27. apríl 2011 | Minningargreinar | 3545 orð | 1 mynd

Ingólfur Margeirsson

Ingólfur Örn Margeirsson fæddist 4. maí 1948 í Reykjavík. Hann lést á heimili sínu 15. apríl 2011.

Foreldrar hans voru Kristín Laufey Ingólfsdóttir og Margeir S. Sigurjónsson. Systkini Ingólfs eru Margrét, f. 22.5. 1933, Lilja, f. 5.5. 1936, Guðjón, f. 6.3. 1942, Sigurjón, f. 8.2. 1953, d. sama ár, og Óskar Helgi, f. 11.6. 1954.

Ingólfur lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1969 og fyrri hluta fil. kand.-prófs í kvikmynda- og leikhúsfræðum frá Stokkhólmsháskóla 1974. Árið 2006 lauk hann BA-prófi í sagnfræði við Háskóla Íslands og vann að mastersritgerð er hann lést.

Árið 1989 kvæntist Ingólfur eiginkonu sinni, Jóhönnu Jónasdóttur lækni, f. 11.9. 1950. Sonur þeirra er Jónas Margeir, fréttamaður og lögfræðinemi, f. 13.1. 1988. Fyrri kona Ingólfs er Tone Myklebost, blaðamaður í Noregi og bókmenntaþýðandi úr íslensku á norsku, f. 7.4. 1954. Börn þeirra eru Lilja María, kvikmyndaleikstjóri, f. 27.8. 1976, og Daníel Örn, háskólanemi, f. 24. 6. 1980. Uppeldisdætur Ingólfs eru Halla Björg Lárusdóttir ljósmóðir og Tiril Theresa Myklebost, sendikennari í norsku við Háskóla Íslands.

Ingólfur starfaði sem blaðamaður í Noregi á árunum 1975-1977 og var ritstjóri sunnudagsblaðs Þjóðviljans á árunum 1978-1980. Hann var fréttaritari RÚV-Sjónvarps í Ósló 1980-1983 og ritstjóri Helgarpóstsins 1983-1986. Árið 1987 tók hann við starfi ritstjóra Alþýðublaðsins og gegndi því til ársins 1992. Ingólfur var í aðalstjórn SÁÁ 1983-1989 og í framkvæmdastjórn SÁÁ 1983-1985 og 1987-1988. Hann gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Alþýðuflokkinn, sat m.a. í flokksstjórn, og tók síðar virkan þátt í starfi Samfylkingarinnar.

Eftir Ingólf liggur fjöldi ritverka, m.a. Lífsjátning, ævisaga Guðmundu Elíasdóttur (1981), sem tilnefnd var til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 1983, Erlend andlit, þættir (1982), Ragnar í Smára (1982), Allt önnur Ella ævisaga Elínar Þórarinsdóttur (1986), Lífróður, ævisaga Árna Tryggvasonar leikara (1991), Hjá Báru, endurminningar Báru Sigurjónsdóttur (1992), Frumherjarnir og Sporgöngumenn, saga AA-hreyfingarinnar (1994 og 1996), María, saga Maríu Guðmundsdóttur (1995), Sálumessa syndara, ævi og eftirþankar Esra S. Péturssonar (1997), Bylting Bítlanna (2002), Afmörkuð stund (2005) og Sæmi rokk (2008). Þá skrifaði Ingólfur greinar í innlend og erlend tímarit og blöð og annaðist þáttagerð á RÚV og Stöð 2 og má þar nefna þættina Í sannleika sagt sem hann sá um ásamt Valgerði Matthíasdóttur og samtalsþættina Þriðji maðurinn og Á elleftu stundu sem hann vann með Árna Þórarinssyni.

Útför Ingólfs verður gerð frá Dómkirkjunni í Reykjavík í dag, 27. apríl 2011, kl. 15.

Ég ætla ekki að halda því fram að Ingólfur Margeirsson hafi verið gallalaus manneskja. Nú, hvers vegna ekki? heyri ég hann spyrja yfir öxlina á mér. Tja... Nefndu einn galla, bara einn, segir hann með sínu hlýja en ögrandi brosi. Svona halda samtöl okkar áfram, þessi samtöl sem léttu lundina og brýndu hugann sem næst daglega, og stundum oft á dag. Þótt hann sé farinn er hann hér, minn nánasti samstarfsmaður og vinur.

