sem vonast var eftir. Pabbi var bóndi af lífi og sál, allt fram á haust, missti varla úr dag, og gaf sér ekki tíma til að setjast í helgan stein. Hann þurfti að halda við girðingum, rækta tún, hirða hey, byggja hús og huga að skepnunum. Þegar maður lítur til baka og rifjar upp feril hans sér maður hvað hann hefur í raun komist yfir mikið ævistarf. Hann átti vini og kunningja um allt land, tók þátt í félagsstörfum og sat í stjórnum, m.a. sinnti hann ábyrgðarstörfum fyrir sína sveit og stétt.

Hann var heiðursfélagi í hestamannafélaginu Geysi, og sæmdur gullmerki LH. Hann var fjallkóngur í 19 ár og voru það miklar gleðistundir á haustin þegar lagt var af stað í leitir. Honum var mikið í mun að kindurnar hans fengju besta svæðið á afrétti Fljótshlíðinga inn við Grænafjall. Hann var glöggur og næmur á skepnur, átti verðlaunafé og fékk mikið útúr hverjum dilk.

Hans aðaláhugamál var samt hestamennska. Hann átti frábæra hesta, ræktaði þá og spáði mikið í ættir hrossa. Margir þekktu hans fallegu svörtu hesta, þá Hrannar, Kóng, Teit, Svart og Kolskegg. Pabbi var metnaðargjarn, og vildi vera fyrstur og fremstur. Þannig var það í okkar árlegu hestaferðum, þar sem hann fór á undan og gleymdi stundum að fylgjast með, það var eins og hann væri einn í heiminum, svo mjög naut hann þess að vera á hestbaki. Hann var í hásæti. Það verða Árni Björn og Hlynur dóttursynir hans, sem halda merki hans áfram á lofti. Halda áfram ræktun á hans hrossum.

Pabbi hafði mikið viðskiptavit, var í stöðugum viðskiptum með vélar og búnað til búsins, var græjukall, átti stóra traktora og góða bíla, passaði að halda þeim vel við. Það er ekki hægt að sleppa því að minnast á ættfræði, pabbi hafði mjög gaman af því að ræða ættfræði, hvort sem það var manna eða hesta. Hann hafði mikinn áhuga á veðri, mátti alls ekki missa af veðurspánni, sussaði á okkur ef við höfðum of hátt. Hann skrifaði dagbók í 50 ár, þar sem hann lýsti m.a. veðrinu í Teigi.

Ekki má gleyma því að pabbi var pjattaður, vildi vera vel til fara, sagði að þá tæki fólk ekki eins eftir því hvað maður væri orðinn gamall. Að síðustu er gaman að minnast á það, að gröf pabba verður sú fyrsta í nýjum kirkjugarði að Breiðabólstað. Þar er hann í hásæti með útsýni yfir Eyjafjallajökul og Dímon. Mig langar að enda þetta með vísu sem Albert heitinn í Skógum, bróðir hans, gaf honum eftir einn reiðtúrinn, sem þeir fóru í saman:

Þú færð bróðir þakkirnar

þinn ei hróður dvínar

þessir góðu gæðingar

greiddu götu mína.

Hafðu þökk fyrir allt, elsku pabbi, nú fæ ég hásætið þitt, hestinn þinn Kóng.

Þín dóttir,

Hrafnhildur.

Ég settist niður við skrifborðið hans pabba austur í Teigi laugardagskvöldið 5. des. sl. Á borðinu lá dagbókin hans, síðustu skrif dagsett sunnudaginn 15. nóvember. Með sinni fallegu rithönd lýsti hann veðrinu þann dag eins og hann hafði gert óslitið í hartnær hálfa öld. Hann skrifaði að hann væri á leið í aðgerð á Landspítalann í Reykjavík. Fyrr þetta laugardagskvöld sat ég hjá honum á Sjúkrahúsinu á Selfossi en þangað austur var hann kominn eftir aðgerðina í Reykjavík á leið sinni í Hlíðina fögru. Við röbbuðum saman um stund, mér fannst hann vera heldur að hressast og ég sá fyrir mér að hann næði sér það vel á strik að hann kæmist heim og fengi meiri tíma austur í Teigi.

