[ Smellið til að sjá stærri mynd ]

Georg Guðni Hauksson fæddist í Reykjavík 1. janúar 1961. Hann varð bráðkvaddur á Rangárvöllum 18. júní 2011.

Foreldrar hans eru Karitas Bjarney Jónsdóttir kjólameistari frá Bolungarvík, f. 15. nóvember 1937, og Haukur Sigurður Tómasson jarðfræðingur, fæddur í Reykjavík 14. febrúar 1932. Systkini Georgs Guðna voru Sigrún, þróunarstjóri bókasafna, f. 30. ágúst 1959, gift Lofti Atla Eiríkssyni menningarfræðingi, og Tómas Kolbeinn, vélstjórnarnemi, f. 20. júlí 1964, látinn 22. mars 1987.

Hinn 11. nóvember 1988 kvæntist Georg Guðni Sigrúnu Jónasdóttur, lífeindafræðingi, f. 10. október 1961. Börn þeirra eru: 1) Elísabet Hugrún, f. 11. janúar 1988, nemi í arkitektúr, unnusti hennar er Björn Pálmi Pálmason, nemi í tónsmíðum, f. 7. febrúar 1988. 2) Guðrún Gígja, f. 17. ágúst 1993, verslunarskólanemi. 3) Tómas Kolbeinn, f. 7. júlí 1997. 4) Hrafnkell Tumi, f. 13. júlí 1999. 5) Jón Guðni, f. 23. júlí 2002.

Georg Guðni ólst upp í Reykjavík, lengst af í Árbæjarhverfinu. Hann var efnilegur íþróttamaður, lék handbolta með Fylki og unglingalandsliði, en hætti þeirri iðkun er hann hóf myndlistarnám. Hann gekk í Fjölbrautaskólann í Breiðholti en fékk síðan inngöngu í Myndlista- og handíðaskóla Íslands í Reykjavík árið 1980 og brautskráðist þaðan árið 1985. Leiðin lá næst til Hollands, þar sem hann stundaði nám við Jan Van Eyck Academie í Maastricht árin 1985 til 1987.

Georg Guðni hélt fyrstu einkasýningu sína í Nýlistasafninu í Reykjavík 1985 og vakti hún mikla athygli, enda birtist þar sérstök sýn á íslenskt landslag í fjallamyndum hans og markaði upphaf að ferli hans sem frumkvöðuls í endurreisn landslagsmálverksins með nýstárlegri túlkun formrænt og hugmyndalega. Hann hélt fjölmargar málverkasýningar víða um heim og hlaut margvíslega viðurkenningu fyrir verk sín. Hann hlaut menningarverðlaun DV árið 1988, var tilefndur til virtra finnskra verðlauna, Ars Fennica, árið 2000 og þrívegis var hann tilnefndur til Carnegie-verðlaunanna. Verk hans eru í eigu margra listasafna á Íslandi og erlendis. Listasafn Íslands hélt yfirlitssýningu á verkum hans árið 2003 er hann var einungis 42 ára. Nokkrar bækur hafa verið gefnar út um list hans, hér á landi og erlendis. Georg Guðni sat í stjórn sjóðs Richards Serra 1993-1995 og í safnráði Listasafns Íslands 1997-2001. Þá starfaði hann í ýmsum nefndum að málefnum tengdum myndlistinni. Hann fékkst við kennslu í Myndlista- og handíðaskólanum, Listaháskóla Íslands og víðar.

Útför Georgs Guðna verður gerð frá Hallgrímskirkju í Reykjavík í dag, 30. júní 2011, og hefst hún kl. 15.

Nú þegar ég kveð Guðna bróður minn, sem varð bráðkvaddur langt um aldur fram frá yndislegri eiginkonu og fimm frábærum börnum, hverfur hugurinn til lítillar stúlku. Stúlku sem átti tvo yngri bræður, bræður sem hún vakti yfir og passaði og fannst að hún bæri alla ábyrgð á. Bræður hennar Guðni og Tommi voru skemmtilegir félagar og þau léku sér saman og uxu og döfnuðu undir handleiðslu foreldra sinna, en umfram allt voru þau góð systkini. Æskan var þeirra en nú kveður þessi litla stúlka bræður sína tvo, Tómas Kolbein sem var rétt að feta sín fyrstu skref sem fullorðin maður þegar hann varð bráðkvaddur aðeins 22 ára og Guðna sem fékk að þroska hæfileika sína, elska og njóta alls þess besta sem lífið getur fært einum manni.

Við systkinin nutum þeirrar gæfu í æsku að eyða mörgum sumrum uppi á öræfum þar sem faðir okkar jarðfræðingurinn vann. Hálendið var hulduheimur sem var óaðgengilegur flestum á þessum tíma. Þetta var okkar óskaveröld og í þessari veröld voru lón, fossar og pollar nefnd eftir okkur, Guðnavatn, Sigrúnarlón og Tommafoss.

Guðni var litli bróðir minn, 16 mánuðum yngri en ég. Hann var stór en ég lítil svo við vorum oftast eins. Ég man ekki eftir mér nema með hann mér við hlið og þótt hann væri stór og sterkur lét hann ímyndunaraflið oft hlaupa með sig í gönur og þá var gott að eiga stóra systur til þess að halda í höndina á og láta hughreysta sig og passa. Sem barn og unglingur var Guðni góður í öllu sem hann tók sér fyrir hendur en sleppti hinu. Hann var góður í íþróttum og þá sérstaklega í handbolta og auðvitað var hann góður í teikningu og myndlist. En þegar ég horfi til baka var hann bestur í að eignast góða vini og félaga en af öllu góðu var hans mesta afrek að eignast hana Sigrúnu sína. Þeirra samleið hófst þegar þau voru nýbyrjuð í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti aðeins 16 ára gömul. Líf þeirra var samtvinnað á svo margvíslegan hátt, það má segja að þau hafi spunnið sér vef úr lífinu, ljósinu og listinni. Úr þeim vef spruttu börnin. Mínar kærustu minningar eru þegar Guðni tilkynnti mér með stolti og gleði um fæðingu barnanna, þeirra Elísabetar Hugrúnar, Guðrúnar Gígju, Tómasar Kolbeins, Hrafnkels Tuma og Jóns Guðna. Þvílíkur fjársjóður að eiga fimm yndisleg, falleg, góð og gáfuð börn. Guðni var einstakur pabbi sem passaði og ræktaði fjársjóðinn sinn – fjölskylduna sína.

