Öngþveitið getur verið víða „Í bílaviðskiptum getur verið um afar flókin lögfræðileg úrlausnarefni að ræða,“ segir lögfræðingur Neytendasamtakanna.
Öngþveitið getur verið víða „Í bílaviðskiptum getur verið um afar flókin lögfræðileg úrlausnarefni að ræða,“ segir lögfræðingur Neytendasamtakanna. — Morgunblaðið/Ómar
Neytendasamtökin veittu athygli grein sem birtist á bls. 25 í blaðinu Finnur.is fimmtudaginn 23. júní. sl. Um var að ræða pistil þar sem Leó M. Jónsson véltæknifræðingur svaraði spurningum almennings varðandi bifreiðar.

Neytendasamtökin veittu athygli grein sem birtist á bls. 25 í blaðinu Finnur.is fimmtudaginn 23. júní. sl. Um var að ræða pistil þar sem Leó M. Jónsson véltæknifræðingur svaraði spurningum almennings varðandi bifreiðar. Í svörum Leós eru ákveðnar lögfræðilegar rangfærslur sem óhjákvæmilegt er að gera athugasemdir við.

Önnur fyrirspurnin í áðurnefndum pistli varðaði óeðlileg vélarhljóð í Toyota Landcruiser, bifreið sem var af árgerð 2007 og hafði verið ekið 57.000 km. Bifreiðareigandinn lýsti því að skipt hefði verið um spíssa í vélinni vegna þessa hávaða en allt kæmi fyrir ekki. Þá vildi eigandinn meina að þar sem hann hefði farið í allar þjónustuskoðanir væri bíllinn enn í ábyrgð. Svar Leós var á þá leið að þetta spíssavandamál væri vel þekkt í þessari tegund, en hins vegar væri það rangt að ábyrgð framleiðanda væri enn í gildi þar sem hún gilti aðeins í þrjú ár eða 100.000 km og þjónustuskoðanir breyttu því ekki. Hins vegar væri sérstök þriggja ára ábyrgð á „spíssamálum“. Væri um galla í vélinni að ræða væri ábyrgðin hins vegar útrunnin.

Fimm ára kvörtunarfrestur

Með hugtakinu ábyrgð í svörum Leós er væntanlega átt við lögbundinn kvörtunarfrest kaupanda, en það er sá tími sem kaupandi hefur til að kvarta, og krefjast úrbóta, vegna galla á söluhlut. Ef einstaklingur kaupir hlut af aðila sem hefur atvinnu af sölunni gilda um viðskiptin lög um neytendakaup sem eru ófrávíkjanleg svo ekki má veita neytanda lakari rétt en lögin kveða á um.

Í lögunum er m.a. að finna svokallaða fimm ára reglu sem gerir það að verkum að kvörtunarfrestur vegna galla á hlutum sem ætlaður er verulega lengri endingartími en gildir um söluhluti almennt er fimm ár. Þetta hefur í för með sér að þegar um er að ræða stærri og endingarbetri hluti, eins og t.a.m. sófa, uppþvottavélar, þvottavélar og ísskápa, hefur neytandi fimm ár til að kvarta vegna galla. Þessi regla gildir tvímælalaust einnig um bifreiðar enda er þeim ætlaður lengri líftími en söluhlutum almennt og hefur kærunefnd lausafjár- og þjónustukaupa ítrekað fellt bifreiðar undir regluna. Sé um galla í bifreið að ræða hefur neytandinn því, samkvæmt lögum, fimm ár til að tilkynna gallann. Í dæminu hér að ofan er um fjögurra ára gamla bifreið að ræða svo viðkomandi á tvímælalaust ennþá kvörtunarrétt en þarf vissulega einnig að sýna fram á að um galla sé að ræða.

Ábyrgð framleiðanda?

Þetta hefur í för með sér að alveg óháð þriggja ára verksmiðjuábyrgð hefur neytandi fimm ár til að kvarta vegna galla í bifreið. Hér á landi gilda íslensk lög og þegar neytandi kaupir vöru af innlendu fyrirtæki, s.s. bifreiðaumboði, eru aðilar bundnir af reglum íslenskra laga. Skiptir þá engu máli varðandi rétt og skyldur aðila þó framleiðandi veiti minni rétt en neytandi á samkvæmt lögum. Íslensk bílaumboð eru einfaldlega bundin af íslenskum lögum og bera ábyrgð gagnvart viðskiptavinum sínum alveg óháð því hvort þeim tekst svo að sækja bætur áfram til framleiðanda.

Lagaleg álitaefni

Ýmsar aðrar lagalegar spurningar vakna við lestur áðurnefndrar fyrirspurnar en bréfritari tekur fram að það hafi ekki dugað sem skyldi að skipta um spíssa í vélinni. Má þá velta fyrir sér hvort viðgerðin sem slík hafi verið gölluð og hvort viðkomandi geti þá ekki hreinlega kvartað vegna þess.

Í bílaviðskiptum getur verið um afar flókin lögfræðileg úrlausnarefni að ræða og er ekki hægt að taka afstöðu til þeirra allra á grundvelli þeirra takmörkuðu upplýsinga sem birtast í umræddum pistli. En það felur þá væntanlega einnig í sér að véltæknifræðingur ætti heldur ekki að geta tekið svo afdráttarlausa afstöðu til þeirra.

Hildigunnur Hafsteinsdóttir,

lögfræðingur Neytendasamtakanna.