Barátta Gaël Clichy hjá Arsenal og Nani hjá Manchester United stefna báðir á enska meistaratitilinn. Nani stendur betur að vígi eins og staðan er í dag.
Barátta Gaël Clichy hjá Arsenal og Nani hjá Manchester United stefna báðir á enska meistaratitilinn. Nani stendur betur að vígi eins og staðan er í dag. — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
England Guðmundur Hilmarsson gummih@mbl.is Vandi er um slíkt að spá segir í kvæðinu og á vel við spádóma um væntanlega Englandsmeistara í knattspyrnu þetta tímabilið.

England

Guðmundur Hilmarsson

gummih@mbl.is

Vandi er um slíkt að spá segir í kvæðinu og á vel við spádóma um væntanlega Englandsmeistara í knattspyrnu þetta tímabilið. Þegar deildin er rétt að verða hálfnuð er spennan á toppnum harðari en oft áður en aðeins þrjú stig skilja toppliðið og liðið í fjórða sæti. Ekki er síður spennandi barátta á botninum þótt fallstimpill sé kominn á lið West Ham, en fá dæmi eru um að lið sem situr í botnsætinu um jólin nái að halda sæti sínu í deildinni.

Meistararnir hafa tapað 20 stigum

Það sem vakið hefur hvaða mesta athygli í toppbaráttunni er hversu mörgum stigum toppliðin hafa tapað. Meistarar Chelsea hafa þegar tapað fjórum leikjum og samtals 20 stigum og eru í fjórða sætinu, milljarðalið Manchester City hefur tapað fjórum leikjum og samtals 22 stigum og er í þriðja sæti, Arsenal hefur tapað fimm leikjum og samtals 19 stigum og er í öðru sæti og Manchester United hefur þrátt fyrir að vera eina taplausa liðið í deildinni tapað 14 stigum en „rauðu djöflarnir“ hafa gert sjö sinnum jafntefli í 16 leikjum.

Sé tímabilið í fyrra borið saman við leiktíðina í ár tapaði Chelsea sex leikjum og samtals 28 stigum sem dugði því til að verða meistari. United tapaði sjö leikjum og samtals 29 stigum og varð í öðru sæti og Arsenal tapaði níu leikjum og samtals 39 stigum og endaði í þriðja sæti.

Man Utd: Fer sá 19. á loft?

Þrátt fyrir að Manchester United tróni á toppi deildarinnar eru stuðningsmenn liðsins langt frá því að vera sáttir við spilamennsku liðsins. Wayne Rooney hefur til að mynda ekki verið nema skugginn af sjálfum sér og munar um minna eftir glanstímabil í fyrra. Sagan segir hins vegar að United er alltaf öflugra eftir áramótin og það ætti ekki að koma neinum á óvart ef Manchester-liðinu tekst að skrá nafn sitt í sögubækurnar með því að vinna titilinn í 19. sinn og verða þar með sigursælasta knattspyrnulið Englands.

Chelsea: Leiðin liggur upp á við

Í byrjun leiktíðar lék allt í lyndi hjá Chelsea og sumir sparkspekingar gerðust svo djarfir að spá þeim þegar í stað meistaratitlinum og sumir þeirra gengu svo langt að segja að Chelsea myndi ekki tapa leik á leiktíðinni. En annað hefur komið í daginn hjá meistaraliðinu. Eftir að hafa náð um tíma fimm stiga forskoti á toppnum hefur allt gengið á afturfótunum. Nóvember var svartur, þrír tapleikir í fjórum leikjum og uppskeran í síðustu sjö leikjum aðeins sex stig. Chelsea-vélin hefur hikstað allverulega og kannski ekki nema von því Frank Lampard hefur verið frá í nokkra mánuði og þeir Didier Drogba, Michael Essien og John Terry allir misst mikið úr vegna meiðsla. Leiðin getur ekki legið nema upp á við hjá þeim bláklæddu og þegar meistararnir hafa náð vopnum sínum geta önnur lið farið að vara sig.