Manneskjur eru ekki gallalausar. Og Ingó var mikil manneskja í þeim skilningi að kostir hans voru svo miklir, eiginlega mikilfenglegir, að það tekur því ekki að tala um galla. Örlæti, síkvikur húmor og hnyttni, skapandi hugmyndaflug og réttlætiskennd geta tilheyrt upptalningunni sem þó mun aldrei ná utan um skemmtilegasta mann sem ég hef kynnst. Mannkostir voru eitt og fjölþættir hæfileikar annað. Ingó kom eins og stormsveipur inn í íslenska blaðamennsku og auðgaði hana með innsæi og stílfimi, ekki síst í persónulegum viðtölum sem höfðu mikil áhrif, prýdd teikningum hans sem túlkuðu viðmælandann í samspili við textann. Ingó var ekki maður segulbandsins, heldur tilfinningarinnar og sköpunarinnar. Síðar sprungu þessir hæfileikar enn frekar út í ævisögum sem mörkuðu tímamót í gerð slíkra verka á Íslandi. Hann féll frá með hugann fullan af verkefnum, fyrirætlunum og nýjum hugmyndum.

Það er ómetanleg gæfa að hafa fengið að njóta bæði mannkostanna og hæfileikanna. Við ritstýrðum Helgarpóstinum saman, gerðum útvarpsþætti og sjónvarpsþætti, og deildum gleði og sorgum, svo gripið sé til klisjunnar sem er svo sönn. Sjálfur kallaði hann okkur þjáningarbræður. En það sagði hann glottandi. Við vorum ekki síður bræður í gleðinni. Ingó var snillingur í að sjá gleðina í lífinu. Jákvæðni hans og baráttuþrek andspænis erfiðleikum sem trúlega hefðu slegið flest okkar út af laginu voru viðvarandi tilefni undrunar, aðdáunar og hvatningar. Ingó lét ekkert slá sig út af laginu til langframa. Heilablóðfall og fötlun urðu honum innblástur til frekari átaka en ekki uppgjafar, háskólanáms í sagnfræði, ritstarfa og félagsstarfa. Hann þakkaði þetta „lífsfrekju“ sinni. Hann var sannur lífskúnstner, lífsnautnamaður, í senn viðkvæmur og harður af sér.

Ég þarf að beita mig hörku til að tala um Ingólf Margeirsson í þátíð. Hann verður ævinlega lifandi hluti af mér. Guð styrki Góu, Jónas Margeir, Lilju, Danna, Höllu, Tiril og alla hans góðu fjölskyldu, og blessi minningu einstaks gleðigjafa. Fyrr um daginn sem hann lést stofnuðum við hljómsveit í símanum. Hún átti að heita Dúandi bumbur. Ég hlakka til að hitta Ingó á fyrstu æfingunni.

Árni Þórarinsson.

