HAMINGJUSAMT HUNDALÍF Sagt frá stærstu hundasýningu heims sem haldin var nýverið í Birmingham eftir Guðbjörgu Helgadóttur/Myndir: Guðmundur Pétursson Hundar hafa fylgt manninum frá örófi alda og oft er talað um að milli manns og hunds séu ósýnilegir...

HAMINGJUSAMT HUNDALÍF Sagt frá stærstu hundasýningu heims sem haldin var nýverið í Birmingham eftir Guðbjörgu Helgadóttur/Myndir: Guðmundur Pétursson Hundar hafa fylgt manninum frá örófi alda og oft er talað um að milli manns og hunds séu ósýnilegir þræðir. Víst er að að maðurinn hefur haft bæði gagn og gaman af þessu trygga og skynsama dýri og enn í dag eru hundar notaðir til ýmiskonar vinnu svo ekki sé talað um ánægjuna sem hlýst af samvistum við þá. Crufts hundasýningin var haldin í Birmingham í Bretlandi dagana 10.-14. mars sl. Undirrituð var svo lánsöm að komast á þessa sýningu sem haldin er árlega, og er ein fjölsóttasta og virtasta hundasýning sem haldin er í heiminum. Talið er að um 80 þús. manns hafi sótt þessa sýningu sem stóð í fjóra daga. Sýndir voru tæplega 20 þús. hundar af 166 tegundum.

yrsta daginn voru sýndir terrierar og hound. Í þeim hópum teljast t.d. allar terrier-tegundir: Hundar sem veiða mink, rottur, greifingja og ýmis smádýr. Hound-hundar eru oftast notaðir í hópum til að þefa uppi og elta bráð eins og t.d. refi, kanínur og héra. Einnig elta þeir uppi stór særð dýr. Í þeim hópi eru blóðhundar, beagle, foxhounds, greyhounds, bassets, dachshund og fleiri tegundir. Annan daginn voru sýndir byssuhundar, en í þeim hópi eru þeir hundar sem við Íslendingar þekkjum best, svo sem labrador og golden retriver, ýmsar spanieltegundir, setter, pointer og veimeraner. Allt stórir og kröftugir hundar sem mikið eru notaðir í veiði áfugli.

Þriðja daginn voru svo sýndir hundar sem tilheyra svokallaðri toy group en það eru smáhundar eins og ástralskur silkiterrier, cavalier king charles spaniel, maltese, papillion, pug og yorkshire terrier. Þetta eru líka hundar sem eru vinsælir hér á landi. Hinn hópurinn sem sýndur var tilheyrir svokallaðri utilty group en þar eru t.d. bulldogs, dalmatians, poodle, japanskur akita, tíbet spaniel, og boston terrier. Þetta eru hundar sem einhverntíma gegndu ákveðnum hlutverkum, en hafa að mestu misst notagildi sitt til annara tegunda.

Fjórða daginn voru svo vinnuhundar, en til þess hóps teljast t.d. sleðahundar eins og alaska malamut og siberian husky, border collie fjárhundur, sem er mjög sigursæll í hlíðnikeppnum, stóri dani sem er stærsta hundakyn heims og þýskur fjárhundur, séfer, sem er heimsfrægur fyrir gáfur sínar. Sýndar voru líka ýmsar mastiff tegundur sem hafa gott varðhundaeðli. Allt eru þetta hundar sem eru geysilega vinnusamir. Lesendur geta því ímyndað sér fjölbreytnina.

Sýningin var haldin í National Exhibition Center, geysilega stóru sýningarsvæði sem er í útjaðri Birmingham, og var afar skipulega og skemmtilega upp sett. Á miðju sýningarsvæðinu var breska hundaræktarfélagið með upplýsingamiðstöð og fræðslubás og í fjórum stórum sýningarhöllum umhverfis, samtals 29 dómhringjum, voru hundar skoðaðir og dæmdir. Þegar hundur er viðurkenndur sem sérstakt ræktunakyn, er gefin út ákveðinn staðall sem felur í sér ýtarlega lýsingu á kyninu, líkamlega og lundarfarslega, sem ræktendur reyna að komast sem allra næst í ræktun sinni. Þegar dómari skoðar hund athugar hann beinabyggingu, feld, tennur o.þ.h. Hann sér þá hvort einstaklingurinn uppfyllir fyrrnefnd skilyrði. Hundur sem vinnur sinn flokk eða sýninguna þykir bera af öðrum hundum með tilliti til staðalsins.