Það er ekki í mínu valdi að skýra það né skilja að Guðni hafi verið kallaður héðan fyrirvaralaust. Hann sem átti svo mikið eftir ógert en var samt sem áður búinn að skila svo miklu af sér og gefa okkur svo mikið.

Þótt erfitt sé að skilja kveð ég þig, bróðir minn, með þakklæti og þá fullvissu að þú hafir verið kallaður burt frá þeim sem þig elska til annarra og mikilvægari starfa.

Það er margt sem þarf að biðja um á kveðjustund. Ég bið algóðan góðan Guð að styðja og styrkja Sigrúnu mágkonu mín og börnin og vaka yfir farsæld þeirra. Einnig bið ég um styrk fyrir móður mína og föður sem nú sjá á eftir seinni syni sínum.

Sigrún systir.

Ég heyrði það á tóninum í rödd Lilju systur, þegar hún hringdi í mig – að hún var að undirbúa mig fyrir erfiðar fréttir.

Tómarúmið, frjálsa fallið var hræðilegt. Ótal skelfilegir möguleikar og mörg náin andlit birtust í huga mér í þessar fáu sekúndur, en aldrei Georg Guðni, aldrei. Það var ekki fræðilegur möguleiki – Georg Guðni var maður sem átti ekki að geta horfið úr lífi okkar. Guðni var maður framtíðarinnar, hugmyndanna, viskunnar, hann var kletturinn. Hann var fjallið.

Fjall er fjall, það er ekkert annað – það er það sem það er. Það hefur óendanlega fjölbreytni, það er nýtt fjall á hverjum degi, eftir því hvernig vindar blása og sólin skín. Það þolir regn og snjókomu, það breytist rólega í tímans rás. Það hefur orku og það hefur blíðu. Fjall er ekki tilgerðarlegt, það bara er.

Fjall á ekki að geta horfið í einu vetfangi. Samt gerðist það. Af hverju er jörðinni kippt svona undan okkur?

Guðni kom inn í líf mitt þegar ég var 14 ára. Hann var 16 ára, kærasti Sigrúnar systur minnar. Við Guðni vorum samferða í gegnum myndlistarnámið og vorum síðan mjög nánir í framhaldi af því – við upplifðum heiminn saman. Hann var minn besti vinur.

Lilja sagði að hann hefði orðið bráðkvaddur á hlaupum. Læknirinn sagði að hann hefði að öllum líkindum misst meðvitund samstundis. Guðni skipti um tilverustig á meðan líkaminn sveif til jarðar og sameinaðist moldinni.

Líkaminn verður grafinn í dag, en Guðni er áfram á meðal okkar – í þessu stóra og í þessu smáa. Allt það sem hann stóð fyrir, allt það sem hann kenndi okkur á sinn hógværa og látlausa hátt. Georg Guðni er ekki horfinn. Við getum minnst hans með því að horfa inn í málverkin hans og skynja eilífðina, orkuna, blíðuna... – og með því að sameinast fjallinu.

Vertu sæll að eilífu, elsku vinur.

Óskar Jónasson

Það var mikið lán að eiga samleið með Guðna frá því þau Sigrún felldu hugi saman fyrir um 33 árum. Hann var hæglátur, hæverskur, hreinn og beinn, ævinlega glaður í bragði er við hittumst, skemmtilegur, íhugull, en umfram allt góður drengur.

Við sem þetta ritum, mágkona hans og svili, fylgdumst með honum álengdar á vegi myndlistarinnar og höfum með tímanum þroskast sem listunnendur fyrir hans tilstilli. Við sáum hvernig listsköpun hans þróaðist með markvissum vinnubrögðum og mikilli ástundun. Samræður við hann opnuðu augu okkar fyrir öðrum listamönnum, straumum og stefnum. Allt var það áhugavert og ánægjulegt.

En það eru fyrst og fremst kostir hans sem fjölskylduföður sem efst eru í huga okkar á kveðjustundu. Þau Sigrún voru óaðskiljanleg og eftir að börnunum fjölgaði og Sigrún hætti að vinna utan heimilis var öll fjölskyldan samferða í daglegum önnum. Þótt Guðni væri listamaður af lífi og sál hafði fjölskyldan alltaf forgang. Hann var félagi barnanna í leik og lærdómi og gekk í störfin með Sigrúnu ef með þurfti. Þau hjónin fóru til dæmis oft saman í matarinnkaup og aðrar útréttingar og báru allar ákvarðanir, stórar og smáar, hvort undir annað ef kostur var.

Það var mikið gæfuspor er þau ákváðu að reisa vinnustofu við heimili sitt á Rafstöðvarvegi, því þaðan í frá var Guðni alltaf heima við og dyr vinnustofunnar stóðu fjölskyldunni ætíð opnar. Börnin voru óbeinir þátttakendur í listsköpun hans, sögðu álit sitt og það kom jafnvel fyrir að þau reyndu í einfeldni sinni að hressa upp á myndir hans með blýanti eða pensli. Guðni hvatti þau til að spreyta sig og skapa. Myndverk barnanna eiga jafnstóran sess á heimilinu og verk frægra listamanna sem fjölskyldunni áskotnuðust.