En skjótt skipast veður í lofti og nokkrum klukkustundum síðar sat ég aftur hjá pabba. Við héldumst í hendur, í fyrstu var handtakið kröftugt, en smám saman linaðist það og stuttu síðar fékk hann hinn eilífa frið. Pabbi var kjarkmaður og óttaðist ekki dauðann. Þegar í ljós kom að krabbameinið sem hann greindist með sl. haust væri á alvarlegu stigi óskaði hann þess heitast að fá að deyja sem fyrst. Hann gat ekki hugsað sér að liggja langtímum saman á spítala. Hann fékk ósk sína uppfyllta, sjúkrahúslega pabba á hans hartnær 78 ára ævi spannaði innan við þrjá vikur.

Ég og pabbi heyrðumst nánast daglega allt frá því ég kom heim frá námi fyrir tæpum tuttugu árum. Við tókum sameiginlega ákvarðanir um hina ýmsu þætti búrekstursins, um vélakaup og margt fleira. Mörg voru handtökin sem við unnum saman í Teigi, allt frá því ég sem lítill snáði fylgdi honum sem skugginn við búskapinn og þar til fyrir stuttu að við rákum niður nokkra girðingarstaura á Teigsaurum. Það verður sérstök tilfinning að koma heim að Teigi hér eftir og hitta pabba ekki fyrir.

Það verður skrítið að gera hlutina án samráðs við hann og ég á eftir að sakna hans mikið. Blessuð sé minning Árna bónda og hestamanns í Teigi og bið ég þess að himneskir gæðingar fari á fyrirferðartölti með elskulegan föður minn í faðm frelsarans.

Guðbjörn Árnason (Bjössi.)

Kveðjustundin er komin, í dag þarf ég að kveðja tengdaföður minn og vin, Árna Jóhannsson bónda í Teigi.

Minningarnar eru margar og flestar tengjast þær sveitinni sem hann unni alla tíð. Ég ætla ekki að telja upp öll hans afrek, en verð að minnast á þann ótrúlega dugnað og elju sem þurfti til að rækta allt þetta land, koma upp bústofni sem skilaði alltaf hámarks afurðum, girða landið og halda öllu þessu við.

Árni vildi ávallt vera vel tækjum búinn og átti yfirleitt nýjustu græjur til allra verka, hvort sem það var ný dráttarvél, fjórhjól eða bara kíkir til að geta fylgst með fénu eða hestunum út um gluggann.

Þegar Árni varð fjallkóngur Fljótshlíðar, fór ég mína fyrstu ferð á fjall. Þessar ferðir voru mjög eftirminnilegar, þarna kynntist ég mörgum hans sveitungum og vinum og sá að inn á fjalli, eins og talað er um, var hann sannkallaður kóngur, stoltur fjárbóndi að reka vænu dilkana sína af grænum grösum Grænafjalls til byggða á góðum hesti, hvað er það annað enn að vera kóngur.

Strákarnir okkar Hrafnhildar nutu þess að koma í sveitina til afa og ömmu enda voru þeir allir á einhverjum tíma vinnumenn hjá þeim.

Ég get ekki látið hjá líða að nefna stundirnar okkar Árna kringum hesta, því þær voru margar.

Árni eignaðist margan gæðinginn um ævina og vildi hafa þá bæði viljuga og rúma á gangi, enda urðum við hin oft að sætta okkur við að sjá bara baksvipinn á honum í reiðtúrum.

Eftirminnilegar eru hestaferðirnar með vini okkar Guðmundi Gíslasyni norður í Skagafjörð, Fjallabaksleiðir um Árnessýslu og fjölskylduferðirnar inn á Einhyrningsflatir með góðum vinum og ekki má gleyma messuferðunum í Seljakirkju. Árni taldi ekki eftir sér rétt fyrir sauðburð að skella hestum á kerru, keyra til Reykjavíkur, fara á eina Reiðhallasýningu og hitta menn eins og við sögðum oft, og ríða til messu daginn eftir.