Honum Ingó var flest til lista lagt, sem prýða má einn lífskúnstner, trúbador og gleðimann. Það neistaði af húmornum í góðum félagsskap og hlátur hans var smitandi. Hann var listateiknari og músíkalskur fram í fingurgóma (enda stutt í gítarinn) og bítlavin öðrum betri. En fyrst og síðast var hann næmur, íhugull og athugull rithöfundur, sem lét sér fátt mannlegt óviðkomandi. Það besta sem hann skrifaði í formi ævisögunnar ber mannskilningi hans og listatökum á íslensku máli órækt vitni. Og mikið lifandis ósköp gat hann Ingó verið hlýr og uppörvandi félagi í dagsins önn. Því fengum við að kynnast, sem áttum því láni að fagna að vera vinnufélagar hans, á einhverju tímabili starfsævinnar. Þess vegna var hann vinmargur og eftirsóttur félagi. Ingólfur var jafnaðarmaður af lífi og sál – af hugsjón. Sú lífsskoðun hans var ofin mörgum þráðum. Í námi sínu og starfi á Norðurlöndum, í Svíþjóð og Noregi, lærðist honum að meta hið norræna velferðarríki jafnaðarstefnunnar að verðleikum. Hann vissi sem var, að sú samfélagsgerð er hin eina af hinum miklu þjóðfélagstilraunum liðinnar aldar sem staðist hefur dóm reynslunnar „with flying colours“. Um það er ekki lengur deilt, að hvergi á jarðríki er betra að búa en þar. Jafnaðarstefnan er lífsskoðun, sem hafnar hvoru tveggja – hömlulausri græðgi eigingirninnar og ofstjórnaráráttu og forsjárhyggju Stóra sannleiks. Í þjóðfélagi jafnaðarstefnunnar er lögð rækt við einstaklinginn, menntun hans og þroskaleiðir til þess að hann fái notið frelsisins. Og í því þjóðfélagi gleymast ekki okkar minnstu bræður og systur – samfélagið gengst fúslega undir þá skyldu sína að rétta þeim hjálparhönd, þegar á þarf að halda. Sjálfur lagði Ingólfur áherslu á, að hann væri kristilegur jafnaðarmaður. Ef hann átti sér einhvern leiðsögumann á torfærum lífsins, þá var það meistarinn frá Nazaret og boðskapur Fjallræðunnar: „Það sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skulið þér og þeim gjöra.“ Það má nærri geta, að manni með þessa lífssýn hefur runnið til rifja, hversu grátt skammsýnir menn og ófrómir hafa leikið samfélag okkar síðustu árin. Það er illt verk að afvegaleiða heila þjóð. Leiðarhnoða uppbyggingarstarfsins getur aðeins verið eitt: Að snúa til baka til samfélags norrænna velferðarríkja, þar sem við eigum heima. Ingólfur Margeirsson var ekki einasta sannur jafnaðarmaður – hann var góður maður – og það var mannbætandi að kynnast honum. Við Bryndís flytjum Jóhönnu og fjölskyldum þeirra beggja, heima og heiman, okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Jón Baldvin.

Ingólfur var einn þessara manna, sem hafa alltaf gaman af því, sem þeir eru að gera. Síðustu ár ævinnar var það sagnfræðin. Hann sat við tölvuna þegar hann dó. Hann var að snurfusa meistararitgerðina, sem var svo gott sem lokið. Draumurinn rættist. Næst á dagskrá voru sagnfræðilegar rannsóknir.

Ingólfs verður einkum minnzt sem rithöfundar, blaðamanns, teiknara og sérlegs áhugamanns um Bítlana. Áhuginn á Bítlunum vaknaði, þegar við vorum saman í Hagaskóla og Menntaskólanum í Reykjavík. En hann gerði fræga útvarpsþætti sína ekki fyrr en áratugum síðar auk þess að skrifa „hvítu bókina“ um fjórmenningana. Í Hagaskóla og í MR var hann í hópi skólaskálda. Sem rithöfundur lagði hann einkum stund á að semja listagóðar ævisögur. Við vorum þrír fyrrverandi ritstjórar Helgarpóstsins sem hittumst reglulega á Hressó og ræddum málefni dagsins og undantekningarlaust bar blaðamennskuna á góma. Þá lifnaði Ingó allur við. Og það var gaman að sjá „gamla“ blaðamanninn rífandi stoltan, þegar Jónas son hans bar á góma. Sonurinn fetaði nefnilega í fótspor föður síns, fór í blaðamennsku með laganámi og er nú fréttamaður á Stöð 2. Ingó var ritstjóri á Þjóðviljanum, Helgarpóstinum og Alþýðublaðinu

Þegar við félagarnir minntumst Helgarpóstsáranna og minnisstæðra stunda á blaðamannsferlinum á reglulegum kaffifundum okkar var gaman og hlegið mikið. „Kaffifundir“ okkar vinanna Ingólfs og Árna Þórarinssonar á Hressó voru andleg hressing og gleðistundir. Við Árni eigum svo sannarlega eftir að sakna Ingólfs.