Á meðan hundar bíða eftir dóm, eru þeir á biðbásum ásamt eigendum sínum og geta gestir sýningarinnar gengið á milli bása, spjallað við ræktendur og eigendur, skoðað hundana, fræðst um tegundina og þess háttar. Þetta er hlutur sem ég sakna á hundasýningum hér á landi, að fólk og sérstaklega börn, geti komst í tengsl við hundana og skoðað þá í nálægð. Ég dáðist að, hve allir hundarnir voru rólegir. Þeir ýmist sváfu eða virtu fyrir sér mannlífið úr básnum sínum. Reyndar eru þetta allt hundar sem taka þátt í sýningum mörgum sinnum á ári og eru því umstanginu vanir. Allir hundar sem sýndir eru á Crufts eru marg verðlaunaðir og hafa unnið sér inn sérstök réttindi til þáttöku á þessa stórbrotnu sýningu. Þess má geta að Bretar dæma hunda eftir öðru sýningarkerfi en við hér á Íslandi.

En Crufts er ekki eingöngu hundasýning. Hún er lýsandi dæmi um hve hundurinn er viðurkenndur og sjálfsagður fylginautur fólksins í Bretlandi. Fyrir utan þessa 20 þús. hunda sem sýndir voru, gaf að líta allskonar sölubása með allan hugsanlegan varning fyrir hundinn og eigandann, og síðast en ekki síst, fjöldan allan af dýraverndunarsamtökum að kynna málstað sinn og er ótrúlaega mikið starf unnið í þeim efnum . Kynntir voru einnig lögregluhundar, tollgæsluhundar, blindrahundar og hundar sem notaðir eru í ýmiskonar vinnu eins og til hjálpar fötluðum, geðsjúkum og margt margt fleira. Alla dagana stóðu yfir hlíðnikeppnir, "agility" þ.e. hundafimi, veiðihundasýning og þar kom meðal annars í ljós hve gott er að hafa vel þjálfaðan veiðihund sem getur unnið vel og örugglega. Eitt atriði af mörgum var hlýðnikeppni fyrir börn og unglinga á aldrinum 8-18 ára, en breska hundaræktarfélagið leggur mikla áherslu á barna og unglingastarf innan félagsins. Ein hlýðnisýning vakti sérstaka athygli mína. Í henni tóku þátt hundar sem allir áttu það sameiginlegt að hafa verið bjargað úr illri meðferð og verið í mjög slæmu ástandi þegar tekið var við þeim. Eins og einn meðlimur ú hópnum sagði mér, "ef hægt er að hlíðniþjálfa fullkomnlega hunda sem bíta, slást, sem hafa verið yfirgefnir og sveltir, eru orðnir grimmir af illri meðferð, þá á fólk ekki að vera í vandræðum með heimilishundinn sinn". Þess má geta að hundarnir eru hvorki þjálfaðir með ofbeldi eða matarverðlaunum. Þessi hópur sem heitir "Essex Dog Display Team" ferðast um allt Bretland með sýninguna sína. Fyrir manneskju sem kemur úr þjóðfélagi þar sem hundur er nánast fyrirlitinn var þetta slík upplifun að varla orð fá lýst.

Hvernig byrjaði nú þetta allt saman. Sýningin ber nafn stofnanda síns Charles Crufts sem ungur að árum gerðist sölumaður, ferðaðist mjög víða, og seldi hundakex. Á ferðalögum sínum komst hann í kynni við hin ýmsu hundaræktunarbú. Þar kom að því að hann var beðinn að skipuleggja og sjá um hundasýningu og þannig má segja að hjólin hafi byrjað að snúast. Í framhaldi var fyrsta Crufts hundasýningin haldin í Royal Agricultural Hall 1891. Þetta var fyrsta sýningin af mörgum þar. Á þessum tíma gátu einstaklingar haldið slíkar sýningar án þess að hundaræktarfélög kæmu þar nærri og hagnaðist Crufts mjög á þessum sýningum. Einhver sagði mér að hann hefði aldrei verið áhugamaður um hunda, ekki einu sinni átt hund en verið fyrst og fremst metnaðarfullur kaupsýslumaður. Charles Crufts dó árið 1938 og nokkrum árum seinna óskaði ekkja hans eftir að breska hundaræktarffélagið yfirtæki sýninguna sem maður hennar hafði gert heimsfræga og viðhéldi henni. Árið 1948 stóð svo breska hundaræktarfélagið fyrir sýningunni í fyrsta sinn og hefur henni vaxið fiskur um hrygg síðan. Sýningin var alla tíð haldin í London þar til fyrir 4 árum að hún var flutt til Birmingham og hefur verið haldin þar síðan.

