[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nú styttist í að miðbærinn fái á sig jólasvip með skreyttum búðargluggum og götuskreytingum. Á aðventunni er notalegt að rölta í bæinn, kaupa jólagjafir og upplifa mannlífið innan um jólasveina og aðra góða gesti sem verða þar á ferð. María Ólafsdóttir maria@mbl.is

Það er greinilegt að farið er að styttast í aðventuna og jólin þegar blaðamaður og ljósmyndari kíkja í miðbæinn á mánudagseftirmiðdegi. Það er nokkuð napurt úti og því skiljanlegt að ekki séu margir á ferli en innandyra er hlýtt og notalegt og verslunarfólk tekur vel á móti okkur. Sums staðar er kominn jólavarningur í hillurnar og einstaka verslun er farin að setja upp jólaskreytingar. Að vanda verður miðbærinn síðan fallega skreyttur með ljósaseríum og skrauti nú undir lok mánaðarins.

Keppt um jólagluggann 2010

„Hér verður hlýlegt, jólalegt og fallegt um jólin. Sem fyrr verður efnt til jólasamkeppni um jólaglugga ársins en í fyrra sigraði skóverslunin 38 þrep sem átti stórfallegan og glæsilegan glugga. Við hvetjum fólk til að gera þetta í fyrsta lagi jólalegt og fallegt en líka kannski að hafa skreytinguna þjóðlega. Fara aftur í arfinn og búa til eitthvað úr þeim minnum og lykilpersónum jólanna sem við þekkjum úr barnæsku síðustu alda. Svo eru frumleg- og nýstárlegheit velkomin líka,“ segir Jakob Frímann Magnússon, framkvæmdastjóri Miðborgarinnar okkar. Á aðventunni verður margt um að vera í miðbænum. Jólabærinn á Hljómalindarreit verður formlega opnaður þann níunda desember og í miðbænum verða fjölbreytilegar uppákomur, sönghópar, skemmtikraftar og jólasveinar verða á ferðinni auk Grýlu og Leppalúða. Þá verður jólapakkarallið frá í fyrra endurtekið. Mjólkurbíll frá MS mun aka niður Laugaveginn í góðum félagsskap jólasveina, barna, verslunarmanna og fleiri sem munu afhenda Mæðrastyrksnefnd og Fjölskylduhjálp gjafir. Þungi mun færast í jólaundirbúninginn um miðjan desembermánuð með lengdum afgreiðslutíma.

Georgetown eða Stokkhólmur

„Það er mikil eftirspurn eftir verslunarhúsnæði í miðborginni. Við sjáum fram á fjölmörg ný tækifæri í atvinnusköpun í tengslum við opnun tónlistarhúsins Hörpu í vor. Einnig er nýbygging á horni Austurstrætis og Lækjargötu umsetin af áhugasömum leigjendum. Miðbærinn er séríslenskt fyrirbæri og þá ekki nema helst Georgetown í Washington eða gamla bærinn í Stokkhólmi sem getur keppt við okkur. Þetta er meðal þess sem gerir Reykjavík svo aðlaðandi fyrir menningarhátíðir almennt, hér er allt auðfinnanlegt og þægilega í sveit sett,“ segir Jakob Frímann.

Finnsk gestaþraut og himneskir herskarar

Víða í miðbænum má finna verslanir sem selja fallega hönnun fyrir heimilið. Í Tjarnargötunni kúra Himneskir herskarar handverksmannsins Páls Garðarssonar sem þar hefur sameinað verkstæði og verslun. Vel fer þar á með englum, hreindýrum, fínum frúm með loðhatt og öðrum fígúrum sem Páll sker út en hann segir aldrei verða þrot á hugmyndum að nýjum útfærslum. Í Bankastrætinu grípur fallegt jólaskraut auga vegfarenda sem ganga fram hjá versluninni Aurum. Jólatréð og fígúrurnar sem hér sjást eru úr viði og koma frá finnska hönnunarfyrirtækinu Lovi. Þær eru ekki bara fallegar heldur líka góð gestaþraut í jólaboðið, en fólk setur skrautið saman sjálft.

Íslenski bjórinn vinsæll

Fyrir þá sem vilja eitthvað sterkara er ekki úr vegi að velja sér íslenskan jólabjór. Það er hlýtt inni á Íslenska barnum þegar blaðamann og ljósmyndara ber að garði og ósjálfrátt fer hann að syngja með íslensku tónlistinni sem ómar í hátölurunum allan liðlangan daginn. „Við verðum í jólaskapi á aðventunni,“ segir glaðleg starfsstúlka sem situr við barinn og brosir breitt. Bak við barborðið reiðir samstarfsfélagi hennar fram fjórar tegundir af íslenskum jólabjór sem þegar hafa borist en enn eiga tvær eftir að koma í hús. „Íslenski jólabjórinn er jafnvinsæll meðal ferðamanna og Íslendinga en þeir velja hann fram yfir annan bjór á aðventunni,“ segir barþjónninn og stillir sér að svo búnu upp fyrir myndavélina.