Guðni var íþrótta- og keppnismaður að eðlisfari. Hann studdi börnin með ráðum og dáð í keppni og leikjum, var manna æstastur þegar Gígja keppti í handbolta og hvatti drengina á frjálsíþróttamótum eins og röddin leyfði. Í seinni tíð lék hann oft borðtennis á Berangri og fór létt með að sigra gesti, enda góður spilari. En þegar börnin hans áttu í hlut varð viðureignin afar jöfn og þurfti gjarnan úrslitaleik í lokin. Velgengni barnanna var honum ætíð mikils virði og þau fundu svo sannarlega stuðning hans á öllum sviðum.

Samstarf þeirra Sigrúnar var miklu nánara en algengt er meðal hjóna. Þau áttu sameiginlegt líf í flestum efnum, unnu saman að undirbúningi, ákvörðunum og samskiptum í listheiminum og annars staðar, hún stóð honum við hlið í öllu því sem máli skipti. Við fundum þetta svo sterkt að í tali okkar voru þau alltaf nefnd í sömu andránni, Sigrún og Guðni.

Við hjónin eigum eingöngu ljúfar og hlýjar minningar um Guðna og ánægjuleg samskipti. Þau einkenndust af rólyndi hans og nærandi nærveru, hann hafði alltaf tíma fyrir okkur og var bóngóður ef til hans var leitað. Minningarnar verma okkur, þótt söknuðurinn sé sár.

Elsku Sigrún og börn: Missir ykkar er meiri en við fáum lýst í orðum. Megi góður Guð fylgja ykkur og styðja í þeirri erfiðu vegferð sem framundan er.

Lilja og Stefán.

Orðin og skilningarvitin ná ekki utan um þann harm sem þyrmir yfir þegar mágur minn, Georg Guðni Hauksson, kveður þennan heim fyrirvaralaust í þann mund sem náttúran og landið sem hann unni svo heitt eru að vakna af vetrardvalanum. Hringrás lífsins er stórbrotin og nú er Guðni kominn fram úr samferðamönnum sínum eina ferðina enn og inn á nýja sporbraut.

Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að feta lífsbrautina með Guðna í rúma þrjá áratugi en samheldnin hjá tengdafjölskyldu minni er meiri og sterkari en ég hef orðið vitni að í öðrum fjölskyldum. Sérstakur áhrifavaldur í lífi fjölskyldunnar var þegar Tómas, litli bróðir Guðna og Sigrúnar minnar, varð bráðkvaddur aðeins 22 ára að aldri fyrir 24 árum. Systkinin voru mjög náin en fjölskyldan tók þessu áfalli af nánast yfirskilvitlegri yfirvegun, auðmýkt og kærleika. Lát Tómasar varð til þess að þrýsta okkur saman og upp frá því leit ég á Guðna sem bróður minn. Kærleikurinn okkar á milli var ósvikinn og við heilsuðumst og kvöddumst gjarnan með faðmlagi og kossi á kinn.

Mörkin á milli lífs og listar í lífi listamanna eru oft óljós og listin var fullkomlega samofin lífi Guðna. Persónuleikinn endurspeglaðist í verkum hans og verkin í persónuleika hans.

Ein fyrsta minning Guðna úr frumbernsku var að hlaupa frjáls úti í víðáttunni einhvers staðar á miðhálendi Íslands þar sem lögmál tíma og rúms virtust órafjarri.

Guðni drakk í sig fegurð landsins með móðurmjólkinni því fjölskyldan eyddi lunganum úr sumrinu í rannsóknarferðum á miðhálendinu. Þetta var löngu áður en hálendið var komið í vegasamband við byggðir landsins og kyrrðin því fullkomin. Ljóst er að fyrsta lagið í marglaga málaralist Guðna varð til í þessum ferðum og fjölskyldan minntist þessara stunda sem sumra bestu sem hún fékk að njóta saman í lífinu.

Á menntaskólaárunum ferðaðist Guðni um land allt og vann við að mæla aurburð í vatnsföllum landsins ásamt Gunnari Jónssyni vini sínum. Þeir fóru um á stórum jeppa sem komst yfir flestar fyrirstöður. Guðni var ekkert sérstaklega áhugasamur um bíla en á næstu árum eyddi hann ómældum tíma við að byggja sér farartæki sem hentuðu á fjöllum. Minnist ég ferða um sumar sem hávetur í Lapplander-bifreiðum með haganlega útfærðum innréttingum. Guðni lét sig ekki muna um að saga slíka vagna í sundur, lengja þá og koma þeim saman aftur til að upplifa landið og náttúruna betur. Dýpt landslagsins var því ekki einungis takmarkalaus í verkum Guðna heldur byggðist hún á traustri reynslu höfundarins.

Guðni málaði eftir minni, engan ákveðinn stað, engan ákveðinn tíma, ekkert ákveðið veður en þó allt í senn. Þráðurinn hefur verið slitinn en engu að síður lifir Guðni áfram í verkum sínum og við fáum að njóta kyrrðar þeirra og friðsældar um ókomna tíð.

Ég bið góðan Guð að styrkja Sigrúnu, eiginkonu hans og börnin fimm í þessari miklu sorg um leið og ég kveð kæran vin með þakklæti í hjarta. Blessun Guðs fylgi foreldrum Guðna og systur; Kaju, Hauki og Sigrúnu.

Loftur Atli Eiríksson.

