Kristján Jónsson kjon@mbl.is Gríska þingið samþykkti umdeilda aðgerðaáætlun ríkisstjórnar Georgs Papandreous forsætisráðherra í gær þrátt fyrir hávær mótmæli og allsherjarverkfall sem stóð í tvo sólarhringa og lamaði landið.

Kristján Jónsson

kjon@mbl.is

Gríska þingið samþykkti umdeilda aðgerðaáætlun ríkisstjórnar Georgs Papandreous forsætisráðherra í gær þrátt fyrir hávær mótmæli og allsherjarverkfall sem stóð í tvo sólarhringa og lamaði landið. Atkvæði féllu 155 gegn 138, sósíalistar forsætisráðherrans stóðu vel saman, aðeins einn þeirra sveik lit. Evran hækkaði á mörkuðum og víða önduðu menn léttar enda hafði verið spáð miklum hörmungum fyrir Grikki og evrusvæðið allt ef áætlunin yrði ekki samþykkt.

Papandreou hyggst mæta kröfum hinna evruríkjanna með því að skera ríkisútgjöld niður um minnst 28 milljarða evra 2011-2015. Einnig á að útvega um 50 milljarða evra í ríkiskassann með því að einkavæða hafnir, flugvelli, hraðbrautir, landsvæði, námuvinnslu, ríkissímafélagið Hellenic Telecom og selja fasteignir. Skattafrádráttur verður lækkaður um þriðjung, skattasmugum lokað og ýmsir skattar hækkaðir.

Talað um gálgafrest

Ólíklegt er samt talið að aðhaldsaðgerðirnar dugi til, margir hagfræðingar segja að einvörðungu séu um gálgafrest að ræða. Gríska ríkið verður að vísu fært um að greiða laun opinberra starfsmanna og afborganir af lánum vegna þess að það fær ný milljarðalán frá öðrum evruríkjum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. En skuldabaggi ríkisins er sem fyrr himinhár og hækkar enn með nýjum lántökum. Og niðurskurðurinn mun rýra kjör almennings og auka atvinnuleysið. Þorri kjósenda hefur í skoðanakönnunum lýst mikilli andstöðu við aðgerðirnar.

Hörðum mótmælum var haldið áfram eftir atkvæðagreiðsluna, reykur sást stíga til himins frá eldum mótmælenda við anddyri fjármálaráðuneytisins í Aþenu síðdegis í gær. Slökkvilið komst ekki að eldinum vegna mótmælanna. Um þúsund ungmenni, mörg grímuklædd, réðust gegn óeirðalögreglumönnum en var svarað með táragasi. Meiri harka færðist stöðugt í aðgerðir mótmælenda, að sögn AFP -fréttastofunnar. Höfðu 72 verið fluttir á spítala, þar af 26 lögreglumenn.

ESB ef Grikkir segðu nei

„Ekkert plan B“

Taugaveiklunin er mikil í herbúðum ESB. Finninn Olli Rehn, sem fer með efnahagsmál í framkvæmdastjórninni, þykir vera mikið prúðmenni. En að sögn Financial Times réðst hann harkalega á gríska fjármálaráðherrann er hann vildi ræða möguleika á að endursemja um aðstoð ESB. Þýska fjármálaráðuneytið sagðist vera að velta fyrir sér nýrri áætlun, „plan B“, ef Grikkir segðu nei. „Við þá sem velta fyrir sér öðum lausnum vil ég segja: Það er ekkert plan B,“ sagði Rehn á þriðjudag.