Arnar Þór Egilsson kafari er maðurinn á bak við fundinn á flaki póstskipsins Phönix.
Arnar Þór Egilsson kafari er maðurinn á bak við fundinn á flaki póstskipsins Phönix. — Morgunblaðið/Ernir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
1881 strandaði danska póstskipið Phönix út af Löngufjörum á Snæfellsnesi. Skipverjar komust í land en litlu var hægt að bjarga af farminum.

1881 strandaði danska póstskipið Phönix út af Löngufjörum á Snæfellsnesi. Skipverjar komust í land en litlu var hægt að bjarga af farminum. Fyrir tveimur árum fann Arnar Þór Egilsson kafari flakið ásamt tveimur félögum sínum og nú er hafin vísindaleg rannsókn á því undir forystu Ragnars Edvardssonar fornleifafræðings. Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is

Ég renndi blint í sjóinn og það var einstök tilfinning að finna flakið. Núna langar mig bara að sjá meira og gera meira en maður verður víst að sætta sig við að þetta gerist ekki í einum hvelli eins og í bíómyndunum. Þetta er vinna sem byggir á þolinmæði,“ segir Arnar Þór Egilsson, kafari í sérsveit Ríkislögreglustjóra, sem skipulagði leitina að póstskipinu Phönix út af Löngufjörum á Snæfellsnesi og fann það ásamt félögum sínum, Eggerti Magnússyni og Eiríki Ó. Jónssyni, fyrir tveimur árum.

„Við sáum fljótt kýraugu, krana og fleira þegar við fundum flakið. Það fellur ekki á suma hluti þarna niðri,“ heldur Arnar áfram. „Það var hins vegar ekki fyrr en í leiðangri sem farinn var nú í vor að við fórum að sjá persónulega hluti, til dæmis postulín. Fornleifafræðingarnir, sem vinna með okkur, höfðu koparhandfang, krana og tvö kýraugu með sér upp og verða þeir munir rannsakaðir gaumgæfilega.“

Arnar segir ákaflega merkilegt að skoða 130 ára gamalt flak, við blasi allskonar hlutir, sem vont sé að átta sig á nú, enda þótt þeir hafi eflaust verið hversdagslegir á sinni tíð.

Eitthvað frá grunni

Fjölskylda Arnars átti lengi jörð í Miklaholtshreppi, nálægt strandstað, og þekkir hann því vel til á þessum slóðum. Hann hefur alla tíð verið mikill grúskari og fyrir fimm árum rakst hann á bók um hreppinn, þar sem getið er um strandið. Þá fóru hjólin að snúast.

„Marga kafara dreymir um að finna sitt eigið flak og ég hugsaði með mér að þarna væri mitt tækifæri komið,“ segir Arnar brosandi. „Kafarar eru alltaf að þróa sína tækni og mig hefur lengi langað að nýta mína þekkingu og reynslu til að prófa eitthvað frá grunni. Verkefnið verður að vera raunhæft og útfrá heimildum um strandið fannst mér Phönix uppfylla þau skilyrði.“

Hvernig fer gufuskip á 130 árum í sjónum? var fyrsta spurningin sem Arnar þurfti að velta fyrir sér. „Ég vissi að gufuketill og skrúfa eyðast ekki auðveldlega upp og mat það því snemma svo að eftir miklu væri að slægjast.“

Hann sökkti sér í gögn til að átta sig betur á staðsetningu flaksins. Miðað er við ýmis kennileiti í heimildum en Arnar þurfti að meta hvar þessi kennileiti væru nú. Slíkt getur hæglega breyst á 130 árum. Reyndust hjónin Trausti Skúlason og Guðríður Kristjánsdóttir á Syðra-Skógarnesi honum mjög hjálpleg í því sambandi. Leitarsvæðið var stórt og mikið af skerjum.

Eitt að standa í fjörunni, annað að kafa niður

Yfirmenn Arnars voru svo almennilegir að sameina fyrsta leitarleiðangurinn æfingu kafara sérsveitar Ríkislögreglustjóra. Það var árið 2008 og fannst ekkert í þeirri leit. „Hún gaf okkur eigi að síður tilfinningu fyrir svæðinu og hvatti okkur til dáða. Reynslan sem við öfluðum okkur nýttist vel við að skipuleggja næstu leiðangra og afmarka leitarsvæðið. Það er eitt að standa í fjörunni, annað að kafa niður.“

Næsti leiðangur var farinn í apríl 2009. Þá köfuðu Eggert og Eiríkur, ásamt Arnari, og höfðu þeir sónartæki meðferðis. Eftir dagsleit kom eitthvað fram á sónartækinu og við nánari athugun kom í ljós að það var líkast til skipsskrúfa. „Við gátum ekki verið alveg vissir en viðbrögðin voru eigi að síður fölskvalaus. Ég náði myndbandi af Eiríki þegar hann kom úr kafi og hann átti mjög erfitt með að hemja gleði sína,“ segir Arnar hlæjandi.

