Evrópuslagur Eyjamenn verða í eldlínunni í Evrópudeild UEFA í knattspyrnu á Vodafonevellinum að Hlíðarenda í kvöld þegar þeir taka á móti Saint Patricks.
Evrópuslagur Eyjamenn verða í eldlínunni í Evrópudeild UEFA í knattspyrnu á Vodafonevellinum að Hlíðarenda í kvöld þegar þeir taka á móti Saint Patricks. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fótbolti Sindri Sverrisson sindris@mbl.is „Það er langt síðan við spiluðum í Evrópukeppni þannig að það er mikil tilhlökkun í okkur,“ sagði Andri Ólafsson, fyrirliði ÍBV, við Morgunblaðið í gær en Eyjamenn mæta St.

Fótbolti

Sindri Sverrisson

sindris@mbl.is

„Það er langt síðan við spiluðum í Evrópukeppni þannig að það er mikil tilhlökkun í okkur,“ sagði Andri Ólafsson, fyrirliði ÍBV, við Morgunblaðið í gær en Eyjamenn mæta St. Patrick's Athletic í fyrri leik liðanna í Evrópudeild UEFA á Vodafonevellinum í kvöld kl. 18. ÍBV lék síðast í Evrópukeppni árið 2005 og féll þá úr leik í fyrstu umferð gegn B36 frá Færeyjum, 3:2 samanlagt.

„Það var náttúrlega alveg frábær árangur hjá okkur síðast að verða fyrsta liðið til að tapa fyrir Færeyingum,“ sagði Andri vel minnugur tapsins, en hann er annar af tveimur leikmönnum ÍBV í dag sem tóku þátt í einvíginu við B36. Hinn er Ian Jeffs sem hefur reyndar í millitíðinni leikið með Fylki og Val. „Ég get nú ekki sagt að þetta svíði mikið ennþá en við ætlum alla vega að komast lengra núna. Við misstum reyndar tvo menn út af með rautt þarna í Færeyjum, en við erum með talsvert sterkari hóp núna,“ sagði Andri.

Eyjamenn hafa kynnt sér leik hinna írsku andstæðinga sinna en St. Patrick's er á toppi írsku deildarinnar og hefur ekki tapað í síðustu 14 leikjum sínum. „Við erum búnir að skoða nokkra leiki með þeim og þetta er algjört hörkulið. Þeir spila algjöran „kick and run“-bolta, og eru allir frekar sterkir, þannig að þetta verður sennilega frekar grófur leikur. Okkar markmið er þá að halda boltanum meira niðri og spila okkur í gegnum þá.

Ég hef enga hugmynd um styrkleikann á írsku deildinni og hvort þetta lið á að vera betra eða verra en við, en þeim hefur alla vega gengið vel í Evrópukeppninni síðustu ár. Við förum samt bara í þessa leiki með það eitt að markmiði að komast áfram,“ sagði Andri sem er ánægður með spilamennsku ÍBV í sumar, en liðið er í 2. sæti Pepsi-deildarinnar.

„Við höfum spilað nokkuð vel í sumar þó að í einum og einum leik höfum við ekki verið upp á okkar besta. Að öðru leyti erum við bara sáttir,“ sagði Andri. Hann á sjálfur við smávægileg meiðsli að stríða en annars eru leikmenn ÍBV heilir heilsu. Það er hins vegar skarð fyrir skildi að Ian Jeffs mun ekki geta tekið þátt í leiknum en Jeffs hefur skorað í fimm leikjum í röð fyrir Eyjaliðið. Englendingurinn er enn að súpa seyðið af því að hafa slegið til andstæðings í seinni leiknum gegn B36 um árið, sem sagt var frá hér að ofan.

„Ég er allur að koma til, og að öðru leyti erum við allir klárir nema Ian Jeffs sem er í banni. Hann fékk rautt í Færeyjum og þriggja leikja bann, þannig að hann er enn í einhverju sex ára banni þó hann hafi spilað tvo leiki með Val í Evrópukeppni. Hann verður klár í seinni leikinn,“ sagði Andri.

sindris@mbl.is