Það eru um það bil 2000 þjálfaðir lögregluhundar í Bretlandi og þar af eru 1800 séferar. Þjálfunin felst í að elta glæpamenn, finna týnda eða stolna hluti, og leita að týndu fólki. Þeir geta yfirbugað og afvopnað fólk með byssur, hnífa eða önnur vopn. Lögreglan er síðan einnig með sérstaka leitarhunda. Þeim er kennnt að leita sprengiefna, eiturlyfja og þ.h. Til slíks notar lögreglan aðallega springer spaniel, cocker spaniel og labrador-hunda, þar sem þeir hafa reynst betur við slíkar aðstæður. Þjálfun þessara hunda tekur um 13 vikur í hundaþjálfunarskóla lögreglunar, og eftir það fara hundur og þjálfari til starfa en leitarhundar hljóta sérstaka 8 vikna þjálfun til viðbótar. Síðan eru þeir í stöðugri þjálfun allan sinn vinnuferil þar til þeir fara á "eftirlaun" og njóta þá elliárana ýmist hjá þjálfara sínum eða þeim eru fundin góð heimili. Í bæklingi lögreglunar á sýningunni vekja þeir athygli á, að ef fólk er með hunda sem af einhverjum ástæðum eru of erfiðir eða ofvirkir fyrir venjuleg heimili taka þeir gjarnan við svoleiðis hundum því þanning vilja þeir hafa þá og helst vilja þeir karlhunda. Annað aðdáunarvert starf vinnur lögreglan, en það er að kynna hunda fyrir börnum sem þjást af hundahræðslu og sýna þeim að hundurinn er góður ef vel er farið með hann. Svipað er farið að með hunda tollgæslunnar.

Starf blindrahundafélagsins er líka aðdáunarvert. "Guide dogs for the Blind Association" var stofnað í Bretlandi 1934. Þessi samtök eru reyndar með stærstu ræktendunum, þar sem þeir rækta alla hunda sína og þjálfa þar til þeir eru tilbúnir í vinnu hjá nýjum eigendum. Blindrahundur verður að uppfylla ákveðin skilyrði. Hann þarf að vera af réttri stærð og með sérlega gott skaplyndi. Einnig á að vera auðvelt að þjálfa hann. Þó margar hundategundir hafa reynst vel sem blindrahundar hefur komið í ljós að eiginleikar og hæfni tveggja tegunda, labradors og golden retriver hefur komið að bestum notum. Seinni árin hafa aðilar með annars konar fötlun notið góðs af besta vini mannsins. svokallaðir "heyrandi hundar" fyrir heyrnalausa hafa sannað gildi sitt. Þeir hljóta þjálfun í að vekja athygli á dyrabjöllu, síma, vekjaraklukku, barnsgráti og setja af stað neyðarbjöllur.

Svo eru hundar til aðstoðar fötluðum. Þeir hundar eru séstaklega valdir með tilliti til hins fatlaða og hjóta sex mánaða þjálfun áður en þeir fara til hins nýja eigenda. Hvort sem viðkomandi er bundinn við hjólastól eða ekki, á hundurinn að geta sótt síma, opnað og lokað hurðum, sótt póst, tekið upp hluti sem detta, kveikt og slökkt ljós og svo framvegis. Og það vill svo til að margir hundar eru velkomnir í heimsókn á sjúkrahús í Bretlandi. Samtök hundaeigenda sjá um að heimsækja sjúklinga með hunda sína. Nú er lögð áhersla á, að sjúklingur hvort sem hann er líkamlega eða andlega vanheill geti notið félagsskapar þessa þögula vinar sem krefst aldrei neins, hefur alltaf tíma, og sýnir ástúð og væntumþykju hverjum sem spjallar við hann. Gætum við Íslendingar ekki tekið okkur þetta til fyrirmyndar. Ég er að minnsta kosti viss um að viðhorf til hunda myndi breytast hér á landi.

