SÍMTALIÐ ER VIÐ JÓNU BJÖRGU JÓNSDÓTTUR SEM FRAMLEIÐIR FYRIRBURA- OG BARNAFÖT Sel aldrei fyrirburaföt á dúkkur 42718 Saumagallerí góðan daginn. Þetta er á Morgunblaðinu, Guðrún Guðlaugsdóttir sem talar.

SÍMTALIÐ

ER VIÐ JÓNU BJÖRGU JÓNSDÓTTUR SEM FRAMLEIÐIR FYRIRBURA- OG BARNAFÖT

Sel aldrei fyrirburaföt á dúkkur

42718

Saumagallerí góðan daginn.

Þetta er á Morgunblaðinu, Guðrún Guðlaugsdóttir sem talar. Saumið þið fyrirburaföt?

Já, raunar, en sem betur fer er sá markhópur svo lítill að aðallega er fengist hér við að sauma ungbarnafatnað.

Hvað heldur þú að þið seljið mikið af fyrirburafötum mánaðarlega?

Ætli það séu ekki svona tveir gallar á mánuði. En venjulega eru inniliggjandi allt að 16 fyrirburðir að jafnaði mánaðarlega. Systir mín eignaðist barn fætt fyrir tímann fyrir tveimur árum og þá bætti ég þessum saumaskap við annað sem hér er framleitt.

Eru þetta eitthvað öðruvísi föt en önnur föt?

Nei, í sjálfu sér ekki, nema hvað þau eru lítil. Ég er stundum beðin um þau á dúkkur en ég sel þau alls ekki nema á fyrirbura, það er siðfræði hjá mér að selja þau ekki á dúkkur, þetta eru barnaföt, þótt lítil séu. Þau eru úr mjúkum, náttúrulegum efnum sem eru góð við viðkvæmt hörund fyrirburðanna. Öllum göllunum fylgja húfur sem er mikið atriði fyrir þessi börn. Gallarnir eru mjög litlir, það er hægt að byrja að nota þá fyrir sex marka barn og duga þar til það er orðið 12 merkur. Það er mikil hreyfivídd í þessum göllum og aldrei er notast við rennilása eða smellur, í stað þess nota ég tölur og hnappa og þau eru öll hneppt á bakinu.

Notar þú heldur ekki rennilása og smellur í fatnað fyrir eldri börn?

Nei, ég nota eingöngu tölur og hnappa og stroff til þess að halda flíkunum að börnunum.

Hvers konar fatnað framleiðir þú fyrir eldri börn?

Ég framleiði oftast fatnað fyrir börn yngri en fjögra ára. Flónelsnáttföt hef ég saumað mikið af, þau fást óvíða en voru algeng áður fyrr. Þetta eru bestu efni sem til eru fyrir börn að sofa í, hlý og notaleg.

Hvað saumið þið fleira?

Ungbarnasundföt t.d. fyrir tveggja mánaða og eldri og svo má nefna skírnarrósir á kjóla og svo galla, kjóla og margt fleira. Eitt einkenni hef ég á fötum sem ég sauma, það er lítið handunnið silkiblóm sem ég merki allar flíkur með.

Ertu með marga í vinnu?

Nei, ennþá er ég bara ein en ég vonast til að geta bætt við manneskju fljótlega. Starfsemin gengur ágætlega og spyrst vel út, einkum hafa fyrirburafötin orðið þekkt þótt þau séu svona lítið brot af framleiðslunni sem fyrr gat.

Ég þakka þér kærlega fyrir upplýsingarnar.

Ég þakka þér sömuleiðis fyrir símtalið.