Eftir Ívar Benediktsson iben@mbl.

Eftir Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

„ÞEIR voru eitthvað að spá í mig en eftir þreifingar er ljóst að ekkert verður úr því að ég fari til Lemgo,“ sagði Róbert Gunnarsson, landsliðsmaður í handknattleik og fyrirliði þýska handknattleiksliðsins Gummersbach, við Morgunblaðið í gær um vangaveltur staðarblaðs í Lemgo þess efnis að Lemgo hafi áhuga á að fá hann til liðs við sig fyrir næsta keppnistímabil.

Samkvæmt blaðinu, Lippische Wochenschau , renna samningar Lemgo við línumennina Vigni Svavarsson og Sebastian Preiss út í júní á næsta ári. Volker Zerbe, íþróttastjóri félagsins, mun vera að hugleiða hvort hann endurnýi samninga við annan hvorn eða jafnvel hvorugan, en talsverðar breytingar munu vera í aðsigi á liði Lemgo fyrir næsta keppnistímabil gangi hugmyndir Zerbe eftir. Liðið hefur ekki staðið undir væntingum á yfirstandandi keppnistímabili. Róbert var einn þeirra leikmanna sem Zerbe hefur í sigtinu eftir því sem blaðið greinir frá.

Róbert er samningsbundinn Gummersbach fram á mitt árið 2011. Hann mun eiga útgönguleið frá samningnum ef aðrir möguleikar bjóðast.

Vignir í lausu lofti

„Samningurinn minn rennur út í vor og sem stendur er ég í lausu lofti hvað framhaldið varðar að honum loknum. Það hafa einhverjar þreifingar verið á milli félagsins og umboðsmannsins en ekkert sem orð er á gerandi,“ sagði Vignir Svavarsson spurður um framhaldið hjá honum þegar samningur hans við Lemgo rennur út um mitt næsta ár. „Ég er alveg rólegur og get beðið eftir að hlutirnir skýrist. Ég er ekki með fjölskyldu og get flutt með skömmum fyrirvara sé því að skipta,“ sagði Vignir ennfremur en hann hefur leikið miklu meira með Lemgo á þessu keppnistímabili en því síðasta, ekki síst vegna þess að Preiss hefur glímt við meiðsli nær allt keppnistímabilið. Af þeim sökum gefur hann m.a. ekki kost á sér í þýska landsliðið þegar það hefur um áramótin undirbúning fyrir Evrópumeistaramótið sem hefst í Austurríki 19. janúar.