Kynningarbása ýmissa dýraverndunarfélaga var einnig að finna á sýningunni og þar ber hæst að nefna "National Canine Defence League" sem eru samtök er beita sér sérstaklega í verndun og björgun hunda í Bretlandi. Slagorð samtakanna er að "a dog is for life, not just for christmas" og segja þessi orð ansi mikið. Samtökin eru umsvifamikil þó þau byggi afkomu sína nánast eingöngu á frjálsum framlögum. Þau starfrækja björgunarathvörf sem eru dreifð viða um Bretland og verndari samtakana er Elísabet drottning. Við lestur kynningarrits þeirra og spjall við forsvarsmenn kemur ýmislegt miður fallegt í ljós. Árlega taka þessi samtök við þúsundum hunda sem hefur verið misþyrmt, þeir sveltir og yfirgefnir af eigendum sínum. Enginn hundur sem kemur í athvarfið er aflýfaður nema af mannúðarástæðum. Reynt er að finna heimili handa öllum, en því miður gengur það ekki alltaf, sem þýðir, að margir búa þar til æviloka. Þetta eru hundar sem af einhverjum ástæðum reynist ekki unnt að koma fyrir, kannski af því þeir eru of gamlir, of fyrirferðamiklir, of óþekkir eða einfaldlega of ljótir! Samtökin álíta að hver hundur eigi rétt á góðu lífi þó hann búi á svona stofnun og getur fólk "eignast" hund með því að greiða árlega fyrir umsjá hanns. Margir hundavinir sem ekki hafa tök á að halda hund notfæra sér þetta.

Eitt helsta vandamál samtakana er hve mikið af Greyhound hundum þau fá í athvarfið til sín. Ástæðan er aðallega tvenns konar. Þessir hundar eru notaðir í hlaupakeppni og þegar þeir ljúka keppnisferli sínum eru þeir oft yfirgefnir.

Stór liður í vinnu samtakana er að beita sér fyrir fræðslu til hundaeigenda, vegna þess að því betur sem fólk er upplýst um ábyrgð hundahalds, þeim mun betur er farið með hundana.

Það var svo loks á fjórða degi, þegar búið var að dæma allar tegundir, í öllum flokkum, bæði hunda og tíkur, unga hunda og gamla, litla og stóra, kom að því að valinn var einn hundur sem hlaut titilinn "besti hundur sýningarinnar". Hver skyldi hafa hlotið heiðurinn úr öllum þessum tæplega 20 þúsund hunda hóp. Það var velskur terrier, fallegur smáhundur sem þótti bera af öllum hinum og taldist ósigrandi. Það var stoltur eigandi og þjálfari sem stilltu hundinum upp fyrir framan sjónvarpsmyndavélar, því um 11 milljónir manna fylgdust með úrslitunum í beinni útsendingu. Þar með var Crufts hundasýningunni lokið.

Dagarnir fjórir í Birmingham voru fljótir að líða. Það var svo margt að skoða og sjá, að mér fannst ég þyrfti mikið meiri tíma. Á heimleið eftir svona stórbrotna sýningu er manni efst í huga hversu hundurinn, þessi tryggi fylginautur mannsins, er göfug skepna; að láta hugann reika um atburði síðustu daga, þegar maður sá mann og hund verða órjúfanlegu heild, starfa saman, og gleðjast saman. Og ég hugsaði með mér hversu lánssamur hundaeigandinn er, að eiga svo góðan vin.

Höfundur er áhugamaður um hundrækt

Þessi börn þjáðust af hundafælni, en eftir að hafa verið á námskeiði hjá lögreglunni geta þau umgengist hunda án þess að verða hrædd.

Athyglisvert var hversu rólegir hundarnir voru á meðan þeir biðu eftir að röðin kæmu að þeim.

Greinarhöfundur heilsar upp á "pyrenea mountain-dog" á sýningunni. Athygli skal vakin á því að hundurinn situr, en stendur ekki í afturfæturna og má af því marka stærð hans.

"Flat coated retriver" keppir í hundafimi.

Verðlaunahafar í flokki veiðihunda. Sigurvegarinn er af tegundinni "cocker spaniel" og í öðrusæti varð "enskur setter".

"Síberían husky", vinnusamur og góður sleðahundur.