Arnar og félagar vildu vitaskuld fara eftir kúnstarinnar reglum og tóku fyrir vikið ekkert með sér. Merktu staðinn hins vegar vandlega og settu sig í samband við Fornleifavernd ríkisins. Þar á bæ sýndu menn málinu strax mikinn áhuga og í júní 2009 köfuðu tveir fornleifafræðingar, Magnús Sigurðsson og Ragnar Edvardsson og Leifur Þorvaldsson aðstoðarmaður þeirra niður að flakinu með Arnari og félögum.

Arnar segir aðstæður um margt ákjósanlegar á staðnum til að stunda rannsókn af þessu tagi. Flakið liggur ekki á mjög miklu dýpi (um tíu metrum) og nokkuð bjart er þar niðri. Það spillir heldur ekki fyrir að mikill skeljasandur er á staðnum.

Vonast til að finna meira

Þegar búið var að taka af allan vafa um að Phönix væri fundið óskaði Arnar formlega eftir friðlýsingu og var hún samþykkt af Fornleifanefnd ríkisins í júlí á síðasta ári.

Þeir félagar stefna að því að kafa næst niður að flakinu í ágúst í sumar. Þá ætla þeir að fara á stærri bát til að geta einbeitt sér betur að vinnunni neðansjávar. „Ég vonast til að sá leiðangur verði góður. Það á margt fleira eftir að finnast. Það yrði til dæmis ekki amalegt að koma marmaraplötunni sem setja átti á leiði Kristjáns fjallaskálds til skila.“

Arnar er þakklátur öllum þeim sem hafa lagt hönd á plóginn. „Það er útilokað að gera svona lagað einn. Maður er algjörlega háður öðrum um framkvæmdina. Það er líka gaman að geta deilt þessu með öðrum, það gefur verkefninu aukið gildi.“

Nú er bara að halda niðri í sér andanum eftir næsta leiðangri.

Knúið seglum og gufuvél

Póstskipið Phönix var tvímastra málmskip, knúið seglum og gufuvél, smíðað í Skotlandi árið 1861. Phönix var 60 metra langt og um 400 tonn að þyngd. Skipið var í eigu útgerðarinnar „Det forenede Dampskibsselskab“ (DFDS) í Danmörku, sem enn er til, og gerði hún skipið út til Íslands.

Fyrsta ferð Phönix til Íslands var 7. júní 1864 og var það í áætlunarferðum til landsins allt til þess er það fórst. Phönix var fyrsta gufuskipið sem sinnti svokölluðum miðsvetrarferðum til Íslands. Á þessum tíma skipti það Íslendinga miklu máli að fá ýmsar vörur og halda uppi samgöngum á milli Íslands og Evrópu yfir vetrartímann.

Tók niðri á blindskeri í aftakaveðri

Þegar danska póstskipið Phönix sigldi fyrir Reykjanes seint í janúar 1881 hreppti það aftaka norðanveður með hörkufrosti og blindhríð. Skipið var allt yfirísað og erfiðlega gekk að stýra því, auk þess sem menn vissu ekki fyrir víst hvar þeir væru staddir.

Eftir tveggja sólarhringa baráttu við veðuröflin og þrotlausa vinnu við að brjóta ísinn af skipinu voru menn að niðurlotum komnir. Er Phönix var statt út af Löngufjörum á Snæfellsnesi tók skipið niðri á blindskeri og leki kom að því. Áhöfnin, 24 menn, náði með naumindum að sjósetja björgunarbáta, enginn tími gafst til að bjarga farmi skipsins. Það varð til happs að skipið hafði strandað skammt frá landi, þannig að allir komust í land. Aftakabylur var og fimbulkuldi, á bilinu 10-20° frost.

Nauðsynjavörur um borð

Komnir í land börðust skipbrotsmenn áfram í veðrinu og komust ekki til byggða fyrr en mörgum klukkustundum síðar. Margir voru illa á sig komnir og þannig fór að einn úr áhöfninni lést nokkrum dögum síðar sökum kalsára. Þá varð læknir að fjarlægja útlimi nokkurra manna.

Næstu daga var reynt að bjarga einhverju af farmi skipsins en það reyndist hægara sagt en gert. Kom það sér illa fyrir marga enda mikið af nauðsynjavörum um borð. Ferðir póstskipsins voru fátíðar á þessum árum, einkum yfir háveturinn. Nokkrar ferðir voru farnar um borð í skipið, þar sem það hékk á skerinu, en lestin var full af sjó og því ógerlegt að bjarga póstpokum skipsins, þar sem þeir voru allir geymdir í skutnum.

