ÞORSTEINN Þorsteinsson, stjórnarformaður Bankasýslu ríkisins, fékk tæpar tíu milljónir kr. greiddar fyrir ráðgjöf vegna bankamála, svo sem uppgjör milli gömlu og nýju bankanna, frá 1.

ÞORSTEINN Þorsteinsson, stjórnarformaður Bankasýslu ríkisins, fékk tæpar tíu milljónir kr. greiddar fyrir ráðgjöf vegna bankamála, svo sem uppgjör milli gömlu og nýju bankanna, frá 1. febrúar í ár og á sama tímabili fékk Jón Sigurðsson, formaður samninganefndar um Norðurlandalán, um átta milljónir kr. fyrir ráðgjöf um gjaldeyrislán frá öðrum ríkjum.

Þetta kemur fram í svari forsætisráðherra við fyrirspurn Birkis Jóns Jónssonar, þingmanns Framsóknarflokksins, um sérverkefni fyrir ráðuneyti frá 1. febrúar 2009.

Fjármálaráðuneytið greiddi tæplega 40 milljónir króna í sérverkefni á tímabilinu og þar af um helminginn til fyrrnefndra einstaklinga.

Kostnaður forsætisráðuneytisins vegna sérverkefna á umræddum tíma nam um 18 milljónum og þar af fékk expectus um 5,6 milljónir fyrir verkefnastjórn sóknaraáætlunar.

Iðnaðarráðuneytið greiddi Bonafide ehf., lögfræðistofu Lúðvíks Bergvinssonar, fyrrverandi þingmanns Samfylkingarinnar, um 560 þúsund kr. fyrir ráðgjöf við samningu frumvarps til vatnalaga. Þá fékk Sigurður G. Guðjónsson ehf. samtals um 300 þúsund frá ráðuneytinu fyrir lögfræðiþjónustu auk þess sem hann fékk 221 þúsund kr. frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu.

Greitt fyrir Morgunblaðsgrein

Efnahags- og viðskiptaráðuneytið greiddi Nýju landi ehf., félagi Karls Th. Birgissonar, um 18 þúsund fyrir grein um Evrópumál í Morgunblaðinu og ræður um sama efni.

Capacent Glacier hf. fékk um 3,6 milljónir frá fjármálaráðuneytinu fyrir mat á ríkisábyrgð í tengslum við Icesave og ráðuneytið greiddi Helga Áss Grétarssyni tæplega eina milljón fyrir gerð lagafrumvarps um ríkisábyrgðir vegna Icesave.