Icesave Ekki liggur fyrir hve langan tíma fjárlaganefnd tekur í málið.
Icesave Ekki liggur fyrir hve langan tíma fjárlaganefnd tekur í málið. — Morgunblaðið/Heiddi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Ómar Friðriksson omfr@mbl.is ENSKA lögfræðistofan Mishcon de Reya skilar í dag fjárlaganefnd Alþingis álitsgerð um tiltekin atriði samninganna við Breta og Hollendinga um Icesave. Leitað var til lögfræðistofunnar fyrr í þessum mánuði.

Eftir Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

ENSKA lögfræðistofan Mishcon de Reya skilar í dag fjárlaganefnd Alþingis álitsgerð um tiltekin atriði samninganna við Breta og Hollendinga um Icesave. Leitað var til lögfræðistofunnar fyrr í þessum mánuði. ,,Þeir brugðust vel við og tóku þetta verkefni,“ segir Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar.

Einnig rennur í dag út frestur þriggja fastanefnda þingsins til að skila niðurstöðum um afmörkuð úrlausnarefni sem þeim voru fengin til meðferðar. Gert er ráð fyrir að fjárlaganefnd komi saman á morgun til að fara yfir Icesave-frumvarpið og hefja umfjöllun um þau 16 atriði sem stjórnarandstaðan kynnti í yfirlýsingu 4. desember og samkomulag náðist um að kanna sérstaklega.

Guðbjartur segir ekki liggja fyrir hve langan tíma taki fjárlaganefnd að fara yfir þessi atriði og afgreiða málið. Engu sé þá hægt að svara um hvort fundað verði á milli jóla og nýárs eða hvorum megin við jólin málið verði tekið til afgreiðslu. Fjármálaráðherra hefur sagt að stefnt sé að því að ljúka umræðunni fyrir jól en engar dagsetningar hafi þó verið settar niður.

Halda ekki endalaust áfram

,,Þetta er allt að koma saman til fjárlaganefndar [í dag] og á fimmtudag,“ segir Guðbjartur um þau viðbótargögn og álitsgerðir sem aflað er vegna Icesave-ábyrgðarinnar. „Við ætlum að fara í gegnum þessi 16 atriði eins og óskað var. Síðan verður bara að meta hvenær það verður tilbúið.“

Þingmenn stjórnarandstöðu, bæði Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks, hafa gagnrýnt vinnulag á þingi í sambandi við samkomulagið um meðferð Icesave-málsins og efndir þess. Guðbjartur segir ágreining hafa verið frá upphafi um hvað samkomulagið eigi að ná yfir. ,,Samkomulagið var um að fara í gegnum þessi 16 atriði. Það hafa komið óskir um viðbætur og það er ekki búið að afgreiða það, en hugmyndin er ekki sú að halda endalaust áfram ef nýjar upplýsingar kalla á einhverjar aðrar. Við erum búin að taka 6 mánuði í það.“

Miklar breytingar á tekjum og gjöldum

Lokið er annarri umræðu um fjárlagafrumvarpið og voru atkvæði greidd um breytingartillögur á þingfundi í gær. Þá fór einnig fram þriðja umræða um fjáraukalagafrumvarp vegna yfirstandandi árs á Alþingi í gær.

Þingmenn stjórnarandstöðu í fjárlaganefnd skiluðu nefndaráliti vegna fjáraukalaga þar sem fram kemur að miklar breytingar hafa orðið á frumvarpinu í meðförum nefndarinnar. Tekjur ríkissjóðs hækka um 8.766 milljónir kr. og útgjöld lækka um 6.092 millj. Þar af hækka skattar á tekjur og rekstrarhagnað einstaklinga um 2 milljarða, tekjuskattur lögaðila hækkar um 3 milljarða, skattur á fjármagnstekjur einstaklinga lækkar um 1.250 millj. kr., vaxtatekjur af endurlánum hækka um tæpa 2,5 milljarða og aðrar vaxtatekjur lækka um 1.210 milljónir kr.