Blíða Náru er í S-Kyrrahafi.
Blíða Náru er í S-Kyrrahafi.
KYRRAHAFSEYJAN Náru varð í gær fjórða ríki heims til að taka upp stjórnmálasamband við Abkazíu, hérað í Georgíu sem lýst hefur yfir sjálfstæði með hjálp Rússa.

KYRRAHAFSEYJAN Náru varð í gær fjórða ríki heims til að taka upp stjórnmálasamband við Abkazíu, hérað í Georgíu sem lýst hefur yfir sjálfstæði með hjálp Rússa. Utanríkisráðherra Náru, Kieren Keke, staðfesti viðurkenninguna í Sukhumi í Abkazíu í gær ásamt Sergei Shamba, utanríkisráðherra Abkazíu.

„Við vonum að upptaka stjórnmálatengsla milli ríkja okkar verði til að leggja grunn að friði og stöðugleika,“ sagði Keke. Náru er eitt af minnstu ríkjum heims, um 10 sinnum stærra en Viðey og með um 14 þúsund íbúa. Það er fámennasta aðildarríki Sameinuðu þjóðanna. Fyrir höfðu aðeins Rússland, Venesúela og Níkaragva viðurkennt sjálfstæði Abkazíu.

Náru og fimm önnur fátæk smáríki á Kyrrahafi viðurkenna einnig Taívan sem sjálfstætt ríki þrátt fyrir hörð mótmæli stjórnvalda í Kína. Rússneska blaðið Kommersant hafði eftir diplómötum að Náru hefði farið fram á 50 milljón dollara, liðlega sex milljarða króna, í aðstoð frá Rússlandi áður en Keke fór til Abkazíu. kjon@mbl.is