Arsenal: Stöðugleikann skortir

Eftir því hefur verið beðið í mörg ár að Arsenal næði að skjóta United og Chelsea ref fyrir rass en þau hafa skipt titlinum á milli sín síðan Arsenal varð síðast meistari árið 2004. Lærisveinum Wengers hefur ekki tekist að ná upp stöðugleika það sem af er. Á góðum degi hefur Arsenal spilað liða best en þess á milli hafa „Skytturnar“ fallið niður í meðalmennskuna og þrír tapleikir á heimavelli í deildinni hafa orðið til þess að fjölga gráu hárunum á kolli Wengers. Arsenalliðið skortir reynsluboltana og á meðan lykilmenn eins og Cesc Fabregas og Robin van Persie halda áfram að missa úr leiki sökum meiðsla er hætt við því að stuðningsmenn Arsenal verði að bíða um sinn eftir þeim stóra.

Man City: Sjálfum sér verstir

Hið rándýra lið Manchester City ætlaði sér að gera atlögu að titlinum í ár og ekki er enn útséð um að því takist það þó svo að undirritaður hafi enga trú á því. Leikmenn City eru nefnilega sjálfum sér verstir og gott dæmi um það er uppákoma fyrirliðans Carlos Tévez. Fyrst City tókst ekki að komast á toppinn í vikunni og vera þar um jólin í fyrsta skipti í 81 ár er hæpið að strákarnir hans Robertos Mancinis fái jafngott tækifæri aftur til að komast á tindinn það sem eftir lifir tímabilsins. Líklega munu hinir ríku eigendur félagsins draga upp seðlana fyrr eða síðar og kaupa nýjan pakka af rándýrum leikmönnum. Hvort það dugi til að liðið vinni titilinn í fyrsta skipti í 34 ár verður að koma í ljós en ég held ekki.

Tottenham: Meistaradeildin tekur toll

Fimmta liðið sem gæti blandað sér í titilbaráttuna er Tottenham en glæsileg tilþrif hafa sést til liðsins á tímabilinu og þar hefur Gareth nokkur Bale farið fremstur í flokki. Ljóst er að þátttaka í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar mun taka kraft og orku af strákunum hans Harrys Redknapps og líklegast í stöðunni að liðið verði að slást um að tryggja sér sæti í Meistaradeildinni líkt og það gerði í fyrra með góðum árangri. Þó svo að breiddin hafi aukist á White Hart Lane dugar hún ekki til þess að liðið hafi alveg burði til að fara alla leið. Tottenham er klárlega það gott að það getur unnið hvaða lið sem er en á það enn til að geta tapað fyrir veikustu liðunum.

Liverpool: Áframhald á eyðimerkurgöngu

Fá lið á Íslandi eiga sér fleiri fylgismenn en Liverpool en þeim hefur þó fækkað mjög sem vilja ræða það neitt sérstaklega að þeir haldi með Liverpool. Þetta sigursæla lið er í heldur sorglegri stöðu en það hefur tapað fleiri leikjum en það hefur unnið. Sjö tapleikir í fyrstu 17 leikjunum eru ávísun á vandræðagang og eyðimerkurgöngu Liverpool í átt að titlinum er hvergi nærri lokið. Í 20 ár hafa stuðningsmenn „rauða hersins“ beðið þess stóra og víst er að hann fer ekki á loft á Anfield í maí. Of margir meðaljónar eru í Liverpool-liðinu og á meðan ekki er hægt að treysta á framherjann Fernando Torres bíður Liverpool það verkefni á nýju ári að tryggja sér Evrópusæti en það gæti orðið þrautin þyngri með Roy Hodgson í brúnni.

W-in þrjú kveðja úrvalsdeildina í vor. Mín spá er sú að West Ham, Wolves og Wigan nái ekki losa sig við falldrauginn. Ekki orð um það meir.

Staðan

Man. Utd 1697036:1634

Arsenal 17102534:1932

Man. City 1895425:1532

Chelsea 1794431:1231

Tottenham 1776425:2227

Sunderland 1869321:1827

Bolton 1868430:2526

Newcastle 1764727:2622

Liverpool 1764721:2222

Blackpool 1664624:2922

WBA 1764724:2922

Blackburn 1864823:2822

Stoke City 1763821:2221

Everton 1849520:2121

Aston Villa 1755719:2820

Birmingham 1739517:2018

Fulham 17210516:2016

Wigan 1737713:2816

Wolves 17431018:3015

West Ham 1827916:3113