Írland Írska ríkisstjórnin hefur reynt að takast á við fjárhagsvanda ríkissjóðs með niðurskurði og öðrum aðgerðum, sem hafa leitt til mótmæla.
Írland Írska ríkisstjórnin hefur reynt að takast á við fjárhagsvanda ríkissjóðs með niðurskurði og öðrum aðgerðum, sem hafa leitt til mótmæla. — Reuters
Bjarni Ólafsson bjarni@mbl.is Írska ríkið hefur tekið yfir bankann Allied Irish Banks og er það fjórði írski bankinn sem fellur undir stjórn ríkisins frá upphafi hrunsins árið 2008.

Bjarni Ólafsson

bjarni@mbl.is

Írska ríkið hefur tekið yfir bankann Allied Irish Banks og er það fjórði írski bankinn sem fellur undir stjórn ríkisins frá upphafi hrunsins árið 2008.

Mun ríkissjóður Írlands leggja bankanum til laust fé upp á 3,7 milljarða evra, andvirði um 570 milljarða króna. Á móti eykst eignarhlutur ríkisins í bankanum úr 19 prósentum í 92 prósent.

Hefði ekki lifað fram yfir áramót

Dómstóll í Dublin féllst á yfirtökuna í gær, en ekki var leitað samþykkis hluthafa bankans.

Allied Irish var stærsta fyrirtæki Írlands árið 2007, ef miðað er við markaðsvirði og var þá um 21 milljarðs evra virði. Miðað við hlutabréfaverð núna er virði hans hins vegar aðeins um 340 milljónir evra.

Staða hans var orðin afar veik, ef marka má orð fjármálaráðherra Írlands. Í sjónvarpsviðtali sagði ráðherrann, Brian Lenihan, að ef ekki hefði komið til yfirtöku og fjárframlags hefði Allied Irish ekki lifað fram yfir áramót.

Þrátt fyrir þessa umfangsmiklu aðstoð frá írska ríkinu segir í frétt Bloomberg að Allied Irish þurfi um 6,1 milljarð evra til viðbótar fyrir febrúarlok til að geta náð 12 prósenta eiginfjárhlutfalli. Írski seðlabankinn setti skilyrði um svo hátt eiginfjárhlutfall þegar Írland fékk 85 milljarða evra björgunarpakka frá Evrópusambandinu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Slæm staða írskra banka skýrist að stórum hluta af hruni írska fasteignamarkaðarins eftir langvarandi og umfangsmikla verðbólu.