Handaband og handalögmál LENGI hefur þótt sjálfsögð kurteisi meðal íþróttamanna að takast í hendur að loknum leik en nú hafa nokkrir skólar í grennd við Los Angeles bannað nemendum að iðka þennan sið.

Handaband og handalögmál

LENGI hefur þótt sjálfsögð kurteisi meðal íþróttamanna að takast í hendur að loknum leik en nú hafa nokkrir skólar í grennd við Los Angeles bannað nemendum að iðka þennan sið. Ástæðan er ótti við að handaböndin hafi í för með sér handalögmál. Skólarnir eru allir í Ventura-sýslu sem aðallega er byggð hvítu fólki og ekki hefur þurft að kljást við óaldarflokka unglinga. Verstir þykja leikmenn í hefðbundinni, evrópskri knattspyrnu. Sumir þeirra spýta í lófana áður en þeir bjóða höndina, aðrir muldra móðgunarorð og stundum er bætt við höggum, jafnvel sparki í höfuð. Mörgum finnst sem bannið sýni að skólaíþróttir endurspegli æ betur árásargirnina og gleðiskortinn í atvinnuíþróttum. Kennarar segja að stundum hafi þjálfarar og foreldrar ýtt undir áflogin og elt embættismenn skólans að bílum þeirra eftir leiki. "Það virðist vinsælt að hrækja í knattspyrnu", segir íþróttastjóri eins skólans.