Á öræfunum við Tungnaá og Köldukvísl er eyðilegra en víðast annarsstaðar á hálendi Íslands. Sandurinn er alls staðar nema þar sem móbergsfjöllin rísa eða gróðurlaus hraun þekja landið. Eigi að síður búa þessar auðnir yfir fegurð sem erfitt er að skilgreina. Hún er ekki augljós við fyrstu sýn. Litbrigðin í eyðimörkinni ráðast af veðri og birtu: Gráminn í súldinni, morgunþoka sem eyðist í sólinni, rykmistur á hlýjum sumardegi, sólarlag yfir Kerlingarfjöllum. Á þessar slóðir fór Guðni oft sem ungur drengur með föður sínum, Hauki Tómassyni jarðfræðingi. Þar liggja rætur þeirrar listar sem Georg Guðni hefur gefið þjóð sinni og heiminum öllum og mun halda nafni hans á lofti um ókomna tíð.

Við Guðni vorum systkinasynir og jafnaldrar og höfðum svipuð áhugamál. Samvistir voru miklar og við fengum oft að gista hvor hjá öðrum. Leikfangabílar brunuðu um moldarflögin, í Árbænum eða Kleppsholtinu, allt eftir því hvor var í heimsókn hjá hinum. Í leiknum vorum við oft komnir inn að Tungnaá og fórum slóðir sem hann hafði komið á en ekki ég. Mikið langaði mig í fjallaferðir eins og frændi minn fór með pabba sínum! Þau tækifæri gáfust síðar. Landið heillaði okkur og leiddi inn á þær brautir sem við höfum fetað síðan, hvor með sínum hætti. Guðni var mikill ferðamaður. Hann hafði þörf fyrir að fara um landið á öllum árstímum og skissubókin var jafnan með í för. Hann þekkti alla firði og dali, flestar slóðir á hálendinu hafði hann farið og nokkrar ferðir fórum við saman á Vatnajökul og Mýrdalsjökul. Betri ferðafélaga var ekki hægt að hugsa sér.

Guðni var gæfumaður. Að honum stóð gott og traust fólk og á fáa staði fannst mér betra að koma í æsku en til Kæju og Hauks. Þau Sigrún kynntust ung og fylgdust að alla tíð síðan. Þau eignuðust fallegt heimili og fimm myndarleg börn. Guðni hafði gott skapferli og átti auðvelt með að lynda við fólk. Hann hafði enga þörf fyrir að láta á sér bera, en naut þess að vera með fjölskyldunni eða í litlum hópi vina. Honum fylgdu aldrei vandamál enda einhver besti og heilsteyptasti maður sem ég hef kynnst á lífsleiðinni.

En lífið kemur og það fer og enginn veit hvenær kallið kemur. Þjóðin verður fátækari þegar mikilhæfur listamaður fellur frá í blóma lífsins. Slíkt er þó hjóm eitt hjá þeim missi sem Sigrún og börnin verða fyrir. Fátækleg orð breyta þar engu. En þegar frá líður mun minningin standa eftir. Sjaldan verður birtan yfir landinu fallegri en á kyrrum og heiðum haustmorgni á öræfum. Þannig er birtan yfir minningunni um Georg Guðna.

Magnús Tumi Guðmundsson.

Skjótt hefur sól brugðið sumri,

því séð hef ég fljúga

fannhvíta svaninn úr sveitum

til sóllanda fegri;

sofinn er nú söngurinn ljúfi

í svölum fjalladölum,

grátþögull harmafugl hnípir

á húsgafli hvurjum.

(Jónas Hallgrímsson)

Leiðir okkar systrunganna, Guðna og mín, hafa legið saman frá því hann fæddist, fjórum árum á eftir mér, fyrstu árin á Bræðraborgarstíg 19 þar sem fjölskyldur okkar bjuggu þegar við fæddumst. Samheldni í móðurfjölskyldu okkar hefur ævinlega verið mikil og góð, systkinin frá Sólbergi hafa kunnað að rækta fjölskyldutengslin og hlúa að þeim. Guðni var enginn eftirbátur þeirra.

Það kom snemma í ljós að Guðni vissi hvað hann ætlaði sér í lífinu, hann valdi myndlistina og myndefnið hafði hann drukkið í sig með móðurmjólkinni er hann ferðaðist með foreldrum sínum og systkinum um hálendi Íslands frá unga aldri. Og hann hélt áfram að ferðast um landið eftir að hann eignaðist sína eigin fjölskyldu og var hafsjór af fróðleik um landið sitt.

Guðni og Sigrún voru aðeins 16 ára þegar þau kynntust og saman hafa þau verið síðan þá. Það hefur verið einstakt að fylgjast með hversu samstillt þau hafa alltaf verið, í einu og öllu. Því hvort sem um var að ræða hana Sigrúnu eða myndlistina þá vissi Guðni hvað hann vildi og hann hvikaði ekki frá því sem hann hafði valið.

Ótal minningar tengdar Guðna koma í hugann. Hvernig hann ræktaði fjölskylduböndin af alúð, hvernig hann hafði alltaf tíma til að taka þátt í því sem var að gerast hjá okkur og alltaf tíma til að hlusta og spjalla. Hlý og vökul augun, góð og þýð nærvera hans er sterk í minningunni.

Við erum stolt af því hve vel og fallega hann lifði lífinu, bæði sem fjölskyldufaðir og eiginmaður og svo sem listamaður.

Fyrst hann þurfti að fara svo fljótt var það við hæfi að hann skyldi kveðja í nánd við Berangur, þar sem honum leið svo vel, umvafinn fjallahringnum og náttúrunni sem hann var samofinn.

Hugur okkar er hjá Sigrúnu og börnunum, Kæju og Hauki og Sigrúnu, systur Guðna. Harmur þeirra er mikill en það er huggun hve miklu ævistarfi hann skilaði þrátt fyrir allt of stutta ævi því vinnusemi hans var einstök.

