Guðmundur Sveinsson fæddist á Hofsstöðum í Þorskafirði í Reykhólasveit 11. ágúst 1920. Hann lést á Reykhólum 24. mars 2011. Faðir hans var Sveinn Sæmundsson, ættaður úr Dölum, og móðir hans Sesselja Oddmundsdóttir úr Bolungarvík. Árið 1942 kynnist Guðmundur eftirlifandi konu sinni Halldóru Guðjónsdóttur frá Litlu-Brekku í Geiradal. Guðmundur og Halldóra hefja búskap á Miðjanesi 1944 í tvíbýli við Játvarð Jökul og Rósu Hjörleifsdóttur og eru þar til vors 1948. Frá Miðjanesi fara þau að Borg og búa þar í tvíbýli við Guðrúnu systur Guðmundar og Brynjólf Jónsson. Frá Borg flytjast þau árið 1952 að Gröf í Gufudalssveit og bjuggu þar allan sinn búskap. Þegar Guðmundur og Halldóra kynntust átti hún tvö börn fyrir, Guðrúnu Kolbrúnu Pálsdóttur, f. 1939, og Gísla Sævar Guðmundsson, f. 1941. Saman eignuðust Guðmundur og Halldóra tvær dætur, þær Ósk Jóhönnu, f. 1946, og Arndísi Ögn, f. 1954. Barnabörnin eru níu og langafabörnin eru tíu. Útför Guðmundar Sveinssonar fór fram á Reykhólum 2. apríl 2011.

Það er okkur Miðhúsafólki ljúft að minnast heiðursmannsins Guðmundar Sveinssonar í Gröf. Mundi eins og hann var kallaður var fæddur að Hofsstöðum 11. ágúst 1920. Hann ólst upp við almenn sveitastörf en snemma hneigðist hann til fjármennsku. Það var umtalað hversu natinn hann var og góður við þær kindur og aðrar skepnur sem í búi hans voru. Guðmundur var giftur Halldóru Guðjónsdóttur frá Litlu Brekku í Geiradal. Þau hefja búskap á Miðjanesi 1944 og bjuggu þar í tvíbýli við Játvarð Jökul og Rósu Hjörleifsdóttur til vorsins 1948. Þaðan fluttu þau að Borg þar sem Guðrún systir hans og Brynjólfur Jónsson bjuggu og voru þar til ársins 1952. Þaðan fluttu þau að Gröf og bjuggu þar allan sinn búskap. Halldóra átti fyrir börnin Guðrúnu Kolbrúnu og Gísla Sævar og eignuðust þau Guðmundur tvær dætur, Ósk Jóhönnu og Arndísi Ögn. Eiga systkinin frá Gröf fríðan hóp afkomenda. Tvö minningarbrot koma í hugann þegar ég lít yfir farinn veg sem tengjast Guðmundi og Halldóru. Veturinn 1978-79 var mildur framan af en um miðjan apríl brá til hins verra með vetrarhörku og frostum sem stóðu látlaust fram undir júní byrjun. Ótíðin gerði bændunum óleik og bakaði ómælt erfiði í sauðburðinum. Stabbinn minnkaði ískyggilega í hlöðunni í Gröf. Hallgrímur bróðir Guðmundar kom að máli við föður minn og innti hann eftir hvort hann væri aflögufær með hey. Pabbi hélt það nú og bað hann að draga ekki komu sína. Ekki leið á löngu áður en bræðurnir komu ásamt Sveini bróðursyni þeirra og fékk Guðmundur nægju sína af ilmandi töðunni. Að loknum heyskap var boðið í kaffi í eldhúsinu á Miðhúsum og glatt var á hjalla. Guðmundur spyr pabba hvað hann eigi borga honum fyrir heyið. Pabbi sagðist heyra illa. Gerðu mér frekar greiða þegar mér liggur á biður pabbi og féllst Guðmundur á það. Úr ótíðinni rættist og sumarið leið tíðindalítið. Haustlitirnir tóku að leggja blæ sinn á náttúruna. Það var til siðs heima að tína krækiber í saft og sultu. Við vorum alltaf á höttunum eftir góðum berjabrekkum. Verður það að ráði að hringja að Gröf og fá leyfi til að gá að góðum berjabrekkum þar sem hægt sé að drepa niður tínu. Verið ævinlega velkomin svaraði Dóra og inn að Gröf fórum við. Veður var stillt, ekki ský á himni og glaða sólskin. Á móti okkur var tekið með ljúfmennsku, ilmandi kaffi og bragðgóðu meðlæti. Síðan buðust Dóra og Mundi til að sýna okkur það helsta sem Grafarland byði uppá. Ekki vorum við svikin af því, þar sem öll ílát voru fyllt af berjum og rúmlega það. Við uggðum ekki að okkur fyrr en skuggsýnt var orðið en það gerði ekkert til. Tunglið sat á fjallstoppnum og lýsti götuna meðan við fetuðum okkur til baka klyfjuð berjum heim að Gröf. Þar beið Dóra með gómsætan kvöldverð kryddaðan skemmtilegri frásögu Munda frá horfnum tíma í sveitinni. M.a. var sagt frá manni sem fór í bónorðsför ríðandi á góðhesti sínum. Hann setti sérstakt klæði undir hnakkinn og pússaði reiðtygin hátt og lágt. Sveitungunum þótti nýrra bera við þær aðfarir. Þú bjargaðir kúnni okkar, Sveinn minn, sagði Guðmundur alvarlegur á svip og glóðin roðnaði í pípunni hans. Við vorum komin á fremsta hlunn með að slátra henni þar sem heyin voru á þrotum. Heim héldum við síðla kvölds. Tunglið var staðið upp og tók nokkur tangóspor með stjörnunum sem nærri voru. Nokkur ár liðu. Aftur var haust þegar við hittum Munda og Dóru í sláturréttinni í Króksfjarðarnesi. Mundi var hryggur en lét ekki bera mikið á. Hann var að láta af búskap hafði afráðið að farga fjárstofni sínum. Það tók á að verða vitni að þessu. Ég skynjaði hryggðina þegar hann kvaddi kindurnar sínar með eftirsjá eina af annarri uns allar voru farnar. Virðing hans og væntumþykja fyrir kindunum sínum var eftirtektarverð. Kindurnar hans voru fallegar og vel hirtar enda var Mundi sagður af þeim sem þekktu til, afburða fjármaður og laginn við skepnuhald. Hvað sem hann tók sér fyrir hendur vandaði hann til verka. Á Reykhólum höfðu Mundi Dóra vetursetu í skjóli dóttur sinnar og tengdasonar en voru í Gröf yfir sumarmánuðina. Síðustu árin bjuggu þau í dvalarheimilinu Barmahlíð á Reykhólum. Það var gaman að sjá hvað úr höndum hans skapaðist þegar viðarbútur varð að fugli sem á hverri stundu myndi breiða út vængina og hefja sig til flugs. Svo haganlega var hann gerður. Allt hefur sinn endi. Þótt við vildum hægja á tímans hjóli þá er mannlegur kraftur ekki til annars megnugur en að berast með straumnum. Við þökkum Guðmundi fyrir ánægjulega samleið og við eigum kæra minningu um góðan ljúfling sem öllum vildi vel. Ættingjum hans vottum við samúð okkar.

Þrymur Sveinsson.