Mynd tekin í fríinu síðastliðið sumar. Desember er annasamur og við erum fram í september að jafna okkur.
Mynd tekin í fríinu síðastliðið sumar. Desember er annasamur og við erum fram í september að jafna okkur. — Morgunblaðið/Eggert
07.45 Vakna við mikla sprengingu og læti. Patti litli, sérlegur aðstoðarmaður yfirhreindýrameistarans, kemur hlaupandi inn til okkar og ber þær fréttir að bangsafæriband nr.

07.45 Vakna við mikla sprengingu og læti. Patti litli, sérlegur aðstoðarmaður yfirhreindýrameistarans, kemur hlaupandi inn til okkar og ber þær fréttir að bangsafæriband nr. 4 í Mjúkdýraframleiðslunni hafi bilað enn eina ferðina og að 325 Kærleiksbirnir endi nú í ruslinu.

08.30 Morgunmatur. Patti færir okkur ilmandi nýtt innflutt gras, snöggsteikt á pönnu með gulrótum og eplum.

09.45 Tekið á því utandyra. Hlaupum nokkra hringi í kringum leikfangaverksmiðjuna. Við erum níu, hreindýrin sem draga sleðann hans Sveinka, og hann er mismikill áhuginn á hreyfingu í hópnum. En börnunum fjölgar, sleðinn þyngist og eins gott að vera í formi til að draga herlegheitin þvert og endilangt yfir himinhvolfið.

11.00 Það er kalt á norðurpólnum á þessum tíma og gott að koma inn í hlýjuna aftur. Það leggur ljúfan ilm af piparkökum um allt og það er greinilegt að piparkökukarlarnir og -kerlingarnar koma nú í tugatali út úr risastórum ofnunum í eldhúsinu. Eftirvæntingin eftir hátíðinni miklu magnast!

13.00 Mættur á fund strax eftir hádegismat. Viðstödd eru öll hreindýrin, jólasveinninn og Bumbur, yfirhreindýrameistari. Á fundinum er ætlunin að ræða pirring sem kominn er upp vegna Rúdolfs sem hefur verið forystuhreindýrið síðastliðna áratugi og þykir mörgum nóg um stjörnustælana í honum. Við ræðum að skiptast á um að vera í forystuhlutverkinu. Rúdolf bendir á að vissulega sé hann einstakur út af þessu bjánalega rauða nefi. Bumbur sussar á hann og minnir á að öll séum við á einhvern hátt einstök. Jólasveinninn segir alla hafa nokkuð til síns máls og lofar að finna ásættanlega lausn á þessu fyrir jól.

14.20 Bumbur og Patti ásamt sérþjálfuðum heilbrigðisálfum kíkja á mig fyrir kaffi. Er kominn með ofnæmi fyrir stjörnurykinu sem fær sleðann til að fljúga og hnerra í sífellu. Var næstum því búinn að draga sleðann niður af þaki í Sao Paulo síðustu jól og vakti börnin í húsinu. Við ræðum ýmsa möguleika á meðferð.

15.00 Kaffitími. Við hreindýrin fáum þessar síðustu vikur fyrir jól heitt kakó í fötum og piparkökur í jöturnar til að gæða okkur á. Við erum náttúrlega engin venjuleg hreindýr!

15.30 Tími fyrir stuttan lúr. Þau okkar sem ekki geta sofið slúðra um allt það nýjasta. Ónefndur álfur var til dæmis fluttur í Snjókarlagerðina eftir að upp komst að hann sleikti alla brjóstsykurstafina sem hann átti að gæðaprófa í Sælgætislandi. Svo heyrðist því hvíslað að nýi gjafapappírinn væri óendurnýtanlegur en það er víst algjört bull.

17.00 Fer í göngutúr með Patta. Hann þarf að ná sér í nýja skó þar sem sylgjan datt af hvorum tveggja gömlu skónum. Við komum líka við í jólatrjáaskógræktinni en ég bíð rólegur fyrir utan skrifstofukofann á meðan hann fer inn. Held nefnilega að hann sé dálítið skotinn í henni Súsí sem vinnur þar og vil gefa þeim smátíma í friði.

20.00 Stutt flugæfing eftir mat. Sleðinn er tómur þannig að æfingin reynir ekki mikið á en ég hnerra og hnerra af stjörnurykinu.

21.30 Háttatími. Leggst á mjúkt heyið og ætla að láta mig dreyma um komandi jólanótt.

Gleðileg jól!

holmfridur@mbl.is