Hvað er langlífi?

Lífsnautnin frjóva,

alefling andans

og athöfn þörf.

(Jónas Hallgrímsson)

Guð blessi minningu einstaks drengs.

Jón Ingi og Sigríður Helga.

Kveðja frá frændsystkinum og fjölskyldum

Í dag kveðjum við Guðna, elskulegan frænda okkar og vin. Guðna sem var svo margt gefið og kunni svo vel að njóta og spila úr því sem lífið býður. Hann var mikið náttúrubarn, kunni best við sig í faðmi íslenskrar náttúru og fór ófáar ferðirnar á fjöll og jökla á skrýtna Lapplander-jeppanum sínum. Hann var einnig íþróttamaður, á yngri árum var það aðallega handboltinn en á seinni árum fór hann að stunda hlaup af kappi og var gaman að fylgjast með framgangi hans í þeirri íþrótt. Guðni fæddist með náðargöf, það var snemma ljóst; enginn var eins flinkur að teikna og hann og það var alltaf spennandi að láta Guðna lita í litabækurnar okkar því í handbragði hans leyndist strax einhver galdur. Hann fór vel með þessa gjöf, hlúði að henni af auðmýkt og alúð og skapaði þannig einstök listaverk sem munu halda nafni hans á lofti og auðga líf okkar hinna um ókomna tíð. En auðmýkt og alúð voru ekki síður sterkir þættir í persónuleika hans og það var alltaf gaman og gefandi að hitta Guðna og erfitt að sætta sig við að þær stundir verði ekki fleiri. Síðast en ekki síst var Guðni fjölskyldumaður og mikill gæfumaður í einkalífi. Hann eignaðist fimm mannvænleg börn og hann átti hana Sigrúnu, lífsförunaut sinn, vin og sálufélaga. Þeirra er missirinn mestur og orð mega sín lítils í þeirri miklu sorg sem þau standa nú frammi fyrir.

Elsku fjölskylda, hugur okkar er hjá ykkur nú á þessum erfiðu tímum og hjá ykkur, elsku Kaja, Haukur og Sigrún sem sjáið nú á eftir syni og bróður í annað sinn. Við syrgjum góðan frænda og góðan dreng og komum til með að sakna þægilegrar nærveru hans, strákslega fassins, skemmtilega skopskynsins og fallega brossins. Minning hans lifir og við þökkum fyrir að hafa fengið að kynnast honum.

Sverrir, Unnur, Birgir,

Eiríkur, Kolbrún og börn.

„Megi minning um góðan dreng og mikinn listamann lifa með þjóðinni um ókomin ár.“

Þessa kveðju frá stjórn Listasafns Ísafjarðar má meðal annarra líta í gestabók í Safnahúsinu á Ísafirði. Þetta var ritað á fyrsta degi er yfirlitssýningu á verkum Georgs Guðna Haukssonar var fram haldið eftir að harmafregnir bárust af andláti hans.

Því er þetta nefnt hér að ég var viðstaddur opnun þessarar sýningar í heimabæ mínum á Ísafirði aðeins viku áður og átti góðar stundir með Guðna, Sigrúnu og sonum þeirra þremur þá helgi.

Margt hefur verið rætt og ritað af þar til lærðum mönnum um hæfni og einstakt næmi Guðna sem myndlistarmanns og náði Guðni að skila því í þann búning að allir nutu. Fyrir leikmönnum þvældist það ekki að skynja og njóta allt að því áþreifanlegrar nálgunar við íslenska náttúru í því myndefni sem hann túlkaði. Ég hika ekki við að fullyrða að með honum er ég að kveðja minn eftirlætislistmálara eins átakanlegt og það má vera í ljósi hæfni hans og ónuminna landa. Þeir sem þekktu Guðna sjá hæglega persónueinkenni hans í verkunum. Fyrir mér er þó fyrst og fremst genginn góður frændi og vinur, ljúfur og skemmtilegur.

Einstaklega náið samband Guðna og Sigrúnar hafði varað í 34 ár og eflaust getur sú nánd varað langt fram í þann draumkennda og dulmagnaða sjóndeildarhring sem Guðni birti okkur í myndefni sínu. Sigrún mun áfram skila því hlutverki sem hún höndlar svo vel, að vera börnunum sínum, þeim Elísabetu, Gígju, Tomma, Tuma og Jóni Guðna frábær móðir, studd af minningum um það hvernig þau Guðni byggðu upp einstaklega hamingjusama fjölskyldu. Aðstandendur og vinir munu ekki láta sitt eftir liggja við að rétta hjálparhönd.

Í uppvexti mínum í Reykjavík var náinn samgangur með börnum þriggja systra frá Bolungarvík, þeim Imbu, mömmu og Kæju, móður Guðna. Við vorum 11 börnin og nutum þess að hittast á heimilum okkar og vorum svo jafnan í samvistum við frændfólk okkar í Bolungarvík á sumrin. Ég minnist góðra stunda á heimili Kæju og Hauks á Bræðraborgarstíg og síðar í Hraunbæ með börnunum þremur, Sigrúnu, Guðna og Tomma. Það voru þung spor fyrir litla fjölskyldu að kveðja þann einstaka dáðadreng Tómas Kolbein sem varð bráðkvaddur árið 1987, rétt liðlega tvítugur að aldri. Fjölskyldan hefur lifað með þeirri sorg síðan og þjappað sér saman og notið minninganna um Tomma. Það sem lagt hefur verið á Kæju og fjölskyldu er ómælt og verður okkur hinum hvatning í að standa með þeim á erfiðum tímum.

