Áhugamálið Knútur Óskarsson getur ekki leynt áhugamálinu því gulir repjuakrar við þjóðveginn koma upp um það.
Áhugamálið Knútur Óskarsson getur ekki leynt áhugamálinu því gulir repjuakrar við þjóðveginn koma upp um það. — Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is „Þessi harðindi hafa áhrif á alla sem lifa á landinu,“ segir Knútur Óskarsson, bóndi á Ósum á Vatnsnesi. Hann rekur farfuglaheimili og hefur orðið óþyrmilega var við áhrif kuldans á ferðaþjónustuna.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

„Þessi harðindi hafa áhrif á alla sem lifa á landinu,“ segir Knútur Óskarsson, bóndi á Ósum á Vatnsnesi. Hann rekur farfuglaheimili og hefur orðið óþyrmilega var við áhrif kuldans á ferðaþjónustuna.

Knútur hefur rekið farfuglaheimili í rúma tvo áratugi og gestafjöldinn vaxið á hverju ári. Í fyrstunni var gamla íbúðarhúsið á bænum gert upp fyrir starfsemina og síðan hefur þremur gestahúsum verið bætt við. Farfuglaheimilið hefur fengið góða dóma og tvisvar komist á lista yfir þau farfuglaheimili heimsins sem gestir gefa bestu einkunnina.

Bjartsýni hefur verið ríkjandi fyrir sumarið þar sem reiknað hefur verið með fjölgun ferðafólks til landsins. Það hefur að einhverju leyti gengið eftir – en þeir hafa ekki skilað sér á Vatnsnes. „Það kæmi mér ekki á óvart þótt hér yrði 30-40% samdráttur,“ segir Knútur. Hann telur víst að veðráttan ráði þar miklu ásamt því að hátt eldsneytisverð dragi úr akstri og valdi því jafnvel að erlendir ferðamenn haldi sig meira í Reykjavík. „En sumarið er ekki búið og það gæti eitthvað ræst úr. Í þessari grein veit enginn niðurstöðuna fyrr en eftir sumarið,“ segir hann.

Þeir sem leggja leið sína um Vatnsnes eru flestir að skoða landið og náttúruna. Selirnir hafa mesta aðdráttaraflið. Margir leggja leið sína niður að ósi Sigríðarstaðavatns þar sem yfirleitt má sjá seli flatmaga og Hvítserkur er þar skammt frá. Knútur segir að gestir farfuglaheimilisins komi flestir til að skoða náttúru landsins og selirnir séu liður í því.

Eitt leiðir af öðru

Knútur er með kúabúskap og nokkra hesta. Þá stundar hann ræktun og sinnir æðarvarpi. Hann lítur ekki á móttöku og þjónustu við gestina sem truflun frá búskapnum heldur hluta af honum og segist njóta þess engu síður en þegar hann hóf reksturinn. Sömuleiðis segir hann að ferðafólkið vilji sjá eðlilegt líf, þar sem það dvelji, búskap eða aðra starfsemi.

Hann hefur þó orð á því að veðráttan setji strik í reikninginn hjá gestunum, erfitt geti verið að vera eins mikið útivið og þeir hefðu kosið. Hann segir að þótt allir leggi sig fram um að þjóna gestunum sé ekki víst að staðurinn skori hátt eftir þetta sumar, vegna veðursins.

Nýting hlunnindanna hefur gengið illa í sumar sem og ræktunin. „Það eru harðindi til lands og sjávar,“ segir Knútur. Hann getur þess að mikill ágangur hafi verið af flugvargi í æðarvarpið í vor. Svo virðist sem mávarnir hafi lítið æti á sjónum og sæki þá í egg og unga æðarfuglsins. Þá hafi dúnninn ódrýgst í rokinu.

„Það má búast við mun minni heyfeng í sumar en undanfarin ár. Sjálfsagt verður ekki slegið nema einu sinni. Það hefur áhrif á ásetning í haust, eitt leiðir af öðru,“ segir Knútur og bætir því við að ekki sé nóg að eiga við náttúruna því hugsanleg aðild landsins að Evrópusambandinu sé ógn við landbúnaðinn og aðildarviðræðurnar skapi óvissu fyrir mjólkurframleiðendur.

Ræktunartilraunir

„Þetta eru gjafir jarðar“

„Ef ræktunin gengur í ár, held ég að alltaf verði hægt að rækta repju,“ segir Knútur Óskarsson, bóndi á Ósum á Vatnsnesi. Hann er einn af þeim bændum sem hafa tekið þátt í ræktunartilraunum Siglingastofnunar á repju til olíuframleiðslu og náð ágætum árangri.

„Mér finnst sjálfsagt að prófa þetta. Ef ræktunin gengur getur hún orðið góð viðbót við annan landbúnað. Þetta eru gjafir jarðar, ekki síst hratið því próteinið er dýrt í dag. Ekki er þó hægt að búast við mikilli uppskeru í svona ári sem manni virðist alltaf mega búast við á Íslandi,“ segir Knútur.

Repjan sem Knútur sáði fyrir síðasta haust kom ágætlega undan vetri. „Núna er það kuldinn sem dregur úr þessu. Það þarf hærra hitastig en verið hefur til að repjan vaxi vel. Repjuakrarnir á Ósum eru ágætlega þéttir en plönturnar eru lægri en á sama tíma undanfarin ár og þær hafa ekki náð að blómstra til fulls.“