Hildur Sverrisdóttir
Hildur Sverrisdóttir
Eftir Hildi Sverrisdóttur: "Þyngst mun viðbótarskatturinn leggjast á frumkvöðla með lítil og meðalstór fyrirtæki."

Á ALÞINGI liggur fyrir frumvarp sem mun umbylta núverandi skattkerfi, verði það að lögum. Skiljanlega hefur margt verið gagnrýnt í frumvarpinu, enda inniheldur það tillögur sem eru vægast sagt varhugaverðar. Ein þeirra er breyting á ákvæði tekjuskattslaganna um útgreiðslu arðs sem mun leggjast þungt á frumkvöðla og einyrkja með lítil og meðalstór fyrirtæki.

Þeir sem stunda atvinnurekstur á eigin kennitölu eða í félagi er gert að reikna sér endurgjald fyrir þau störf. Endurgjaldið tekur mið af markaðslaunum, sem tekjuskattur er svo er greiddur af, áður en hagnaður frá atvinnurekstri er greiddur út. Viðmiðunarfjárhæð til markaðslauna er fjárhæð sem ætlað er að viðkomandi hefði fengið greitt ef hann hefði unnið sömu störf fyrir ótengdan aðila. Breytingin um útgreiðslu arðs mun hafa það í för með sér að hagnaður af atvinnurekstri verður að hluta skilgreindur sem laun. Nánar tiltekið mun helmingur af úthlutuðum hagnaði umfram 20% af skattalega bókfærðu virði eigin fjár, reiknast sem launatekjur sem þýðir að rekstraraðilinn þarf að greiða viðbótarskatt auk þess sem tekjur hans skerðast vegna almennra skattahækkana. Þar sem þessi viðbótarskattur á að taka mið af skattalegu bókfærðu virði eigin fjár leggst hann ójafnt á rekstraraðila. Þyngst mun hann þó leggjast á frumkvöðla og einyrkja með lítil og meðalstór fyrirtæki. Annar rekstur, til dæmis félög með miklar eignir, getur hins vegar notið skattalegs hagræðis af því að fá stærri hluta hagnaðar í lægra skatthlutfalli.

Verði tillaga ríkisstjórnarinnar að lögum er hætt við því að einstaklingar veigri sér við að fara í eigin rekstur því við áhættuna sem fylgir rekstri bætist nú viðbótarskattlagning. Ekki þarf að fjölyrða um þann skaða sem samfélagið yrði fyrir færi það á mis við jákvæð afleidd áhrif rekstrar, nýsköpunar og atvinnusköpunar. Ríkisstjórnin færir þau rök fyrir viðbótarskattinum að brögð hafi verið að því að einhverjir hafi í gegnum tíðina reiknað sér of lág laun og þannig misnotað kerfið. Sé þetta raunverulegt áhyggjuefni stjórnvalda væri nærtækara að styrkja eftirlit með reiknuðu endurgjaldi í stað þess gera rekstrarumhverfi lítilla og meðalstórra fyrirækja enn erfiðara. Sú leið hefur þær afleiðingar einar að samfélagið verður af þeim miklu verðmætum sem slíkur rekstur skapar og það er einmitt eitt af megin hlutverkum stjórnvalda að skapa umhverfi þar sem einstaklingar sjá sér áfram hag í því að efla atvinnulífið með því að stunda eigin rekstur. Annað mun hafa letjandi áhrif á rekstur fyrirtækja og hægja á allri endurreisn samfélagsins.

Endurskilgreining fjármagnstekna í launatekjur, eins og lagt er til, mun hafa þau áhrif að heimili með meðaltekjur þurfa í auknum mæli að greiða hátekjuskatt. Þessi aðför að heimilum þeirra sem hafa tekjur sínar af litlum og meðalstórum fyrirtækjum er verulegt áhyggjuefni. Ef haldið er áfram að ganga með slíkum hætti á heimilin munu þau að lokum kikna undan álaginu. Ljóst er að margar fjölskyldur í Reykjavík eru komnar að þolmörkum hvað varðar greiðslugetu.

Borgarstjórn Reykjavíkur ber að gera sitt til þess að koma í veg fyrir að þannig verði með því að sjá til þess að gjaldheimtan í borginni aukist ekki. Miklir hagsmunir eru fólgnir í því fyrir Reykjavík að borgarbúar geti lifað og starfað í höfuðborginni því fólksflótti þaðan myndi hafa í för með sér hrun í aðaltekjustofni borgarinnar. Fulltrúi VG í borgarstjórn lagði á dögunum til að útsvarið yrði hækkað upp í leyfilegt hámark eða um 0,25%.

Borgarstjórinn í Reykjavík varaði réttilega við því enda munar heimilin í Reykjavík mikið um slíka hækkun. Sóley Tómasdóttir borgarfulltrúi VG fannst þá tilheyrilegt að láta þau ummæli falla að meirihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur væri haldinn útsvarsfælni. Það er vont til þess að vita að slík umæli séu viðhöfð um svo mikilvægt mál því það hlýtur að vera meginatriði að stjórnvöld taki ekki slíkar ákvarðanir nema að vandlega íhuguðu máli og að stigið sé mjög varlega til jarðar ef taka á íþyngjandi ákvarðanir fyrir borgarbúa.

Ítrekað hefur heyrst í þessari efnahagslegu ótíð að fjölskyldur landsins verði að taka á sig auknar byrðar. Það hlýtur þó að vera sjálfsögð krafa að stjórnvöld leiti fyrst allra leiða til að bregðast við vandanum áður en ábyrgðinni er varpað yfir á fjölskyldurnar með aukinni gjaldheimtu á gjaldþung heimilin.

Höfundur er lögfræðingur.