[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Þórður Gunnarsson thg@mbl.is Um það leyti þegar Glitnir, Kaupþing og Landsbankinn lentu í fangi ríkisins í október 2008 námu heildarskuldir Baugs Group 1,4 milljörðum punda.

Fréttaskýring

Þórður Gunnarsson

thg@mbl.is

Um það leyti þegar Glitnir, Kaupþing og Landsbankinn lentu í fangi ríkisins í október 2008 námu heildarskuldir Baugs Group 1,4 milljörðum punda. Eignir fyrirtækisins voru hins vegar metnar á aðeins 536,5 milljónir punda. Þetta kemur fram í vitnisburði Jóns Ásgeirs Jóhannessonar fyrir dómstóli í Bretlandi, vegna málsóknar slitastjórnar Glitnis á hendur fyrrverandi eigendum og stjórnendum bankans. Jón bendir á í vitnisburði sínum að skuldir Baugs Group hjá hinum nýríkisvæddu bönkum hafi samtals verið 1,1 milljarður punda, en skuldir hjá öðrum bönkum en þeim hafi numið 280 milljónum punda. Eignastaða Baugs var því neikvæð um 920 milljónir punda við hrunið. Af þessu má ráða að félagið hafi verið ógjaldfært nokkru fyrir hrunið, þó svo að eignahlutur fyrirtækisins í Stoðum, áður FL Group, hafi höggvið stórt skarð í efnahagsreikning félagsins, en sem kunnugt er var FL Group kjölfestufjárfestir í Glitni, en sú eign strokaðist vitanlega út þegar FME tók bankann yfir. Raunar hefur komið fram að skiptastjóri Baugs hyggist sýna fram á að fyrirtækið hafi verið ógjaldfært snemma á árinu 2008, ákveðnum riftunarmálum sem þrotabúið hefur höfðað til stuðnings.

Project Sunrise sett af stað

Jón Ásgeir segir að strax eftir hrun hafi Baugur Group sent teymi manna til Íslands til að reyna að semja við kröfuhafa fyrirtækisins, í því augnamiði að vinna úr erfiðri stöðu fyrirtækisins með því að breyta skuldum í hlutafé. Morgunblaðið hefur greint frá því að Baugur hafi smám saman selt Iceland-verslanakeðjuna inn í íslensku bankana á árinu 2008. Af vitnisburði Jóns Ásgeirs má ráða að hann hafi séð fyrir sér að sameina þær eignir sem Baugur átti ennþá, og þær sem bankinn hafði keypt af fyrirtækinu, í nýtt félag. Það gekk hins vegar ekki eftir, sem kunnugt er. Í febrúar 2009 fór Baugur í greiðslustöðvun og í næsta mánuði var félagið tekið til gjaldþrotaskipta.

Neitar að hafa stýrt Glitni

Í júní 2007 varð Jón Ásgeir stjórnarformaður FL Group, og Pálmi Haraldsson varaformaður stjórnar. Jón hafnar því að sú breyting hafi markað endanlega valdatöku í Glitni, eins og Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar Glitnis, hefur orðað það. „Þetta er einfaldlega ekki rétt. Ég sat ekki stjórnarfundi [innsk.: Glitnis], fundi fjárfestinga- eða áhættunefndar bankans. Almennt ræddi ég ekki við bankann fyrir hönd Baugs Group eða dótturfyrirtækja. Starfsmenn þeirra fyrirtækja sáu um slíkt. Ég þekkti hr. Welding ágætlega, og var í aðstöðu til að senda honum tölvupóstskeyti með ábendingum um viðskiptatækifæri. Ég stýrði hins vegar aldrei rekstri bankans,“ segir í vitnisburðinum. Máli sínu til stuðnings bendir Jón Ásgeir á að snemma árs 2008 hafi Glitnir neitað Baugi Group um lán til að fjármagna yfirtökuna á Woolworths, breskri verslanakeðju.

Sakar aðra um öfund

Jón Ásgeir ræðir tilurð Baugsmálsins frá árinu 2005 í vitnisburði sínum. Þar segir að hann að ákærurnar hafi átt rætur sínar í annarlegum og pólitískum hagsmunum, og að þeim hafi verið ætlað að eyðileggja mannorð hans og Baugs. „Þar sem ég hafði áorkað meira en nokkur annar athafnamaður eða stjórnmálamaður á Íslandi voru margir, sem valdið höfðu, öfundsjúkir vegna þess árangurs sem ég hafði náð.“