Það hefur verið kært með fjölskyldum okkar Guðna. Við kveðjum einstakt ljúfmenni og minnumst listamannsins okkar rétt eins og samferðamenn hans í myndlistinni minnast hans sem góðs drengs í tilvitnuninni hér í upphafi. Þetta minnir okkur á að Georg Guðni Hauksson var einstaklega heill maður.

Fjölskyldan úr Brunngötunni og við systkinin af Smáraflötinni sendum Sigrúnu, börnunum fimm, Kæju, Hauki, Sigrúnu Hauks, Atla, Hauki litla og öðrum aðstandendum dýpstu samúðarkveðjur.

Gísli Jón Hjaltason.

Georg Guðni frændi minn var 7 árum yngri en ég. Það var auðvitað mikill munur á okkar yngri árum en minnkaði með aldrinum. Yngri bræður mínir, Snorri og Magnús Tumi, voru hins vegar á svipuðum aldri og hann og ég minnist fjörugs og glaðværs hóps í fjölskylduboðum. Vinátta hans og Magga virtist mér líka náin á unglings- og fullorðinsárum. Tengdi þá meðal annars sameiginlegur áhugi á íslenskri náttúru og síðar snertifletir í myndlist eftir að Maggi giftist Önnu.

Aðrir munu lýsa myndlistarmanninum og náttúruunnandanum Guðna. Það er hins vegar sláandi hugsun að það var úti í íslenskri náttúru sem hann hljóp inn í eilífðina þar sem hann mun lifa af verkum sínum. Það kann að vera einhver huggun syrgjandi fjölskyldu. Hún er þó vart mikil í bili því fráfall Guðna var svo sannarlega reiðarslag og harmdauði. Hann stóð á hátindi lífs síns og ferils.

Guðni átti stóra fjölskyldu sem hann lagði mikla rækt við. Hann var líka hluti af stórfjölskyldu sem hittist í fermingum, stórafmælum og árlegri spilaveislu. Á þeim vettvangi þótti okkur Elsu alltaf gott að hitta hann og Sigrúnu. Auðvitað var rætt um allt á milli himins og jarðar, meðal annars myndlistina, ekki síst eftir að við Elsa fluttum til listaborgarinnar Basel. En fyrst og fremst voru það fjölskyldumálin sem við áttum sameiginleg, meðal annars með dætur á svipuðum aldri og allt sem því fylgir. Guðni var alltaf hlýr og einlægur í þeim samtölum.

Við Elsa vottum Sigrúnu og börnunum okkar dýpstu samúð en ekki síður foreldrum hans Hauki og Kæju. Frá þeim kom margt það besta í fari Guðna, áhuginn á landinu frá jarðfræðingnum Hauki, hlýja Kæju og fjölskyldurækt beggja.

Már Guðmundsson.

Ég mun aldrei skilja tilgang þess að rífa besta vin minn frá fjölskyldunni sem hann elskaði og þarfnaðist, rétt eins og hún elskaði hann og þarfnaðist. Kannski er ekki okkar að skilja – bara þola.

Við kynntumst nítján ára guttar, annar á leið í fjölskyldufagið, lögfræði. Hinn á leið í myndlistarnám, fyrstur í fjölskyldunni. Við fæddumst hvor á sínu árinu, en bara 25 dagar á milli. Saman vorum við aurburðarflokkurinn. Ferðuðumst um landið þvert og endilangt og tókum vatnssýni til að mæla aurburð. Urðum strax perluvinir. Sigrún og Kristín urðu vinir rétt eins og við Guðni. Þær komu með í aurburðarferð, þótt í raun hafi bara verið sæti fyrir 3 í bílnum. Þegar við Kristín giftum okkur komu Guðni og Sigrún með í brúðkaupsferðina. Þegar þau giftu sig heimsóttu þau okkur vestur um haf. Guðni sýndi mér Ísland á þann hátt sem ég hafði ekki fyrr séð. Ég fékk því forskot á sæluna sem hann deildi síðar með öllum í myndunum sínum. Ég veit ekki hvort ég kenndi honum eitthvað. Man þó að ég fékk hann fyrstur manna til að borða appelsínur og kaupa annað nesti en kók og prins í aurburðarferð yfir hálendið. Kannski vandi ég hann af gikkshætti í mat. Mestu skiptir að við áttum áratuga vináttu. Gátum talað saman, hlegið saman og þagað saman. Jafnvel átt daprar stundir saman og haft gott af. Nú varðar mig mestu að aldrei féll styggðaryrði á milli okkar. Kannski var grundvöllur vináttu okkar sá að við fengumst við ólíka hluti. Annar listamaður sem endurvakti óð til íslenskrar náttúru í verkum sínum. Hinn lögmaður sem samdi um álver á Íslandi fyrir erlendan auðhring. Hvorutveggja átti rætur í aurburðinum. Annar nam náttúruna og miðlaði til fólksins í myndlist. Hinn hélt sig við nýtingu fallorkunnar til verðmætasköpunar. Í því efaðist Guðni meira en ég, sem var í góðu lagi. Vinir þurfa ekki að líta allt sömu augum. Ágreiningur er val.

Guðni og Sigrún voru okkur meira en vinir. Þau og barnahópurinn þeirra voru með í okkar fjölskylduboðum og öfugt. Við Kristín eigum ótal minningar sem lifa með okkur. Um ferðafélaga í brúðkaupsferð, leiðsögn um tvíæring í Feneyjum og Turner í London. Fleiri ferðalög, matarboð og stundir með barnahópi sem saman slagar í fótboltalið. Við Guðni fórum líka árvisst í veiði þar sem allir, líka Guðni, verða framsóknarmenn um stund. Misstum úr tvö skipti. Þegar annar forfallaðist gat hinn ekki hugsað sér að kalla til varamann. Þetta var okkar veiðiferð. Þegar þetta er skrifað erum við í hjólaferð með Dóná, sem ber fram mikinn aur og er ekki mjög blá. Ætlunin var að hjóla, ekki skrifa. Mikið vildum við að svo hefði orðið.

