Svavar Sigmundsson við lágmynd af Jónasi Hallgrímssyni á Hólum, nýjustu byggingu Menntaskólans á Akureyri.
Svavar Sigmundsson við lágmynd af Jónasi Hallgrímssyni á Hólum, nýjustu byggingu Menntaskólans á Akureyri. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Listaskáldið góða, Jónas Hallgrímsson, afrekaði ótrúlega margt á stuttri ævi. Hvert mannsbarn þekkir ljóðskáldið, margir kannast við náttúruvísindamanninn en færri virðast meðvitaðir um þann mjög afkastamikla nýyrðasmið sem hann var.

Listaskáldið góða, Jónas Hallgrímsson, afrekaði ótrúlega margt á stuttri ævi. Hvert mannsbarn þekkir ljóðskáldið, margir kannast við náttúruvísindamanninn en færri virðast meðvitaðir um þann mjög afkastamikla nýyrðasmið sem hann var. Svavar Sigmundsson hélt í vikunni fyrirlestur um nýyrði Jónasar í Menntaskólanum á Akureyri.

Orðasmíð Jónasar eða virkjun eldri orða er enn eitt dæmi um listfengi hans og aðdáunarverða meðferð íslensks máls. Orðin eru ekki aðeins lipur, sem gerir þau svo vel nothæf, heldur er í þeim hugsun sem gerir þau líka mjög oft eftirminnileg, sagði Svavar Sigmundsson, sem er fyrrverandi rannsóknaprófessor og forstöðumaður Örnefnastofnunar Íslands, í erindi sínu fyrir norðan.

Svavar tók sig til fyrir nokkrum árum og hóf að skoða nýyrðasmíð skáldsins. Hann sagðist, í samtali við Morgunblaðið, telja að um 190 algeng orð í málinu mætti rekja til Jónasar. Þau eru að sögn Svavars úr ýmsum ritum skáldsins, úr Fjölnisgreinum sem eigna má Jónasi einum, úr sundreglum Nachtegalls og stjörnufræði Ursins, sem Jónas þýddi, og víðar að úr ritum hans.

Eðlileg og blátt áfram

Þó nefnir Svavar þessi orð – sem birt eru á síðunni hér við hliðina – með sama fyrirvara og aðrir fræðingar hafa gert áður; að Jónas hafi ef til vill ekki smíðað öll þau orð sem hann er skráður fyrir en víst séu þau mörg. Hugsanlega séu einhver þeirra úr eldri ritum en hafa ekki fundist.

Svavar rifjaði upp að Guðmundur Finnbogason prófessor varð einna fyrstur til að skrifa um nýyrði Jónasar í Skírni fyrir meira en 100 árum. Hann skrifaði þar að málið á þýðingu Jónasar á stjörnufræði Ursins væri svo „þýtt og yndislegt að engan skyldi í fyrstu gruna, hvílíkur sægur þar er af nýjum orðum. Eg hefi til gamans skrifað hjá mér hátt á annað hundrað þessara nýyrða.“

Guðmundur sagði Jónas ýmist hafa tekið orð sem til voru í málinu og fengið þeim nýja merkingu, eða sett saman ný orð „svo eðlileg og blátt áfram að mann furðar mest hvers vegna þau hafa ekki verið til í þúsund ár,“ eins og Guðmundur tók til orða.

Svavar tekur í sama streng og Guðmundur forðum tíð. Segir furðumörg þeirra orða sem Jónas smíðaði algeng enn í dag þótt mörg sem hann bjó séu til að líkindum ekki lengur notuð.

Nýyrðasmíð var hafin löngu á undan Jónasi og félögum, segir Svavar, og var hluti af málhreinsunarstefnu 19. aldar en hún var runnin af fleiri en einni rót. „Auk þess sem hún átti rætur í íslenskri hefð allt frá dögum Arngríms lærða var hún m.a. afsprengi rómantísku stefnunnar, sem lagði áherslu á það þjóðlega og þar með varðveislu þjóðtungnanna,“ sagði Svavar og nefndi dæmi um svipaðar hreyfingar sem gengu yfir önnur lönd.

Svavar segir allar líkur á að Jónas hafi byrjað að smíða orð mjög ungur. Fjölnismenn hafi án efa búið til einhver orð í sameiningu en margt sé augljóslega Jónasar eins.

Jónas bjó m.a. til lýsingarorðið fjaðurmagnaður. Áður var talað um stælingarkraft.