Við Ingó ritstýrðum Helgarpóstinum saman í nær því fjögur ár. Blaðið var búið að skapa sér góða stöðu og það hvíldi á okkur að herða róðurinn. Við vorum vaknir og sofnir yfir velgengni blaðsins og reyndum að halda áfram að búa til blað, þar sem gætt væri jafnvægis á milli frétta og umfjöllunar um menningarmál og listir. Við unnum náið saman og hnökralaust. Þetta var bæði erfiður og skemmtilegur tími.

Ingó var bráðfyndinn maður, skemmtilegur, gæddur lífsfjöri og lífsgleði og hafði einstakt lag á að koma öllum þeim í gott skap, sem í návist hans voru. Hann lét það ekki aftra sér, þótt hann lamaðist að hluta eftir alvarlegt heilablóðfall. Hann fór ferða sinna eftir þörfum þótt hann þyrfti að styðjast við staf og þyrfti aðstoð við daglegar athafnir. Og aldrei heyrði ég hann kvarta, ekki einu sinni yfir því að þurfa að pikka á tölvuna með annarri hendi. Hann þrjóskaðist áfram með bros á vör.

Ég mun sakna vinar míns Ingólfs Margeirssonar.

Í dag kveðjum við Ingó hinztu kveðju. Ekkju hans, Jóhönnu Jónasdóttur, lækni, og börnum og uppeldisbörnum sendi ég innilegar samúðarkveðjur.

Halldór Halldórsson.

Ótímabært lát góðs félaga, Ingólfs Margeirssonar, minnir okkur á þá gjöf sem lífið er og hversu dýrmæt heilsa og aldur eru hverjum manni.

Aðrir munu rekja afrek Ingólfs sem blaðamanns og rithöfundar, ég vil minnast hans sem hugsjóna- og jafnaðarmanns, sem fram á síðasta dag var vakandi yfir okkar sameiginlega markmiði um réttlátara og betra samfélag. Við áttum samleið þegar hann ritstýrði Alþýðublaðinu og seinna í Samfylkingunni. Þar var Ingólfur ötull í hvers kyns flokksstarfi, og í kosningum síðustu ára komu eðliseiginleikar hans vel í ljós; þrautseigja, ósérhlífni og ástríða fyrir því sem hann taldi rétt.

Ingólfur lét afleiðingar heilablóðfalls fyrir tíu árum ekki á sig fá og þrátt fyrir umtalsverða fötlun fór hann í gegnum strangt nám í sagnfræði og tók fullan þátt í pólitísku starfi. Hann lokaði sig ekki af eins og stundum gerist, heldur hélt hugrakkur áfram að lifa lífinu lifandi. Þar var hann öðrum góð fyrirmynd. Bauð örlögunum birginn og hélt ótrauður áfram.

Um leið og ég þakka Ingólfi Margeirssyni fyrir þrotlausa baráttu fyrir jafnaðarstefnuna sendi ég fyrir hönd Samfylkingarinnar eiginkonu hans, börnum og öðrum aðstandendum innilegar samúðarkveðjur.

Jóhanna Sigurðardóttir,

formaður Samfylkingarinnar.

Hvað segir uppáhaldsútvarpskonan mín? var Ingó vanur að segja þegar hann hringdi í mig. Mér fannst alltaf notalegt að fá hlýju kveðjuna frá honum og síðan spurði hann út í börnin og eiginmanninn, alltaf umhyggjusamur um allt og alla.

Við Ingó kynntumst þegar hann var með pista í Morgunútvarpi Rásar 2. Þá bjó hann í Cheltenham á Englandi með fjölskyldunni. Síðar þegar þau fluttu heim hóf hann störf í Morgunútvarpinu og við stýrðum því saman í 2 ár. Ingó fannst þetta alltaf erfitt og krefjandi, sérstaklega að þurfa að vakna svona snemma en við náðum vel saman í vinnunni og við vorum oftast hress og kát. Það kom þó fyrir að við lentum í átökum og þá rifumst við heiftarlega en féllumst svo í faðma á eftir. Þannig er lífið, það skiptast á skin og skúrir.

Í maí 2001 sendum við út síðasta þáttinn okkar saman. Þátturinn var sendur út frá veitingastaðnum Þremur frökkum og fengum við margar skemmtilega gesti í heimsókn. Minnisstæðastur þeirra var án efa Rúnar Júlíusson tónlistarmaður.

