Ragnheiður Jónsdóttir fæddist á Brekku í Gilsfirði 12. október 1917. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Grund 3. mars 2011. Foreldrar hennar voru Jón Theódórsson, f. 20. maí 1880, d. 4. febr. 1960 á Kleifum í Gilsfirði og Elín Magnúsdóttir, f. 20. febr. 1881 á Hrófá, Hrófbergshr., Strandasýslu, d. 20. ágúst 1960. Systkini Ragnheiðar eru: a) Guðrún, f. 29. sept. 1902, d. 21. júlí 1984, b) Margrét Theódóra, f. 13. maí 1907, d. 13. ágúst 1967, c) Kristín Soffía, f. 14. nóv. 1909, d. 3. des. 2000, d) Eggert Theódór, f. 15. nóv. 1912, d. 28. sept. 1992, e) Jón Kornelíus, f. 8. apríl 1915, d. 6. janúar 2010, g) Kristrún Soffía, f. 23. des. 1918, h) Anna Guðrún, f. 30. sept. 1921. Ragnheiður giftist Trausta Guðjónssyni frá Skaftafelli í Vestmannaeyjum 13. ágúst 1938. Börn þeirra eru: 1) Halldóra, ljósmóðir, f. 28. júní 1938, gift Einari Jónassyni, frá Grundarbrekku í Vestmannaeyjum. Synir: Trausti Ragnar, Gunnar Jónas, Fjalar Freyr og Sindri Reyr. 2) Guðjón, vélvirki, f. 23. apríl 1943, kvæntist Guðrúnu Kristínu Erlendsdóttur, d. 23.12. 2010, frá Hamragörðum í Rang. Börn: Sigríður Heiðrún, Trausti og Erlendur. 3) Kornelíus, húsasmíðameistari, f. 30. maí 1946, kvæntur Elínu Pálsdóttur, úr Kópavogi. Sonur: Tryggvi. 4) Símon Eðvald, bóndi í Skagafirði, f. 1. ágúst 1948, kvæntur Ingibjörgu Jóhönnu Jóhannesdóttur frá Egg í Hegranesi. Börn: Jónína Hrönn, Jóhannes Hreiðar, Ragnheiður Hlín og Gígja Hrund. 5) Sólveig Rósa Benedikta, sjúkraliði, f. 12. júlí 1950, d. 5. mars 2011, giftist Sigurði S. Wiium úr Reykjavík. Börn: Hrefna Rós, Sigurður Heiðar og Elva Ósk. 6) Vörður Leví, prestur og fv. lögregluþjónn, f. 21. okt. 1952, kvæntur Ester Karin Jacobsen frá Noregi. Börn: Erdna Ragnheiður, Sigmund Leví, Karin Milda og Rakel Kersti. 7) Guðrún Ingveldur, sjúkraliði, f. 5. mars 1954, gift Geir Jóni Þórissyni úr Reykjavík. Börn: Þórir Rúnar, Narfi Ísak, Símon Geir og Ragnheiður Lind. Ragnheiður verður jarðsungin frá Hvítasunnukirkjunni Fíladelfíu að Hátúni 2 í dag, 14. mars 2011, og hefst athöfnin kl. 13.

Mér tregt er um orð til að þakka þér,
hvað þú hefur alla tíð verið mér.
Í munann fram myndir streyma.
Hver einasta minning er björt og blíð,
og bros þitt mun fylgja mér alla tíð,
unz hittumst við aftur heima.
(Hugrún)