Árni var afreksmaður í því sem hann tók sér fyrir hendur, félagslyndur og átti vini og kunningja um allt land sem hann naut mikið að hitta og spjalla við.

Eftir að veikindin fóru að herja á naut hann stuðnings og hjálpar frá Jens bróður sínum og hans fjölskyldu og ber að þakka það.

Þetta er ekkert æviágrip heldur bara góðar minningar sem ég vil geyma um góðan dreng.

Með þessu fátæklegu orðum kveð ég þig vinur minn, með þökk fyrir allt.

Guð fylgi þér.

Þinn tengdasonur,

Páll P. Theodórs.

Það er sárt að þurfa kveðja, minningar um afa í sveitinni streyma fram í huga minn. Afi var mér ómetanlegur, alltaf tilbúinn að styðja við bakið á manni. Við vorum miklir félagar og vinir. Í mínum huga var afi hetja, hann komst allar sínar leiðir í lífinu á eigin verðleikum. Dugnaður, útsjónarsemi og kraftur var hans stíll. Allt sem hann tók sér fyrir hendur gerði hann með stæl, hvort sem það var að rækta fé, hross eða land, smíða, kaupa sér tæki eða sitja hest.

Afi var hestamaður af guðsnáð, mér eru ógleymanlegir reiðtúrarnir sem við fórum niður á öldu að kvöldlagi, þau sumur sem ég var vinnumaður hjá ömmu og afa í Teigi. Afi hafði einstakt lag á að ná því besta fram sem bjó í hverjum hesti, hann reið mikið á tölti og var alltaf fyrstur. Honum þótti afskaplega vænt um hestana sína og fór vel með þá. Að vera í kringum slíkan mann, fá að fylgjast með og læra af eru forréttindi fyrir ungan dreng. Ég er mjög þakklátur fyrir allar þær góðu stundir sem við áttum saman, þær voru skemmtilegar og lærdómsríkar.

Ég er stoltur af því að geta sagt frá því að Árni Jóhannsson bóndi í Teigi hafi verið afi minn, minningar um góðan mann lifa með okkur áfram. Ég vil þakka þér afi minn fyrir allt sem þú hefur gert fyrir mig og fjölskylduna, hvíl þú í friði.

Þinn dóttursonur,

Árni Björn Pálsson.

Það var mikið áfall þegar mér var sagt að afi væri veikur. Afi minn, hrausti bóndinn sem veiktist aldrei var kominn með krabbamein. Ég minnist þess að aldrei á minni sautján ára ævi hafði ég séð afa veikan fyrr. Hann vann allan daginn hörðum höndum að starfi sínu, starfinu sem hann unni svo mikið. Það verður skrítið að koma í sveitina núna, vitandi að afi er ekki þar lengur. Enginn afi í fjárhúsinu að sjá um kindurnar, enginn afi sem fer með mér á hestbak eða leyfir mér að keyra fjórhjólið. En ég mun minnast allra góðu stundanna með afa. Þegar hann sótti okkur á fjórhjólinu, mig, Hlyn og Huga eftir að við höfðum rekið kýrnar niður á Stakkatún og brunaði með okkur upp að bæ. Það var svo gaman þegar afi sótti okkur, því að hann fór alltaf hraðar en pabbi. Heyskapurinn á sumrin, sauðburðurinn á vorin, réttirnar og sleppitúrarnir eru allt minningar sem ég mun halda fast í og aldrei gleyma. Þær voru margar góðu stundirnar og það hryggir mig að þær verða ekki fleiri. En ég veit að afi er á betri stað núna og þjáist ekki lengur. Ég vona að elsku afi hafi það gott.

Helga Hólm Guðbjörnsdóttir.