Við Ingó kvöddumst með þeim orðum að nú ætluðum við að taka hlé en það yrði ekki langt. Ég var þá ófrísk af mínu yngsta barni og hann ætlaði að klára bók um AA-samtökin. Sindri, sonur minn, fæddist í lok júlí sama ár og Ingó fékk heilablóðfallið tæpum mánuði síðar.

Þá breyttist allt – og þó ekki. Vinátta okkar þroskaðist áfram. Ég var svo lánsöm að fá tækifæri til að taka þátt í endurhæfingu hans. Við gerðum margt saman, fórum á kaffihús og út að borða, í bíó og á tónleika og svo heimsótti ég hann oft og hann mig. Við bundumst órjúfanlegum böndum og okkur þótti óskaplega vænt hvort um annað. Það var ómetanlegt að sjá og upplifa framfarir hans frá því að vera nánast lamaður í hjólastól og til þess að keyra sjálfur rauða sportbílinn sinn.

Ingó kom oft upp í útvarp í heimsókn og það voru skemmtilegar stundir. Hann þekkti svo marga og oft var glatt á hjalla í mötuneytinu þegar Ingó gekk í salinn.

Það verður ekki meir og ég tárast þegar ég hugsa til þess. Ég sakna vinar míns og félaga og bið Guð að blessa minningu hans.

Hann gaf mér mikið og þá sérstaklega það að meta hið góða í fari manneskjunnar.

Megi minning hans lifa – ég mun geyma hana djúpt í hjartanu.

Góu og fjölskyldunni votta ég mína dýpstu og innilegustu samúð.

Hrafnhildur Halldórsdóttir.

Vinir mínir þrír og bekkjarbræður úr menntaskóla, Ragnar Kvaran, Jón Bragi Bjarnason og Ingólfur Margeirsson hafa með stuttu millibili kvatt þetta jarðlíf fyrirvaralaust og skilið eftir sig undarlegt tómarúm, sem aldrei verður aftur fyllt. Þeir voru allir miklir mannkostamenn og sterkir karakterar og gleymast því aldrei þeim er þekktu.

Ingólfur birtist allt í einu í skólastofunni í 4-R haustið 1966 og tilkynnti að hann væri að vertera úr máladeild yfir í stærðfræðideild. Hann passaði satt að segja ekki alveg inn í hópinn. Við vorum flestir jarðbundnir raungreinamenn og nördar, en hann var maður hinna skapandi greina – bóhem úr Vesturbænum, jafnvígur á myndlist, tónlist og hið ritaða mál. Þar að auki kvennamaður með suðrænan sjarma.

Það fylgdu honum ferskir vindar inn í bekkinn, ný sjónarmið og nýjar skoðanir og við tók hægfara aðlögun fyrir hann og okkur. Ingólfur átti afar auðvelt með allt nám, en mér er þó enn ráðgáta hvað hann vildi með nám í raunvísindum. Hans hjarta sló ávallt í takt með hugvísindunum og á þeim vettvangi lá ævistarf hans. Nema að hann hafi ætlað að nota teiknigáfur sínar til að verða heimsfrægur arkitekt. Hann hefði farið létt með það.

Ég laðaðist að honum af því hann gat spilað öll bítlalögin á gítar, hann vildi þekkja mig af því að ég hafði yfir að ráða húsnæði með píanói miðsvæðis í borginni. Þar héldum við teiti og buðum gestum, bæði fyrir og eftir böll. Sungum og trölluðum. Hvað þar gerðist man ei lengur neinn, en eitt er víst að lífið var yndislega einfalt og áhyggjulaust. Allir vildu þekkja Ingó og ég naut góðs af. Frá þeim tíma höfum við verið vinir og enginn skuggi fallið á þá vináttu.

