Björn Axel Jónsson
Björn Axel Jónsson
Eftir Björn Axel Jónsson: "Kannski er það ástæðan að ég á betur heima í stærri samfélögum vegna þess að þar er fólk ekki að spá í hvað þú ert að gera, þú færð að vera þú sjálfur"

EINELTI – Það er gríðarlega mikil umræða um einelti í dag, allskonar forvarnarstörf í gangi og fólk að koma fram í fjölmiðlum til að segja sína sögu.

Ég skrifaði sjálfur grein í Morgunblaðið í júní sem fjallaði um það einelti sem ég varð fyrir og hvernig það hafði áhrif á mig og mína persónu.

Fyrir þá sem lásu ekki greinina þá talaði ég um þunglyndið, einmanakenndina, sjálfsmorðshugsanir og hvernig ég varð smátt og smátt meiri einfari.

Einelti er mjög mannskemmandi vandamál – þetta ristir alveg inn í innstu tilfinningarætur og festist þar um aldur og ævi, þetta er ekki eins og þegar þú ert úti að skemmta þér með félögunum, gerir eitthvað vandræðalegt, færð smá skot útaf því frá félögum og svo er það bara búið – þetta er vandamál sem mun fylgja þér alla ævi.

Hvaða þolandi eineltis kannast ekki við hræðsluna við að tala innan um annað fólk, hvað þá fólk sem viðkomandi þekkir lítið sem ekkert – eða tilhneiginguna að loka sig af, því manni „líður betur einum“ en innan um aðra?

Það er reyndar eitt annað sem mér finnst vera fylgikvillur eineltis, en það er að þegar maður kynnist fólki og fer að tala reglulega við það þá er tilhneigingin sú að maður fari örlítið yfir línuna og fólk líti svo á að maður sé að „ofsækja það“ jafnvel þótt það sé alls ekki ætlunin – en það er líka kannski eitt að þegar maður er ekki mikið í samskiptum við annað fólk á þessum „eineiltisárum“ þá veit maður ekki hvar mörkin milli eðlilegra og óeðlilegra samskipta liggja og á þess vegna til að fara örlítið yfir strikið jafnvel þótt maður meini bara vel og sé bara að hafa samband við fólk sem maður hefur gaman af því að rabba við.

Ég lendi til að mynda of oft í því að þora ekki að tala við fólk því ég er hræddur um að ná ekki að tengjast því, gera mig að fífli eða að það muni smátt og smátt fá ógeð á mér vegna þess að ég sé svo „óspennandi og leiðinlegur“.

Í fljótu bragði man ég bara eftir tveimur bekkjarpartíum sem mér var boðið í, það fyrra þegar ég var nýfluttur í bæinn og var sjálfsagt bara boðið til að vera ekki útundan og í seinna skiptið var örugglega sama upp á teninginum – öllum í bekknum var boðið og þar með mér.

Kannski er það fyrst og fremst ástæðan að ég á betur heima í stærri samfélögum þar sem færri þekkja mig en á litlum stað þar sem allir þekkja alla og fólk lifir á slúðursögum – vegna þess að í stærri samfélögum er fólk ekki að spá í hvað þú ert að gera, þú getur verið sá sem þú ert án þess að fólk sé að angra þig daginn út og inn og fá þig til að gera eitthvað allt annað en þú vilt sjálfur fá að gera.

Í æsku var ég bara venjulegur strákur, ég æfði fótbolta, ég spilaði á hljóðfæri og stóð mig sæmilega í skóla – það eina sem aðgreindi mig frá heildinni var að ég var nánast vinalaus og ein af þeim ástæðum sem ég hef fengið að heyra er sú að ég var ekki að „reyna að verða vinsæll“ og þessvegna var ég skilinn útundan – því ég var ekki að reyna að vera einhver annar en ég var.

Meira að segja, þegar ég fer að hugsa um það eftirá, þá lenti ég í hálfgerðu einelti af hálfu þjálfara. Þá var maður að flakka með liðinu hingað og þangað um landið – til staða eins og Akureyrar, Vopnafjarðar, Húsavíkur, Siglufjarðar eða Sauðárkróks án þess að spila mikið meira en svona 0-5 mínútur.

Niðurlægingin var nokkur þegar strákar í flokki fyrir neðan mig voru teknir fram yfir mig og látnir spila og hvað þá að þurfa að fara í ferðalög og jafnvel gista innan um stráka sem voru jafnvel gerendur í mínu einelti – man eftir einu atviki þar sem ég var tekinn fyrir, settur inní tvö lítil sparkmörk og haldið þar föngnum vegna einhvers sem skipti í sjálfu sér engu máli – þó má geta þess að það var eftir æfingu og þjálfarinn búinn að yfirgefa svæðið.

Einelti er vandamál sem á ekki að eiga sér stað en verður því miður til staðar á meðan það eru til mannleg samskipti og „stéttaskipting“ – það er ekki til nein töfralausn til að stöðva allt einelti en það er hægt að minnka það með almennri fræðslu og umræðu um skaðsemina sem því fylgir.

Þess vegna er mjög mikilvægt að þetta málefni sé alltaf í umræðunni og það má alls ekki slaka á í þeirri vinnu.

Með von um að sem flestir fái að njóta þess frelsis að vera þeir sjálfir – því sá sem upplifir frelsið mun verða sáttari en sá sem upplifir það ekki.

Höfundur er starfsmaður í verslun.