Það er óendanlega sorglegt að sjá á eftir Guðna og hræðilegt að Sigrún, Elísabet, Gígja, Tommi, Tumi og Jón Guðni fái ekki framar notið frábærs eiginmanns og föður. Hugur okkar er hjá þeim, Kaju, Tómasi og öðrum í fjölskyldu Guðna. Við kveðjum Guðna með þeirri huggun einni að fjölskylda hans mun standa okkur nærri um ókomna tíð og vissu um að það væri það sem hann helst kysi.

Gunnar Jónsson

og Kristín Þórisdóttir.

Þegar ég heyrði að gamli góði bekkjarfélagi minn úr Myndlista- og handíðaskólanum, Georg Guðni, og hjartkær vinur okkar hjóna til þrjátíu ára hefði skyndilega fallið frá gat ég ómögulega meðtekið þau válegu tíðindi. Mér hefði allt eins getað verið sagt að ég væri sjálfur dáinn eða að landið hefði sokkið í sæ án þess að ég hefði tekið eftir því, svo óvænt og fjarstæðukennd var fréttin. Á vissan hátt hafði ég reyndar sjálfur dáið því stór partur af lífi mínu var allt í einu horfinn.

Fyrir okkur sem urðu þeirrar gæfu aðnjótandi að kynnast Guðna náið var hann fyrst og fremst frábær vinur og yndisleg manneskja sem málaði einstakar landslagsmyndir. Guðni notaði náttúruna til að koma auga á eigin vitund. Hann málaði sjálfan sig inn í fjallið sem bjó í huganum, eins og hann skrifaði svo eftirminnilega í skissubók sína. Yfir myndum hans hvílir mikill leyndardómur rétt eins og Guðna hafi verið mest í mun að festa á striga það sem ekki verður á nokkurn hátt fangað, að sýna okkur eitthvað sem ekki er hægt að sjá.

Guðni talaði stundum um að nota loftið og regnið til að líma landslagið saman og komast í vitundarlegt samband við það. Þetta var hans aðferð til að fjalla um sálina með nútímalegum hætti. Lengi trúðu menn því að augun væru gluggar sálarinnar og ýktu stærð þeirra eins og best sést í koptískri myndlist frá fjórðu öld eftir Krist. Guðni fæddist með stór augu, dreymin og spurul í senn, sem drukku í sig umhverfið. Hann hafði ekki síst ánægju af því að sjá heiminn í gegnum augu barna sinna, sem veittu honum ómælda gleði. Honum fannst svo gaman að sjá hvað þau voru rosalega hissa þegar þau uppgötvuðu hlutina í fyrsta skipti. Sjálfur var hann alltaf jafn hissa á því sem fyrir augu bar, sólginn í að skilja og samsama sig náttúrunni.

Þeir deyja ungir sem guðirnir elska sögðu Rómverjar er þeir öttu æskunni út í orrustur. Átakanlegt fráfall Guðna sýnir ekki aðeins að guðirnir kunni gott að meta, heldur einnig að þeir geti verið eigingjarnir og tillitslausir gagnvart þeim sem eftir lifa. Sigrún Jónasdóttir og börnin þeirra fimm hafa verið svipt elskulegum eiginmanni og ástkærum föður. Þau hjónin voru afar samrýmd og eyddu öllum stundum saman. Þau voru jafn nauðsynleg hvort öðru og olía og strigi er fyrir málverk. Það duldist heldur engum sem til þekkti að Sigrún var hans stoð og stytta og stærsti aðdáandi – og á hann þó ærið marga fyrir. Sú friðsæld og innilega nánd sem við skynjum svo sterkt í verkum hans lýsir ekki síður sambandi Guðna við Sigrúnu en veruleika íslenskrar náttúru.

Elsku Sigrún, við vottum þér og börnunum – Elísabetu, Gígju, Tómasi, Tuma og Jóni Guðna – okkar dýpstu samúð.

Blessuð sé minning Guðna.

Hannes og Sesselja.

mbl.is/minningar

Nú er jarðargróður að lifna. Ég sit úti í móa og hugsa til Georgs Guðna. Fyrir viku síðan var ég í þessum sömu móum þegar ég fékk tilkynningu um ótímabært andlát hans. Krækiber og bláber eru að myndast á lynginu þar sem ég sit. Það er ekki auðvelt að átta sig á lífinu. Það kviknar og það slökknar. Ég bjóst við að Georg Guðni stæði frekar yfir minni mold en ég hans. Hann var nærri áratug yngri og lifði heilbrigðu lífi.

Ég kynntist honum fyrst við kennslu 1983. Hann var kappsfullur og vann málverk í expressionískum anda, bundnum með frumformum. Mér fannst hann ekki taka því vel, þegar ég stakk upp á því að hann róaði pensilskriftina og hugleiddi hana betur. Nánar kynntist ég honum þegar við Helmut Federle deildum með okkur kennslu nokkru síðar. Þá hófst vinátta okkar sem hefur staðið síðan. Á þeim tíma var hann að finna sinn stað í myndlistinni, sem átti eftir að færa honum ungum viðurkenningu og farsælan feril. Seinna kynntumst við Magga samhentri fjölskyldunni og áttum góðar stundir með þeim bæði heima og úti í náttúrunni. Of fáar þó eftir á að hyggja. Það var gott að ræða á heilbrigðan hátt um myndlistina án fordóma og af akademískri þekkingu. Við Georg Guðni sýndum víða saman. Eitt skipti vorum við í lest á leið til Greifswald í Þýskalandi ásamt Sigurði Árna. Bernd Koberling hafði slegist í för með okkur. Við erum allir náttúrusinnaðir veiðimenn. Ég hafði verið í árlegri eggjaferð í eyjum Hvammsfjarðar daginn áður, og hafði með mér 4 nýorpin linsoðin gæsaegg, eitt á mann, og með salt í filmuboxi og eina teskeið fyrir egg. Þeir höfnuðu eggjunum og báru fyrir sig kólesteróli eða einhverju slíku, svo ég varð að borða þau öll. Við vorum greinilega komnir á miðjan aldur.