Töluverður reki varð úr flakinu og náði rekasvæðið alla leið frá strandstað að Búðum á Snæfellsnesi. Uppboð á rekamunum voru haldin af sýslumanni og gat fólk boðið í þá hluti sem ekki voru merktir ákveðnum eiganda.

Jarðneskar leifar Jóns Sigurðssonar forseta og konu hans, frú Ingibjargar Einarsdóttur, höfðu verið fluttar með Phönix frá Danmörku til Íslands tæpu ári fyrir strandið. Til að heiðra minningu þeirra voru listamenn og myndhöggvarar fengnir til að koma með hugmyndir, gera teikningar og kostnaðaráætlanir að gerð minnismerkis, sem setja átti upp á Íslandi við leiði þeirra hjóna. Þessar tillögur og teikningar voru sendar með Phönix í þessari örlagaríku ferð. Einnig eru heimildir fyrir því að marmaraplata sem setja átti á leiði skáldsins Kristjáns Jónssonar, Fjallaskálds, hafi verið með í skipinu.

Straumhvörf í íslenskri fornleifafræði

Ragnar Edvardsson fornleifafræðingur segir rannsóknina á póstskipinu Phönix opna nýjan kafla í íslenskri fornleifafræði sem fræðigrein og gefa greininni fleiri möguleika á að túlka fortíðina og skilning á sögu íslensku þjóðarinnar. Sérsvið hans er strand- og sjávarminjar og sýndi hann málinu fyrir vikið strax mikinn áhuga eftir að Arnar og félagar fundu flakið. Rannsóknin hófst formlega nú í maí og hefur rannsóknasetur Háskóla Íslands á Vestfjörðum umsjón með henni í samstarfi við Fornleifavernd ríkisins.

„Vandamálið við íslenska fornleifafræði er það að menn eru alltaf að eltast við það sama. Það hafa fáir farið út í skipulagðar rannsóknir á minjum á hafsbotni fyrr en nú,“ segir Ragnar.

Spurður um skýringu á þessu svarar hann því til að fornleifarannsóknir á hafsbotni séu dýrar í framkvæmd og aðstæður mun erfiðari en á landi.

Tilvalið til þjálfunar

„Fáir fornleifafræðingar hafa kafararéttindi eða reynslu við rannsóknir á minjum á hafsbotni. Mikilvægt er fyrir íslenska fornleifafræði að þjálfa upp kafara í aðferðafræði neðansjávarrannsókna svo að í framtíðinni verði til hópur áhuga- og fræðimanna sem sinnt geta þessari hlið fornleifarannsókna á vísindalegan hátt. Póstskipið Phönix er tilvalið til þjálfunar kafara þar sem það liggur á litlu dýpi og allar aðstæður ákjósanlegar,“ segir Ragnar.

Hann segir litlar upplýsingar til um aðstæður neðansjávar við rannsóknir á skipsflökum, það er áhrif kulda á kafara við fornleifarannsókn, hafstrauma og aðra umhverfisþætti. Við þessa rannsókn muni safnast upplýsingar og reynsla sem nýtist við frekari rannsókn á minjastöðvum neðansjávar.

Að sögn Ragnars er lítið vitað hvernig járn, timbur eða aðrir efniviðir varðveitast neðansjávar við Íslandsstrendur fyrir þær sakir að saltmagn sjávar, lífverur sem flýta fyrir eyðingu og fleira er mismunandi eftir hafsvæðum. „Rannsóknin mun gefa ákjósanlegt tækifæri til að safna upplýsingum um hafsvæðið við sunnanvert Snæfellsnes og gefa hugmynd um minjastaði á því svæði. Slíkar upplýsingar munu nýtast við rannsóknir á öðrum neðansjávarminjastöðum á svæðinu.“

Dýr farmur á sinni tíð

Öll aðföng voru flutt inn til landsins með skipum fram á 20. öld og Ragnar segir vitneskju um það hvað kom inn í landið af skornum skammti. Hann segir of snemmt að segja til um hvað Phönix hafi að geyma en spennandi verði að rannsaka það niður í kjölinn. „Póstpokarnir eru auðvitað löngu horfnir en það er eftir ýmsu öðru að slægjast. Vitað er að þetta var dýr farmur á sinni tíð.“

Ragnar vonast til að rannsóknin á Phönix verði grunnur að frekari rannsóknum á neðansjávarminjum en þegar er búið að staðsetja tuttugu flök við Vestfirði sem hann brennur í skinninu af löngun til að rannsaka. „Ég hef gert fimm ára áætlun um rannsóknina á Phönix og vonandi munu niðurstöður hennar sýna fram á hvað hægt er að gera í þessum efnum við Íslandsstrendur. Þetta er bara byrjunin.“

Þess má geta að seinna í sumar stendur til að setja upp sýningu á völdum minjum úr póstskipinu Phönix í Sjóminjasafninu á Akranesi.