Jónas virðist hafi birt fyrstu nýyrðin í Fjölni árið 1935, þegar hann var 28 ára, en fyrsta heila bókin sem hann glímdi við að þýða var stjörnufræði Ursins sem kom út 1842 og áður var nefnd.

Jónas lést haustið 1845 aðeins tæplega 38 ára að aldri.

Svavar nefnir nokkur dæmi um falleg orð Jónasar: „Austankul. Austangola var til í fornmáli en hitt kemur hvergi annars staðar fyrir áður svo vitað sé áður en Jónas notar það. Ég hef því tekið mér það bessaleyfi að eigna honum orðið þótt ég hafi ekki sannanir fyrir því.“

Fannburður er annað orð sem Jónas notar fyrstur svo vitað sé. Fífilbrekka eitt enn.

„Ég held að óhætt sé að segja að Jónas hafi verið stórtækasti nýyrðasmiður sinnar kynslóðar,“ svarar Svavar þegar spurt er. Bætir svo við að hlutur tímaritsins Fjölnis (1835-1847) í endursköpun ritmálsins verði seint fullmetinn en hinir Fjölnismennirnir, Brynjólfur Pétursson, Konráð Gíslason og Tómas Sæmundsson, hafi þó ekki verið iðnir á þessu sviði.

Púðurfull holkúla...

Konráð var t.d. ekki mikið fyrir að búa til orð en kom hins vegar mikið með útlistanir, segir Svavar. „Í dansk-íslenskri orðabók sem kom út 1851 notar hann t.d. ekki orðið sprengikúla sem Jónas hafði þó áður birt. Þetta er danska orðið bombe; um það segir Konráð: „Púðurfull holkúla sem skotið er úr fallbissu og ætluð til sprengs.““

En skyldi eitthvað einkenna nýyrði Jónasar umfram annað?

„Helst hvað þau eru nútímaleg. Manni finnst eins og þessi orð hafi alltaf verið til í málinu!“ segir Svavar og nefnir dæmi: „Jónas notar orðið rafurmagn. Magnús Stephensen hafði áður notað rafurkraftur en rafurmagn er þjálla og fólk notaði það alveg fram á mína daga.“ Nú er talað um rafmagn.

„Nýyrði Jónasar fara mjög vel í munni og hugsunin í þeim er sú að koma fyrir lýsingu á fyrirbærinu í orðinu, hugsað út frá íslensku.“

Fjaðurmagnaður er enn eitt fallega orðið, sem Svavar nefnir. „Sumum finnst klógulur fallegasta orð tungunnar; örninn er með gula kló. Ég get nefnt orðið fannburður, og ljósvaki er líka mjög fallegt orð og velheppnað sem enn lifir í raun og veru.“

Svavar segir engum blandast hugur um að Jónasi hafi tekist vel að búa til þau orð sem hann vanhagaði um. „Ekki er að efa að ýmis fleiri orð eru í skáldskap hans og víðar sem eru einstök og ekki hafa verið til fyrir þó að ekki hafi verið skráð sem nýyrði hans sérstaklega.“

Svavar segir að ekki hafi verið farið rækilega í saumana á Orðabók Konráðs Gíslasonar 1851 „en hann getur iðulega þeirra orða í þýðingum sínum í orðabókinni sem Jónas á heiðurinn af. Konráð hefði getað lært margt af Jónasi til þess að gera orðabókina nothæfari með því að hafa þar fleiri orð í stað skilgreininga.“

Mikið málbótastarf

Ljósvaki er þýðing á æther og sjónarhorn þýðing á synsvinkel. „Konráð hefur ekki orðið fjaðurmagnaður, heldur þýðir hann elastisk með orðunum „sem lætur undan og tekur við sér aptur, sem teygja eða staður er í“. Konráð gefur ekki orðið sjónauki hvorki fyrir kikkert né microscop heldur sjónpípa fyrir hið fyrra og stækkunargler fyrir hið síðara, en Jónas notaði sjónauka fyrir mikroskop.“

Konráð hefur því ekki haldið sérstaklega á lofti nýyrðum Jónasar að því er séð verður, að sögn Svavars.

„Jónas ritaði ekki beint um málrækt. Málbótastarf Jónasar liggur allt í skáldskap hans, bundnum og óbundnum, og öðru því er hann ritaði. Með yfirburðum sínum á því sviði kom hann ef til vill mestu til leiðar í málbótastarfi síns tíma að öðrum ólöstuðum,“ sagði Svavar Sigmundsson.