Það er aldrei spurt að því hver verði næstur, þess vegna kemur það manni alltaf í opna skjöldu þegar kallið kemur, svo má velta því fyrir sér hver vegsemdin sé sem því fylgi að skipta um dvalarstað en víst er að jafnt á himni sem á jörðu bíður okkar mismundandi vettvangur.

Þegar okkur fjölskyldunni barst fréttin að höfðinginn Árni í Teigi væri fallin frá eftir snarpa glímu við illvíg veikindi, setti mann hljóðan um stund, en svo birtist hann ljóslifandi í hugskotum manns, þar sem hann gekk hnarreistur brosmildur og fullur af orku og humor.

Árna er ég búinn að þekkja til í fjölda ára, en nú í seinni tíð urðu kynni okkar af þeim hjónum og fjölskyldu nánari þar sem dóttursonur og nafni hans tengdist okkur.

Þar sem Árni fór var eftir tekið, þannig var útgeislun þessa stórbrotna bónda.

Árni var metnaðarfullur við allt sem hann tók sér fyrir hendur. Við bústörf var hann í forystu, féð með mestan fallþunga, hrútarnir hreint úrval og fengu hæðsta gæðamat sem gefið er, hrossin, hundarnir, allt með þeim hætti að tekið var eftir.

Nokkur undanfarin ár var ég þess heiðurs aðnjótandi að vera boðið að vera með folöld sem þurftu á sérstakri umönnun að halda á vetrarfóðri á fimm stjörnu hótelinu að Teigi.

Þegar maður sótti þau á vordögum og setti þau saman við folöld sem höfðu verið bæði stærri og öflugri nokkrum mánuðum áður og því ekki þurft að dvelja hjá Árna fékk maður létt sjokk, því viðsnúningurinn var slíkur að folöldin frá Árna litu út sem ári eldri en þau sem höfðu ekki þurft á betra atlæti að halda, þarna fór maður sem kunni sitt fag til fullnustu.

Á landsþingi hestamanna 2008 var Árna veitt gullmerki fyrir framlag sitt til íslenska hestsins.

Teinréttur, brosmildur, stoltur tók hann við þeirri viðurkenningu eins og svo mörgum öðrum eftir langt og öflugt lífshlaup. Það sem Árni hefur áorkað á lífsleiðinni er með ólíkindum enda atorkusamur dugnaðarforkur sem vissi hvað hann vildi og fór oft ótroðnar slóðir.

Árni gekk ekki einn í gegnum lífshlaupið, honum fylgdi máttarstólpi og eiginkona, hún Jónína sem studdi hann í einu og öllu.

Glæsilegt heimilishaldið að Teigi í Fljótshlíð var slíkt að það fór ekki fram hjá neinum. Hann endurnýjaði stöðugt tækjaflotann, hvort heldur það voru bílar, traktorar eða heyvinnslutæki. Segja má að hann hafi verið ofurlítið pjattaður hvað varðaði tækin og í klæðaburði. Árni var alltaf nýstískulegur og flottur til fara sem gerði hann enn strákslegri og villti manni sýn um aldur hans og ekki dró úr hve hann var vel að sér í heimsmálum.

Gestkvæmt hefur alltaf verið í Teigi og höfðinglega tekið á móti vinum og vandamönnum.Víst er að tómarúm er þar eftir fráfall höfðingjans sem og um Fljótshlíðina alla.

Missir Jóninu er mikill en hægt er að hugga sig við það að hún á góða að í börnunum og barnabörnunum og öllum vinunum.

Þegar Árni áttaði sig á hvert stefndi í veikindunum tók hann því með æðruleysi og kvaddi með sama hætti og hann lifði lífinu, teinréttur og sjálfbjarga. Sjúkralega og heilsubrestur hafði ekki verið hans stíll. Minningin um þennan sómadreng, sem lýsti upp í kringum sig með sínum persónutöfrum og fer nú um á gæðingum sínum í himnasölum verður okkar haldreipi.

