Viðhorf Víðir Sigurðsson vs@mbl.is Hvað hefur karlalandslið Íslands í fótbolta gert annað í ár en að gera jafntefli við Kýpur á útivelli og tapa á heimavelli fyrir Dönum í tiltölulega jöfnum leik? Ekkert.

Viðhorf

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Hvað hefur karlalandslið Íslands í fótbolta gert annað í ár en að gera jafntefli við Kýpur á útivelli og tapa á heimavelli fyrir Dönum í tiltölulega jöfnum leik? Ekkert. Þetta eru einu tveir leikir liðsins á árinu og leikjatörnin hefst ekki fyrr en í ágúst þegar það mætir Ungverjum í vináttuleik og glímir síðan við Noreg, Kýpur og Portúgal í undankeppni Evrópumótsins.

Nýjasti heimslistinn var gefinn út í gær og samkvæmt honum er Ísland í 122. sæti af 207 þjóðum heims og í 48. sæti Evrópuþjóða. Lægsta staða Íslands á listanum frá upphafi er staðreynd. Töluleg staðreynd, og aldrei áður hafa lið Færeyja og Liechtenstein verið metin ofar íslenska landsliðinu að styrkleika. Báðar þjóðir unnu glæsilega sigra fyrr í þessum mánuði í undankeppni EM og fá strax umbun fyrir það.

Allir mótsleikir í fjögur ár gegn sterkari þjóðum

En við skulum sofa róleg yfir þessu. Hver einasti landsleikur Íslands í heilt ár hefur verið gegn þjóðum sem eiga að vera betri en okkar landslið, flestar meira að segja mun betri. Ísland hefur ekki fengið neina þjóð úr neðsta styrkleikaflokki í sína riðla í síðustu tveimur stórmótum. Allir mótsleikir í fjögur ár hafa sem sagt verið gegn sterkari liðum. Sigur gegn Makedóníu, tvö jafntefli við Noregi og eitt við Kýpur stendur eftir. Ósigranir eru gegn liðum eins og Hollandi, Portúgal, Skotlandi og Danmörku. Flestir í jöfnum leikjum. Eitthvað óvænt við það? Bara það að sigra San Marínó tvisvar hefði haldið liðinu 30 sætum ofar eða svo, án þess að nokkuð annað hefði breyst.

Engin óvænt úrslit hafa litið dagsins ljós. Íslenska liðið var óheppið að fara án stiga úr leikjunum við Norðmenn og Dani síðasta haust og gat hæglega fengið meira út úr Danaleiknum fyrr í þessum mánuði en raunin varð. Eitt stig gegn Kýpur, sem hefur undanfarin ár verið talið nokkuð sterkara landslið en það íslenska, er uppskeran í undankeppni EM.

Frá síðasta hausti hefur verið teflt fram tiltölulega nýju og mjög ungu landsliði sem er byggt að mestu leyti á leikmönnum 21-árs landsliðsins. Þeir þurfa sinn tíma til að öðlast reynslu og styrk því það er annað og meira að spila með A-landsliði. Stigaleysi landsliðsins í yfirstandandi Evrópukeppni er að sjálfsögðu vonbrigði en enginn skandall hefur átt sér stað. Liðið er í mótun. Þessir strákar hafa sýnt að þeir eiga heima á þessum vettvangi og eiga bara eftir að styrkjast og eflast. Þá fer landið að rísa.

Samanburður milli heimsálfa

Heimslisti FIFA er ákveðin viðmiðun, byggður á flóknum útreikningum út frá einföldum úrslitum fótboltaleikja. Það þarf ekki mikið til að fljúga upp eða niður um 20-30 sæti eða svo.

Svo skiptir samanburður við þjóðir utan Evrópu ákaflega litlu máli. Langflestir landsleikir í heiminum eru á milli þjóða úr sömu heimsálfu. Styrkleiki Evrópuþjóða í heild er það mikill að lakari lið álfunnar lenda innan um lakari þjóðir annarra heimsálfa án þess að það segi nokkuð um getumuninn.

Bíðum nú róleg eftir haustleikjunum og sjáum hvað gerist. Ég er sannfærður um að það eru bjartir tímar framundan hjá íslenska landsliðinu og það mun klífa upp þennan ágæta lista næstu árin, hvort sem það verður í stökkum eða fetum. Listinn sem slíkur skiptir ekki miklu máli en ég vona að landsliðsmennirnir okkar noti hann sem hvatningu til að ná góðum úrslitum í haust.