Fyndið Guðjón Davíð og Lára Jóhanna sem ráðherrann og viðhaldið.
Fyndið Guðjón Davíð og Lára Jóhanna sem ráðherrann og viðhaldið.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Leikarar: Guðjón Davíð Karlsson, Lára Jóhanna Jónsdóttir, Sigurður Sigurjónsson, Hilmar Guðjónsson, Bergur Þór Ingólfsson, Unnur Ösp Stefánsdóttir, Rúnar Freyr Gíslason, Elma Lísa Gunnarsdóttir, Þröstur Leó Gunnarsson. Leikmynd: Snorri Freyr Hilmarsson.

Leikarar: Guðjón Davíð Karlsson, Lára Jóhanna Jónsdóttir, Sigurður Sigurjónsson, Hilmar Guðjónsson, Bergur Þór Ingólfsson, Unnur Ösp Stefánsdóttir, Rúnar Freyr Gíslason, Elma Lísa Gunnarsdóttir, Þröstur Leó Gunnarsson. Leikmynd: Snorri Freyr Hilmarsson. Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson. Tónlist: Baggalútur. Þýðing og heimfærsla: Gísli Rúnar Jónsson. Leikstjóri: Magnús Geir Þórðarson. Frumsýning, 25. janúar 2011.

Það er óhætt að segja að Íslendingar hafi skemmtun af gamanleikjum eða försum, það sýna áhorfendatölur í gegnum árin. Farsar eru líka til þess gerðir að skemmta fólki, fá það til að gleyma stað og stund og hlæja að ótrúlegum og ólíklegum aðstæðum persóna verksins. Oftast eru aðstæður byggðar á misskilningi, hlutirnir fara úr böndum og söguhetjurnar lenda í vandræðum. Í farsa er einnig mikið um orðaleiki, ýjað að kynferðismálum, eltingaleikur er oft nauðsynlegur, líkamsbeiting er ýkt og síðast en ekki síst er hraði og tempó það sem skiptir höfuðmáli. Farsi er alls ekki auðveldasta leikhúsformið því ef eitthvað út af ber þá er stutt í harmleik eins og þýðandi verksins sem hér um ræðir, Nei, ráðherra!, Gísli Rúnar Jónsson, kemst að orði í leikskrá.

Nei, ráðherra! eftir Ray Cooney er dæmigerður farsi. Höfundur fer algjörlega eftir kúnstarinnar reglum miðað við skilgreiningu á farsa. Sagan segir frá ráðherra nokkrum sem leigir sér hótelherbergi til að eiga kvöldstund með viðhaldinu. Þau hafa bæði auðvitað logið til um áform sín þetta kvöld svo þau geti fengið að vera í friði. En friðurinn er úti þegar þau finna dauðan mann í gluggakistu herbergisins og í stað þess að hringja í lögreglu hringja þau í aðstoðarmann ráðherrans. Þá byrjar ballið og flækjan virðist engan endi taka. Inn í þessar ómögulegu aðstæður flækjast svo starfsmenn hótelsins, eiginkona ráðherrans, eiginmaður viðhaldsins og sjúkraliði.

Gísli Rúnar Jónsson hefur þýtt verkið og heimfært upp á íslenskar aðstæður. Það tekst ótrúlega vel hjá honum. Textinn er bráðfyndinn og heimfærslan hittir í mark.

Í hlutverki ráðherrans Örvars Gauta Scheving er Guðjón Davíð Karlsson. Gói er gamanleikari af Guðs náð, ef svo mætti að orði komast. Það er aðeins annað yfirbragð yfir honum í þessari sýningu, eins og hann hafi þroskast betur sem leikari.

Aðstoðarmanninn Guðfinn Maack leikur Hilmar Guðjónsson. Hilmar er ekki síður frábær gamanleikari. Hann hefur mjög skemmtilega líkamsbeitingu og fína tímasetningu.

Viðhaldið, Gógó, leikur Lára Jóhanna Jónsdóttir. Lára hefur fengið að takast á við góð hlutverk í vetur og fer hún vaxandi sem leikkona með hverju verkinu. Hún hefur útgeislun og þokka á sviði.

Eiginkonu ráðherrans leikur Unnur Ösp Stefánsdóttir og fylgir henni alltaf viss hressleiki á sviðinu. Eiginmann viðhaldsins leikur Rúnar Freyr Gíslason með miklum krafti og snerpu.

Starfsmenn hótelsins eru í höndum Bergs Þórs Ingólfssonar, Sigurðar Sigurjónssonar og Jóhönnu Vigdísar Arnardóttur. Þau fara öll feiknavel með sín hlutverk.

Sjúkraliðann Hlédísi leikur Elma Lísa Gunnarsdóttir með ágætum.

Síðast en ekki síst er það Þröstur Leó Gunnarsson en hann leikur „líkið“ Martein Ófeigsson. Óhætt er líklega að fullyrða að aldrei hefur lík verið jafnvel leikið á íslensku sviði. Þröstur á dásamlegt atriði í lok fyrri hluta leikritsins.

Magnús Geir Þórðarson stýrir sýningunni af mikilli kunnáttu og hefur hann valið réttan mann í hvert rúm. Snorri Freyr Hilmarsson sér um leikmyndina sem er hefðbundin og fylgir alveg reglum farsans um innkomur, dyr, skápa og glugga, sem allt skiptir máli í framvindu verksins.

Ljósin eru í höndum Björns Bergsteins Guðmundssonar, hljóðmynd í höndum Ólafs Thoroddsen og gervin í umsjón Sigríðar Rósu Bjarnadóttur. Allt gekk þetta upp eins og í sögu.

Tónlist Baggalúts var fremur hlutlaus og lítt áberandi og telst það kostur í þessu tilfelli. En þeir félagar hafa tilfinningu fyrir hinu leikræna og leikhúsi og ættu að sjást meira á fjölum leikhúsanna.

Nei, ráðherra! er mjög vel heppnaður farsi, hraður og ótrúlega fyndinn.

Ingibjörg Þórisdóttir

Höf.: Ingibjörg Þórisdóttir