Kona í gæsluvarðhaldi: Stakk sambýlismann sinn hnífi KONA í Reykjavík var í gær úrskurðuð í Sakadómi Reykjavíkur í gæsluvarðhald til 1. júní næstkomandi.

Kona í gæsluvarðhaldi: Stakk sambýlismann sinn hnífi

KONA í Reykjavík var í gær úrskurðuð í Sakadómi Reykjavíkur í gæsluvarðhald til 1. júní næstkomandi. Hún hefur játað að hafa stungið sambýlismann sinn með hníf í kviðarholið og liggur hann nú þungt haldinn á sjúkrahúsi.

Aðfaranótt laugardagsins var nokkuð gestkvæmt í íbúð sambýlisfólksins við Hagamel í vesturhluta Reykjavíkur og sat fólk þar að drykkju. Talið er að einhvern tíma þá um nóttina hafi konan stungið sambýlismann sinn, en ekki er vitað nákvæmlega hvenær atburðurinn átti sér stað. Það var ekki fyrr en snemma á sunnudag sem fólk í íbúðinni kallaði eftir aðstoð og var maðurinn þá fluttur með hraði á sjúkrahús. Sambýliskona hans játaði við yfirheyrslu að hafa stungið manninn og notað til þess vasahníf. Ekki er ljóst hvað leiddi til þess að konan stakk manninn. Rannsóknarlögregla ríkisins, sem fer með rannsókn málsins, gerði kröfu um að konan yrði úrskurðuð í gæsluvarðhald til 1. júníog var úrskurðurinn kveðinn upp í Sakadómi Reykjavíkur eftir hádegi í gær, mánudag.

Á sunnudag var maðurinn talinn í lífshættu. Í gærmorgun var hann á batavegi, en var þó ekki enn talinn úr allri hættu.