Kuldaboli lokaður úti

Á rölti um miðbæinn er gott að setjast einhvers staðar inn og fá sér hressingu. Sérstaklega þegar kuldaboli er farinn að bíta í kinnar og fingur. Heitt og gott kakó með rjóma á vel við á aðventunni eða kaffisopi handa þeim eldri. Kaffihúsin í miðbænum eru fjölmörg svo og veitingastaðir þar sem hægt er að fá sér eitthvað gott í gogginn. Á Kaffismiðjunni á Skólavörðustíg er töfrað fram rjúkandi heitt espressó í jólalegum rauðum bolla. Ekki amalegt til að hlýja sér á og fá smá orku í kroppinn fyrir næstu verslunaratrennu fyrir jólin.

Segja heimsókn í Kisuna eins og að koma á safn

„Kisan hefur verið hér á Laugavegi 7 í fimm ár og okkur finnst bara frábært að vera hér. Þetta er bara alveg fullkomin staðsetning fyrir svona tegund af búð. Að okkar mati er þetta líka besta staðsetningin á Laugaveginum. Fyrir jólin reynum við að gera gluggann jólalegan en samt ekki að ofgera neinu. Við erum oft með ísbirni og reynum að hafa smekklegt í glugganum og hafa hann klassískan. Við fáum alltaf eitthvað af jólavörum í búðina fyrir jólin, jólaskrauti, kortum og svona smádóti, líka margar tilvaldar jólagjafir fyrir fólk á öllum aldri,“ segir Kristín Guðmundsdóttir, starfsmaður í Kisunni.

Margir koma til að skoða

Kristín segir að búðin eigi orðið sína fastagesti og verslunarfólkið þekki mörg andlitin. Margir kom reglulega við til að skoða og orða það þannig að það sé dálítið eins og að koma á safn að koma inn í Kisuna. Á þessum árstíma sé enn nokkuð um ferðamenn og sá straumur virðist vera farinn að aukast. Þegar Kristín á lausa stund á aðventunni segist hún njóta mannlífsins í miðbænum. „Það er partur af stemningunni að rölta um enda fallegt og skemmtilegt á Laugaveginum á aðventunni. Toppurinn er svo Þorláksmessa þegar varla sést út um gluggann hjá okkur fyrir mannmergðinni úti,“ segir Kristín.

Fólk farið að spá í gjafir

„Við hjónin höfum rekið verslunina hér síðan vorið 2009 og líkar vel að vera í miðbænum. Nú er jólaösin aðeins að byrja og fólk farið að forvitnast og spá og spekúlera í gjöfum. Á þessum árstíma kemur enn töluvert af ferðamönnum til okkar en annars gefum við okkur út fyrir að vera gjafavöruverslun og verðum með fullt af jóladóti núna fyrir jólin,“ segir Kristín Ólafsdóttir, eigandi Minju á Skólavörðustíg.

Glæsilegur jólakjóll í gamaldags stíl

Styrmir Hansson horfir aðdáunaraugum á spúsu sína, Fríðu Rakel Kaaber, sem skartar glæsilegum kjól úr verslun þeirra Einstökum ostakökum á Laugavegi. Verslunin sérhæfir sig í fötum innblásnum af fimmta og sjötta áratugnum.

Huganum dreift

Lítil hnáta skoðar jóladót með móður sinni í blómaverslun á Skólavörðustígnum. Þar er búið að skreyta gluggana fagurlega hátt og lágt með jólaskrauti og innan dyra er margt sem fangar auga yngstu viðskiptavinanna. Enda bíða þeir oftast hvað lengst eftir jólunum sem virðast á stundum bara aldrei ætla að koma. Þá er gott að geta dreift huganum með því að fara í göngutúr um miðbæinn með mömmu og pabba til að skoða fallegt jóladót, benda þeim kannski á hvað mann langi að fá í jólagjöf og fá sér síðan hressingu til að hvíla lúin bein áður en haldið er heim á leið.

Jólagóðgæti fyrir maga og hug

Aðventan er sá árstími sem við gerum vel við okkur í mat og drykk. Þegar okkur ber að garði í Pipar og Salt á Klapparstígnum eru þau hjónin Sigríður og Paul nýbúin að taka upp jólavörurnar. Hillurnar svigna undan ýmiskonar kostulegum jólafígúrum, breskum jólakökum og ensku sinnepi, myntuhlaupi og öðru slíku sem ómissandi þykir með jólamatnum í Englandi. Sigríður og Paul hafa rekið verslun sína í miðbænum síðan árið 1987 og sérhæfa sig í breskri matvöru og ýmsu til heimilisins. Í bókaversluninni IÐU í Lækjargötunni gluggar blaðamaður í jólalegar bækur með söngtextum, uppskriftum og föndurtillögum. Jólin eru greinilega á leiðinni og verið að stilla jólatré út í glugga við hliðina á sveinkanum sem þar situr.