Ævistarf Ingólfs er þjóðinni vel kunnugt. Ævisögur hans, útvarps- og sjónvarpsþættir, blaðagreinar og porttrett-teikningar jafnast á við það besta sem gert hefur verið hér á landi. Næm tilfinning hans fyrir íslenskri tungu, skilningur hans á mannlegu eðli, listræn eðlisgáfa, gleði hans og gáski gerðu hann að hinum fullkomna fjölmiðlamanni. Þar liggja stórir sigrar. Stærsti sigurinn var hinsvegar fólginn á átökunum við heilablóðfallið. Þar sýndi hann sína bestu mannkosti, úthald, þrautseigju og óendanlega bjartsýni. Bati hans varð líka með fádæmum.

Það er komið að kveðjustund og margs er að minnast. Ein bjartasta minningin er síðla í júlí fyrir 10 árum í Hrísey, viku áður en Ingólfur veiktist. Hann tekur á móti okkur Maríu niðri á bryggju á Ferguson-dráttarvélinni sinni, brosandi kátur og glaður, reiðir fram veislumat í höll sinni og alla þessa sumarbjörtu nótt syngjum við og spilum gamla slagara og bítlalög – ég með veigar í glasi en hann með hríseyskt lindarvatn. Þvílík stemning.

Höfðingi er fallinn í valinn. Við María sendum allri fjölskyldunni okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Jón Ásbergsson.

Það voru forréttindi að fá að kynnast þessum manni og ég get ekki látið hjá líða að minnast vinar míns og félaga með fáeinum orðum, eftir að leiðir okkar lágu saman á Grensásdeild eftir veikindi og lífsreynslu, sem við báðir urðum fyrir á svipuðum tíma og ég tel að það hafi orðið okkur báðum til framdráttar. Hann ritaði bók um þessa reynslu sína og ég hef helgað mig þeirri sýn sem við báðir stefndum að, þ.e. að stappa stálinu í þá sem hafa orðið fyrir áfalli.

Hann tókst á við veikindi sín með mikilli reisn og gerði jafnvel grín að. Hann var róttækur í þeirri sýn og vildi helst banka upp hjá fólki sem hafði orðið fyrir slagi og byggja það upp og sannfæra það um að slag sé ekki endirinn, baráttunni fyrir lífinu lýkur ekki fyrr en að enda tekur. Ingólfur hélt ótrauður áfram þrátt fyrir áfallið og sýndi ótrúlegar framfarir og var virkur félagi í Heilaheill, var kosinn í stjórn á þessu ári og gegndi starfi ritara. Hann var mikill og góður talsmaður félagsins í nokkur ár, gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir það, sá um samskipti þess við fjölmiðla, var einn af stofnendum að útvarpi félagsins á heimasíðunni, tók þátt í kynningarferðum, var einn af frumkvöðlum að heilakaffihópunum og ritaði hann m.a. nokkrar greinar á heimasíðu félagsins. Auk þessa var hann stofnfélagi í Hollvinum Grensásdeildar.

Hann var að ljúka við lokaritgerð í sagnfræði á lokdegi lífs síns. Hann hefur þar með lokið sinni göngu, en við félagar hans í Heilaheill höldum ótrauðir áfram og munum vinna áfram af sama kjarki og Ingólfur kenndi okkur.

Heilaheill stendur í mikilli þakkarskuld við hann og vottar eiginkonu, fjölskyldu hans og vinum dýpstu samúð.

Þórir Steingrímsson.

Ingólfur Margeirsson rithöfundur er látinn, langt fyrir aldur fram. Ég kynntist Ingólfi á fundi hjá Rithöfundasambandi Íslands árið 1998. Var honum þá umhugað að finna þar samstöðu gegn gagnrýni ráðamanna um að hann hefði gengið of nálægt einkalífi sumra með því að birta umdeilda ævisögu geðlæknis nokkurs. Sagði ég honum þá að mér þætti það bíræfið af rithöfundi að taka slíka áhættu. En rithöfundar voru í þá daga mjög á verði gegn því að brjóta meiðyrðalög; jafnvel þótt málefnin horfðu til framtíðar. Kvað svo rammt að því að jafnvel ég var lafhræddur við að birta langa ádeilu á Hitler og heimsstyrjaldirnar í sjöttu ljóðabók minni (2002). Hins vegar sé ég nú að við áttum það báðir sammerkt að vilja fjalla um skáld á tímum borgarastríða, því við höfum báðir fjallað um síleska söngvaskáldið Victor Jara, sem var myrtur af herforingjastjórninni þar 1973. En sama ár birti Ingólfur þýðingar sínar úr spænsku á nokkrum söngtextum hans í Verði. En þó að við gætum að líkindum báðir talist til hinnar meyrlyndu '68-kynslóðar tók það mig nokkra áratugi í viðbót að gerast nógu vinstrivænn til að skrifa mína baráttukveðju til Jara.