Í dag er til moldar borin elskuleg föðuramma okkar, Ragnheiður Jónsdóttir. Það er erfitt að koma niður á blað minningum um konu sem var okkur svo mikið og hefur verið hluti af okkur allt okkar líf, allar minningarnar góðar og enga skugga ber þar á. Amma hafði einstaka nærveru, hún var alltaf blíð og góð en á sama tíma dugnaðarforkur mikill og afkastaði gríðarlega í öllum verkum sínum. Það er því ekki að undra að hún hafi alla tíð verið eftirsótt til vinnu. Hún var verklagin með eindæmum, sneið og saumaði og á örskotsstundu var orðinn til nýr jólakjóll á einhverja okkar systranna eða nýjar buxur á bróðurinn. Oftsinnis lögðum við stelpurnar inn pantanir fyrir einhverri flík sem okkur langaði í á barbídúkkurnar og aldrei þurftum við að bíða lengi því amma var aldrei sein að hrinda hlutunum í framkvæmd. Í gegnum árin hefur amma séð okkur og fjölskyldum okkar fyrir prjónuðum lopasokkum og ullarvettlingum í tugavís, enda mikil handverkskona og snögg með hvert stykkið, eins og hennar var von og vísa. Svona var hún amma, alltaf að hugsa um hópinn sinn. Amma og afi dvöldu öll sumur í Ketu, í bústaðnum sínum Bjargi, eftir að afi hætti að vinna sökum aldurs. Þar undu þau sér vel og fannst okkur krökkunum ekki sumarið vera byrjað fyrr en farið var að rjúka úr strompnum á Bjargi, áður en rafmagnið var lagt þangað og afi kynti bústaðinn enn með kamínu sem hann brenndi í viðarkubba og kurl. Alltaf var mikil tilhlökkun hjá okkur þegar farið var í heimsókn til þeirra á Ásbrautina þar sem þau bjuggu lengstan hluta ævi sinnar. Þar áttu þau fallegt heimili, búið fallegum munum og fullt af kærleika. Enn minnumst við lyktarinnar þar, tifsins í veggklukkunni og nammimolanna sem amma gaf okkur í nesti til að hafa á leiðinni heim eftir dvölina þar hjá þeim. Þegar hugsað er til þessa tíma er eins og tíminn staðnæmist og við getum séð fyrir okkur hvernig allt var þar. Amma var alltaf ákaflega vel tilhöfð, alltaf í kjól eða pilsi og á hælaskóm. Einu sinni á ári fór amma í síðbuxur, en það var þegar farið var til berja. Þá klæddist hún líka gúmmístígvélum en það ekki neinum venjulegum stígvélum því hennar stígvél voru sko með hælum! Hún passaði vel uppá að fara mjög reglulega í lagningu og gekk svo með hárnet til að hárið héldist lengur fínt. Einu sinni voru einhver okkar að fara að veiða síli, en háfurinn hafði orðið fyrir hnjaski í síðustu veiðiferð, svo farið var að leita að einhverju sem hægt væri að nota til veiðanna. Amma tók þá niður hárnetið og með það héldum við af stað. Hún var alltaf með ráð undir rifi hverju og gott að leita ráða hjá henni. Amma var stórtæk kona en með eindæmum rík af þolinmæði og umburðarlyndi gagnvart okkur. Ófáar minningarnar eigum við frá því þegar amma ætlaði að demba sér í að steikja nokkrar kleinur. Þá var stóri balinn tekinn fram og gerð lifandis ósköp af deigi. Oftar en ekki vorum við krakkarnir svo með hendurnar á kafi í balanum að hjálpa til við að hnoða deiginu saman, sem að sjálfsögðu var enginn flýtir af, en amma brosti bara og taldi okkur trú um að við værum í raun og veru að hjálpa verulega til. Hún var uppspretta af sögum og fróðleik sem hún deildi með okkur og umgekkst okkur ætíð sem jafningja og af mikilli virðingu. Virðinguna fékk hún endurgreidda frá okkur barnabörnunum og það með vöxtum.
Amma var mjög trúuð kona og erum við systkinin alin upp við Guðsótta og góða siði. Það er dýrmætt veganesti út í lífið og fyrir slíkt ber að þakka. Undanfarnir dagar hafa verið okkur öllum erfiðir, því Sólveig föðursystir okkar og miðdóttir ömmu lést rúmum sólarhring eftir andlát ömmu, eftir hetjulega baráttu við krabbamein.

Hve dýrðleg er sú vissa
að vita að Jesús er
sá vinur sem á himnum
biður fyrir mér.
Hann fyrirgefur misgjörðir
sjúka læknar sál.
Hann sér og skilur ávallt
hin leyndu hjartans mál.

Hann elskar, mig, Hann elskar
Hann elskar mig svo heitt.
Hann veit hvað hjartað þráir
og synjar ekki um neitt.
Hann frá mér voða víkur
og vota þerrar brá
ég veit um eilífð alla
ég uni Jesú hjá.
(Kristrún Soffía Jónsdóttir, systir ömmu)

Já, vissan um að amma og Sólveig dvelji nú hjá Guði föður okkar á himnum er dýrðleg. Hafi þær hjartans þökk fyrir samfylgdina, fyrirbænirnar og kærleikann. Fjölskyldur okkar færa hugheilar þakkir fyrir samfylgdina og góð kynni. Minning þeirra er og verður ljós í lífi okkar um alla tíð.

Gígja Hrund, Ragnheiður Hlín, Jóhannes Hreiðar og Jónína Hrönn Símonarbörn.