[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nú þegar jólahátíðin er gengin í garð er það fyrsta sem kemur upp í hugann að borða eitthvað sætt til að maula í rólegheitunum yfir jólabókunum.

Nú þegar jólahátíðin er gengin í garð er það fyrsta sem kemur upp í hugann að borða eitthvað sætt til að maula í rólegheitunum yfir jólabókunum. Ég man eftir Quality Street sem allir kalla Mackintosh's enn þann dag í dag, þó svo að framleiðandinn mörg undanfarin ár sé Nestlé. Það sá maður aðeins um jólin og það þótti mikil munaðarvara. Í dag er þetta það síðasta sem maður sér þegar maður kemur á kassann í stórmörkuðunum þar sem búið er að stækka molana tífalt, sama hvenær árs er, ungt fólk í dag sér ekki munaðinn í þessu.

Ég hef ekki heyrt neinn deila lengi um það hver eigi að eiga nýja baukinn sem hentar svo vel undir smákökur og laufabrauð. Á mínu heimili eru laufabrauðsbaukarnir „orginal“ Mackintosh's, komnir vel yfir tvítugsaldurinn og bera aldurinn vel. Mamma og amma voru alltaf hrifnari af Antoni Berg sem þær nörtuðu í yfir jólabókalestri, sem okkur krökkunum fanst fínt enda marsípan ekki í miklu uppáhaldi þá.

Ég kynntist marsípankonfekti fyrstu jólin hjá tengdamóður minni, hún bjó til nokkrar útfærslur af því, ýmist bragðbættu með döðlum, hnetum, kókos, kúrenum, þurrkuðum apríkósum eða súkkulaði, svo eitthvað sé nefnt. Öllu var svo rúllað upp í litlar fallegar kúlur og hjúpað í súkkulaði.

Ég fór fljótlega að skipta mér af þessu og þótti ekki nógu gott að það var engin leið að þekkja innihaldið í sundur, þar sem allar kúlurnar litu nákvæmlega eins út. Ég tók upp á því, tengdamóður minni til mikillar mæðu, að merkja kúlurnar með því að setja viðeigandi hráefni á toppinn í stíl við innihaldið, s.s. setja kúrenu ofan á kúrenumarsípanið o.s.frv. Hún skammaði mig fyrir þetta þar sem að sjálfsögðu allir góðu molarnir kláruðust fyrst og dulúðin hvað væri undir súkkulaðinu hvarf.

Ég hef búið til konfekt og verið með talsvert af konfektnámskeiðum allar götur síðan, einhverra hluta vegna kann ég alltaf betur og betur að meta marsípanmolana. En þeir eru pínulítið eins og síldin; þeir eru alltaf vinsælir í desembermánuði en maður man alltof sjaldan eftir þeim á öðrum tímum árs.

Þess vegna finnst mér við hæfi að gefa hér uppskriftir að tveimur hátíðlegum marsípanútfærslum og uppfærðri uppskrift að blúndukexi, um leið og ég óska Maríu tengdamóður minni til hamingju með daginn 27. desember næstkomandi.

Döðlumarsípan

100 g konfektmarsípan

80 g döðlur (smátt saxaðar)

30-40 g flórsykur

1 msk koníak (eða nokkrir dropar af koníaks-essens)

súkkulaði til hjúpunar

Allt hnoðað vel saman, mótað í lengjur (eins og við smákökugerð) sem eru síðan skornar í sneiðar sem eru kældar vel og hjúpaðar með súkkulaði.

Gráfíkjumarsípan

100 g konfektmarsípan

80 g gráfíkjur (smátt saxaðar)

30-40 g flórsykur

Hvítt súkkulaði til hjúpunar

Allt hnoðað vel saman, mótað í lengjur (eins og við smákökugerð) sem eru síðan skornar í tveggja sentimetra bita, síðan kældar vel og hjúpað með hvítu súkkulaði.

Blúndukex

150 g smjör

150 g sykur

150 g síróp

150 g hveiti

Bræðið smjör, sykur og síróp saman á stórri pönnu og hrærið varlega þangað til blandan loðir saman. Kælið þá örlítið áður en hveitinu er blandað saman við. Gott er að gera pylsu úr deiginu og vefja inn í plastfilmu áður en það er notað og geyma í kæli yfir nótt. Þá er það skorið í þunnar sneiðar, raðað á fjölnota bökunardúk á ofnplötu og bakað í 10-12 mín. við 180°c eða þangað til það er gullið að lit. Þá er til dæmis hægt að móta deigið í skálar, kramarhús eða hvað sem er. Gott er að súkkulaðihjúpa hluta af kökunni.