Dramatík Atli Rafn Sigurðarson og Eggert Þorleifsson í Lé konungi.
Dramatík Atli Rafn Sigurðarson og Eggert Þorleifsson í Lé konungi. — Ljósmynd/Eggert Þór Jónsson
Einar Falur Ingólfsson efi@mbl.is Lér konungur er af mörgum talið eitt magnþrungnasta leikverk breska skáldjöfursins Williams Shakespeares (1564-1616). Þjóðleikhúsið færir leikritið nú upp og er það jólasýningin í ár.

Einar Falur Ingólfsson

efi@mbl.is

Lér konungur er af mörgum talið eitt magnþrungnasta leikverk breska skáldjöfursins Williams Shakespeares (1564-1616). Þjóðleikhúsið færir leikritið nú upp og er það jólasýningin í ár. Í verkinu beinir skáldið sjónum að valdinu, oflætinu og fallvaltleikanum, af ógnvænlegum krafti.

Leikið er með nýrri þýðingu Þórarins Eldjárns, sem kom út á bók í haust og var þýðingin á dögunum tilnefnd til Íslensku þýðingaverðlaunanna.

Þjóðleikhúsið fékk leikstjórann Benedict Andrews til að stýra uppfærslunni. Hann er eftirsóttur leikstjóri og hefur fært fjölda sýninga á svið, bæði í heimalandi sínu Ástralíu og í Evrópu. Hann hefur meðal annars leikstýrt mörgum sýningum hjá Schaubühne-leikhúsinu í Berlín. Fyrr á árinu hlaut hann helstu leiklistarverðlaun Ástralíu fyrir sýningar byggðar á leikritum Shakespeares.

„Þessi sýning, eins og hún birtist okkur, er að mínu mati listrænt afrek,“ segir Tinna Gunnlaugsdóttir Þjóðleikhússtjóri. „Hún er svo hrein og tær í allri framsetningu, leikur leikaranna svo markviss og skýr og texti Shakespeares, í frábærri þýðingu Þórarins, svo hnitmiðaðaur að hann talar til okkar sem aldrei fyrr. Sýningin er nánast skrautlaus í framsetningu, en náttúruöflin látin um að magna seiðinn.“

Iðulega er sagt um verk Skakespeares að þau tali inn í hvern tíma. Tinna segir það svo sannarlega eiga við hér. „Í verkinu er Shakespeare að takast á við hin myrku öfl í mannsálinni, hrokan, græðgina og grimmdina. Lér konungur sjálfur er í raun erkitýpa valdhrokans sem tekur rangar ákvarðanir, hlustar ekki á viðvörunarorð og þarf að takast á við afleiðingar gjörða sinna. Við þekkjum öll þessi myrku öfl í mannsálinni og hveru erfitt það getur reynst hverjum og einum að standa frami fyrir sjálfum sér. Galdur Shakespeare felst í því að segja einstaka sögu, en varpa um leið ljósi á stærri sannindi. Það gerir hann svo sannarlega í Lé konungi og leikstjóri sýningarinnar sviðsetur sýninguna af slíkum krafti að upplifunin verður nánast eins og að ganga í gegnum hreinsunareld, eða karþasis,“ segir Tinna. Hún segir leikstjórann, Benedict Andrews, vera þekktan fyrir framúrskarandi vinnu með leikurum og það sýni sig.

„Hann er maður nýrra tíma og kemur með nýja sýn inn í leikhúsið,“ segir hún.

Valinkunnir leikarar taka þátt í uppfærslunni. Arnar Jónsson leikur Lé konung en meðal annarra leikara eru þau Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Álfrún Helga Örnólfsdóttir, Vigdís Hrefna Pálsdóttir, Eggert Þorleifsson og Atli Rafn Sigurðarson.

Stórvirki Shakespeares
» Lér konungur eftir William Shakespeare er jólaleikrit Þjóðleikhússins í ár og verður frumsýnt annan í jólum.
» Benedikt Andrews leikstýrir uppfærslunni.
» Þórarinn Eldjárn hefur þýtt verkið að nýju.