Um leið og við fjölskyldan kveðjum höfðingjann Árna þá vottum við ykkur, Jónína mín, Hrafnhildur, Bjössi og fjölskyldur, okkar samúð,

Sigurbjörn Bárðarson

og fjölskylda.

Árni Jóhannsson í Teigi er látinn og mér er ljúft að minnast hans með nokkrum orðum. Samgangur okkar hófst árið 1971 í kjölfar þess að foreldrar mínir og fleiri keyptu vesturbæinn á Heylæk í Fljótshlíð. Í Fljótshlíðinni er þéttbýlt og ekki nema yfir bæjarlækinn á Heylæk að fara til þess að fara yfir að Teigi. Mikill samgangur varð þegar í upphafi milli þessara bæja, sem leiddi til vináttu við bræðurna á Teigi og fjölskyldur þeirra.

Á þessum tíma höfðu Árni og Jónína byggt upp myndarlegt kúa- og sauðfjárbú í vesturbænum á Teigi, sem þekkt var fyrir að skila fyrsta flokks afurðum alla tíð. Þau lögðu í mikla ræktun túna, auk þess að byggja upp öll hús á jörðinni. Árni hafði gríðarlegan metnað til þess að ná sem bestum árangri í öllum störfum sem hann tók sér fyrir hendur og má nærri geta að vinnudagurinn var oft langur og verkefnin ærin. Til viðbótar við hefðbundinn búskap var hestamennskan áberandi hjá Árna í Teigi. Hann átti ávallt afburða hesta, sem eftir var tekið og vann til fjölda viðurkenninga sem hestamaður.

Sem ungur maður gekk Árni í Bændaskólann á Hvanneyri til þess að búa sig sem best undir ævistarfið. Þar var einnig hestamennskan stunduð af kappi og var gaman að heyra Árna segja frá því þegar hann kom ríðandi heim frá Hvanneyri í lok námsins við annan mann með nokkra tugi hesta. Í Grímsnesinu skildi leiðir og reið Árni einn þaðan og austur í Fljótshlíð með 13 hesta í rekstri. „Hvernig fórstu að þessu?“ spurðum við og hann svaraði: „Ég átti fullorðinn hest sem tók alltaf forystuna í rekstrinum og ég þurfti ekki annað en að færa mig aðeins út í kantinn öðrum megin, þá vissi hesturinn að hann átti að beygja í gagnstæða átt“. Einhverju sinni vorum við hópur hestamanna að koma ríðandi frá Hellumóti og Árni í Teigi hafði tvo til reiðar og hnakk á báðum. Hann reið greitt eins og endranær og þar sem ég reið honum samsíða gerði hann sér lítið fyrir og hafði hestaskipti á fullri ferð. Það hefur verið siður okkar félaga frá Teigi og Heylæk að ríða austur að vori og tók Árni jafnan þátt í seinnihluta þeirra ferða. Í slíkum ferðum reið Teigsbóndinn ávallt fremstur og gjarnan vel á undan rekstrinum ef því var að skipta, honum hugnaðist yfirleitt ekki að ríða mikið hægar en hratt.

Árni var hrókur alls fagnaðar hvar sem hann kom á mannamót. Hann átti auðvelt með að kynnast mönnum, þekkti fólk um allar sveitir og hélt tengslum við gamla félaga sína frá Hvanneyri alla tíð.

Árni í Teigi var bóndasonur, fæddur í lok gamla bændasamfélagsins, en náði að tileinka sér allt það besta og nýjasta í landbúnaði í sinni tíð, sér og sínum til hagsbóta. Hann var í framvarðarsveit bænda í sínu héraði og fjallkóngur Fljótshlíðinga um árabil. Nú er æviskeið þessa vinar míns á enda runnið. Ég þakka fyrir samfylgdina og fyrir öll þau margvíslegu viðvik sem Árni í Teigi aðstoðaði okkur við í gegnum tíðina. Fjölskyldu hans allri flyt ég innilegar samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Árna Jóhannssonar í Teigi.

Jón Þorsteinn Gunnarsson.