Indie Rocket Science er nýjasta plata rapparans MC Lars.

Indie Rocket Science er nýjasta plata rapparans MC Lars. MC Lars, sem segist vera upphafsmaður post-punk laptop-rappsins, fær til liðs við sig nokkra þungavigtarmenn úr tónlistarheiminum við vinnslu plötunnar, en þar ber hæst menn á borð við Krs-One, Sage Francis og Weerd Science svo dæmi séu tekin. Platan flokkast reyndar undir það sem kallast „mix tape“ og fæst gefins á netinu. Mc Lars, sem heitir réttu nafni Andrew Robert Nielsen, hefur í gegnum tíðina fengist við margar mismunandi tónlistarstefnur, s.s punk-rapp, rapprokk og nerdcore hipphopp, en þessi plata er glensrapp-plata með rokkívafi í anda Bloodhound Gang. Á plötunni er að finna lög eins og ,,What is hip hop“, þar sem Krs-One kemur við sögu og „Black and Yellow T-Shirts“ sem hefur fengið töluverða spilun hér á landi. Tónlistin og taktarnir eru góðir og gleður það mig mikið að fá að heyra í gítar hjá rapparanum. Textarnir eru snilld og fjalla um allt og ekki neitt. Mér finnst það hafa verið venjan hjá röppurum að hrauna hver yfir annan en það gerir MC Lars ekki, en hann hraunar aftur á móti ótt og títt yfir sjálfan sig og fær þá sem spila og syngja með sér á plötunni til þess að taka þátt því. Þetta er skemmtileg plata sem aðdáendur Bloodhound Gang ættu að geta skemmt sér yfir.

Róbert B. Róbertsson