— Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Umskiptin gætu ekki verið meiri. Fyrir nokkrum árum var hagvöxtur óvíða meiri en í Lettlandi.

Umskiptin gætu ekki verið meiri. Fyrir nokkrum árum var hagvöxtur óvíða meiri en í Lettlandi. Verg landsframleiðsla á föstu verðlagi jókst um rúmlega 10% árið 2007 og rúmlega 12% árið 2006, eins og rakið er í greininni Ísland og Lettland: Þjóðhagsleg aðlögun og peningastefna í Peningmálum Seðlabankans. Svo kom hrunið.

Lettnesk stjórnvöld biðu ekki boðanna heldur gripu strax til gríðarlegs niðurskurðar í útgjöldum ríkisins . Taka átti út sársaukann strax. Laun opinberra embættismanna voru lækkuð um að meðaltali 30% og víða skorið dýpra en inn að beini.

Ellilífeyrisgreiðslum var ekki hlíft

Aðferðafræðin er umdeild og er hagfræðingurinn og athafnamaðurinn Janis Oslejs í hópi Letta sem telja að stjórnvöld hafi brugðist kolrangt við.

„Stjórnvöld hafa dregið úr útgjöldum í nokkrum áföngum. Fyrsta lotan var þegar á árinu 2009. Það sem þau gerðu var að skera flatt niður á öllum sviðum, þar með talið greiðslur til ellilífeyrisþega, útgjöld til heilbrigðismála, framlög til menntamála og allt sem nöfnum tjáir að nefna [...] Við höfðum nokkra mánuði til undirbúnings og fáeina daga til að hrinda þessu í framkvæmd. Ég held að stjórnvöld hafi því ekki velt þessu mikið fyrir sér heldur ákveðið að fara út í flatan niðurskurð.“

Samstaða um miklar launalækkanir

En hver var meðalniðurskurðurinn í launum hjá opinberum embættismönnum?

„Ég hygg að hann hafi verið um 30%.“

– Reis upp mikil mótmælaalda?

„Nei, vegna þess að fólk hélt að slík lækkun væri hyggileg. Sú röksemd varð enda ofan á að við stæðum frammi fyrir miklum vanda og yrðum að skera niður í útgjöldum hins opinbera.“

– Bar þetta tilætlaðan árangur?

„Nei. Þetta misheppnaðist þvert á móti algjörlega vegna þess að næsta ár dróst hagkerfið saman um 20%. Hagkerfið leið gríðarlega fyrir niðurskurðinn. Markmiðið með niðurskurði ætti að vera tvíþætt: Annars vegar að ná jafnvægi í tekjum og útgjöldum hins opinbera og hins vegar að tryggja að hjól efnahagslífsins haldi áfram að snúast,“ segir Oslejs og bendir á að önnur afleiðing hinnar kröppu dýfu hafi verið sú að atvinnuleysi fór í hátt í 20%.

Eins og rakið er í áðurnefndri grein Peningamála hefur fastgengisstefna verið við lýði í Lettlandi frá árinu 1994. Grípum niður í greinina.

Verðbólgan snarjókst

„Hinn 1. janúar 2005 var gengi lettneska gjaldmiðilsins fest við gengi evrunnar í stað myntkörfu sem samanstóð af bandaríkjadal, evrunni, breska pundinu og japanska jeninu. Var það gert til að tryggja stöðugleika og auka erlenda fjárfestingu og útflutning, auk þess að auðvelda upptöku evrunnar síðar meir. Um svipað leyti hófst hins vegar, eins og á Íslandi, tímabil vaxandi verðbólgu.“

Er síðan rakið hvernig verðbólga í Lettlandi hafi aðeins einu sinni farið niður fyrir 6% frá árinu 2004 og ársverðbólga í apríl 2008 mælst 17,5%, sem sé mesta verðbólga frá því í ágúst árið 1996.

„Einkennin voru flest hin sömu og hér á landi. Viðskiptahallinn jókst úr 4,8% af landsframleiðslu árið 2000 í 22,8% af landsframleiðslu árið 2007. Útlán hafa aukist mjög hratt undanfarin ár en þau eru í mun meira mæli veitt í erlendum gjaldmiðlum, einkum evrum, en hér á landi. Árið 2007 voru 86% útlána í Lettlandi í evrum.“

Skuldirnar komu í veg fyrir gengisfellingu

Með ofangreinda tengingu í huga vaknar sú spurning hvort Lettar hafi fellt gengið eftir hrunið. Svarið er nei og segir Oslejs að ástæðan sé sú að lettneska ríkið hafi viljað koma í veg fyrir að gengislækkun snarhækkaði skuldir í evrum og ylli því þar með að bankastofnanir og einstaklingar stæðu frammi fyrir óviðráðanlegum skuldum .

Að hans sögn tóku Lettar evrulánin í trausti þess að landið myndi senn taka upp evru sem gjaldmiðil. Kreppan hafi því komið á versta tíma.

Kosningarnar í haust þóttu prófsteinn á afstöðuna til AGS

Þegar Lettar gengu að kjörborðinu í þingkosningunum í októberbyrjun var víða fylgst með útkomunni í ljósi samvinnu lettneska ríkisins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS).

Fór svo að ríkisstjórn Valdis Dombrovskis hélt velli en hann tók við stjórn landsins í miðri kreppu í marsmánuði 2009.

Dombrovskis – sem er á veggspjaldinu á myndinni hér fyrir ofan – hefur á stefnuskránni að taka upp evru sem gjaldmiðil árið 2014 en hann fer fyrir stjórn sem þykir hægra megin við miðju.

Líkt og íslensk stjórnvöld óskuðu Lettar eftir aðstoð AGS örlagahaustið 2008 og fengu í kjölfarið lánalínu upp á 1,7 milljarða evra, eða sem svarar til 261 milljarðs króna, auk fjárhagsaðstoðar frá ríkjum Evrópusambandsins, Alþjóðabankanum og Endurreisnar- og þróunarbanka Evrópu, alls um 1.150 ma. kr.

Íslendingar eyddu á við hátt í 1.100.000 Búlgara árið 2005

Meðaltekjur á hvern Letta í fyrra voru sem svarar 1.625 þúsund krónum, en til samanburðar voru meðaltekjur á hvern Íslending þá ríflega 4,25 milljónir króna.

Fram kemur á fréttavef breska útvarpsins, BBC , að laun hafi í sumum tilfellum verið lækkuð um allt að 50% í Lettlandi en með hliðsjón af meðaltekjum er ljóst að í mörgum tilfellum var ekki úr háum söðli að falla.

Fram kemur í samanburðartöflu Hagstofu Evrópusambandsins (Eurostat) að meðalneysla á hvern Letta árið 2007 var 61% af meðaltalinu í aðildarríkjunum 27 en talan fyrir Ísland var þá 132%.

Samkvæmt Hagstofunni voru Íslendingar 315.459 á nýársdag 2008 sem þýðir að þann dag þurfti 682.632 Letta til að standa undir meðalneyslu Íslendinga árið 2007. Athygli vekur að árið 2005 var hlutfallið 135% á Íslandi en 37% í Búlgaríu. Samkvæmt Hagstofunni var íbúafjöldi Íslands á nýársdag 2005 alls 299.891 sem þýðir að þann dag þurfti 1.094 milljónir Búlgara til að standa undir neyslu Íslendinga þann daginn, miðað við meðalneysluna 365 dagana á undan.

Árið 2005 var neyslan 49% af meðaltalinu í Lettlandi, 56% árið eftir og 61% árið 2007.