Við Ingólfur vorum hattkunnugir. Ég vil lyfta hatti mínum fyrir honum sem rithöfundi og kveðja hann með broti úr ljóði mínu: Morðinu á Victori Jara, sem birtist í níundu ljóðabók minni; Söguljóðum og sögu (2005):

Þjóðin á nú sinn dýrling,

sinn García Lorca baráttusöngv anna;

„Var nauðsynlegt að drepa hann?“ spyrja nú nágrannarnir Chile:

„Það er ógæfusöm þjóð

sem verður á

að missa sinn besta son!“

Tryggvi V. Líndal.

Það rifjast upp atburðir liðinna daga þegar ég hugsa um látinn vin og í mér bærast ýmsar tilfinningar, söknuður og þakklæti en jafnframt sektarkennd yfir því að hafa ekki haft meira samband við þennan góða og skemmtilega mann. Ég held að ég hafi fyrst tekið eftir Ingólfi fyrir frábær viðtöl hans í sunnudagsblaði Þjóðviljans en í þeim fylgdu með hnyttnar teikningar hans af viðmælendum.

Um miðjan áttunda áratuginn flutti Ingólfur á efstu hæðina á Norðurstíg 5. Þetta var þriggja hæða timburhús þar sem ég leigði fyrstu hæðina fyrir lítið fé af öðlingnum Margeiri, föður hans. Á Norðurstígnum bjuggum við saman í mörg ár, allir í húsinu urðu nánir vinir, oft var tilviljunarkennt í hvaða íbúð var sest niður til lengri eða skemmri tíma og ég man ekki til þess að nokkrar hurðir hafi verið læstar í því húsi.

Minningarnar hrannast upp: Ingólfur og fjölskylda hans að borða sunnudagslæri í litlu borðstofunni minni á fögru sumarhádegi. Ingólfur, hrókur alls fagnaðar með gítarinn í partíi, Ingólfur sem átti að mála með okkur stigaganginn í Norðurstígnum yfir helgi en lenti svo á skralli með Flosa, mági sínum, og kom ekki fyrr en á sunnudagsköldi, ennþá í stuði, í þann mund sem við vorum að þvo penslana stolt yfir litadýrðinni í þröngum ganginum og þegar hann mætti ásakandi augum íbúanna á Norðurstíg 5 sagði hann: „Þetta er bara nokkuð gott hjá ykkur, er þetta grunnurinn?“ Ingólfur sem hætti að drekka og varð annar helsti áhrifavaldur þess að ég fór sjálfur í áfengismeðferð.

Þegar Ingólfur flutti af Norðurstígnum minnkaði eðlilega þetta nána samband en það var svo aftur í Heilsustofnuninni í Hveragerði þar sem við vorum saman í tvígang að við náðum virkilega saman aftur og þar kynntist ég að sumu leyti öðrum manni. Hann var ennþá hrókur alls fagnaðar, sami húmanistinn, húmoristinn og sjarmörinn, en það leyndi sér ekki að persónuleikinn hafði mýkst og þarna var kominn einhver dýpt og skilningur þess sem gengið hefur í gegnum ótrúlegar hremmingar.

Ég sakna góðs vinar sem fór allt of snemma og ég sendi innilegustu samúðarkveðjur til fjölskyldu hans.

Þorleifur Gunnlaugsson.

Hinsta kveðja

Þúsund þakkir fyrir þátttöku þína í Heilaheill. Takk fyrir hugmyndina að Heilakaffi. Takk fyrir ný og skemmtileg sjónarhorn. Takk fyrir það að vera gleðigjafi okkar.

Við munum sakna þín sárlega.

Edda Þórarinsdóttir.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.