Georg Guðni og fjölskylda voru að koma sér fyrir í Selsundi, þar sem móðir mín er fædd og uppalin. Við eigum eftir að sjá hvernig þau voru að koma sér fyrir þar og hefðum gjarnan viljað sjá það með Georg Guðna. Georg Guðni hafði talsverð áhrif í myndlistinni, og hefur lagt mikið til málverksins og landslagsins í íslenskri myndlist. Þannig á hann framhaldslíf meðal okkar, bæði í myndum sínum og persónu. Við vottum fjölskyldunni samúð okkar.

Helgi Þorgils, Margrét

og fjölskylda.

Það eru ekki til orð, ekki til hugsanir né neitt annað sem getur tjáð sorg og söknuð við ótímabært fráfall góðs vinar. Það að kallið komi snemma getur aðeins þýtt það í mínum huga að ást Guðs sé sterk og mikil. Georg Guðni Hauksson var heilbrigður og hraustur, gæfumaður sem í vöggugjöf fékk snilligáfu afburðalistamanns, heill í öllu verki.

Heilsteyptur maður og góður, fjölskyldumaður. Guðni og Sigrún kona hans eru eins og eitt í mínum huga. Ég var með í för þegar þau hittust fyrst á Laugaveginum fyrir 34 árum og hafa þau síðan verið órjúfanleg heild. Tvíburasálir. Börnin þeirra fimm, hvert öðru mannvænlegra og fallegra. Fallegt heimili þeirra hjóna er í Elliðaárdalnum hvar við Guðni lékum okkur svo oft á sumrin í æsku, árnar voru þræddar og rannsakaðar gaumgæfilega en strax í æsku hafði Guðni óvenju næmt auga fyrir náttúrunni og lífi hennar og litbrigðum. Sælustaðurinn þeirra á Berangri þar sem við vorum orðnir nágrannar á ný, þessum fallega stað á Rangárvöllunum þar sem landslagið er mótað af nálægðinni við sterk öfl náttúrunnar en ber jafnframt merki veðursældar og heillandi umhverfis, með útsýni til allra átta sem engu er líkt, þetta var staðurinn þeirra Guðna og Sigrúnar. Gróið hraunið á Berangri breytist stöðugt í augum þess er á horfir rétt eins málverkin hans Guðna.

Guðni skilur margt eftir og allt gott, stórkostlega myndlist sem mér hefur alltaf veist svo auðvelt að skilja. Orðspor sem aldrei mun hverfa og án efa ganga í arf til þeirra sem mest munu sakna hans og vaxa þar og dafna. Guðni skilur eftir sig spor í sandinum sem aldrei munu hverfa, hann skilur eftir sig mannkosti sem aldrei munu þverra. Það er svo merkilegt hvernig hlutirnir gerast í þrenningum. Ég sé Guðna fyrir mér þar sem hann nýtur þess til fullnustu að sinna áhugamáli sínu hlaupunum, hávaxinn og fótviss, á Berangri, landinu þeirra Sigrúnar sem þau ætluðu sér svo mikið með og þykir svo vænt um, á leiðinni að hitta þau sem hann elskar mest. Sé hann fyrir mér þar sem hann tekur skrefið yfir í annan heim þar sem Tommi bróðir hans bíður með opinn faðm. Það er með miklum söknuði og trega sem ég kveð þig í bili, kæri vinur. Takk fyrir mig og takk fyrir að vera samferða mér allan þennan tíma. Elsku Sigrún, Elísabet, Gígja, Tommi, Tumi og Jón Guðni, ég veit að ykkar missir er meiri en fyrir kemst í nokkrum orðum eða hugsunum, ég bið algóðan Guð að vera með ykkur á þessum erfiðu tímum.

Ykkar vinur,

Fritz Már Jörgensson.

Á grimmu augnabliki, á besta aldri, og á hátindi ferils síns, er einn af fremstu listamönnum þjóðarinnar hrifinn burtu. En Georg Guðni var ekki bara einn af merkustu listamönnum okkar, heldur líka ástríkur fjölskyldufaðir og hlýr og góður félagi, áhugasamur um lífið í hinu víðasta samhengi, og um verk annarra; hann var einn af þessum mönnum sem alltaf er ánægjulegt að hitta og eyða tíma með – af þeim fundum fóru allir ríkari.

Ef hugsað er um stöðu Georgs Guðna í íslenskri listasögu, þá fann fann hann furðu ungur sína leið, sína köllun í lífi og list, og með einstakri elju, dugnaði og vinnusemi þróaði hann list sína áfram, sitt persónulega tungumál, sína listrænu sýn á heiminn. Honum voru gefnir þeir einstæðu hæfileikar sem staðsettu hann strax upp úr tvítugu í framvarðasveit íslenskra listamanna af sinni kynslóð, og þar hefur hann verið, sívinnandi, sífellt að þróa heima sína áfram, varfærnislega en örugglega, sífellt að setja sér og öðrum ný viðmið; í fremstu röð jafningjanna.

Á þessum tímapunkti, þegar hann stóð á fimmtugu, eftir glæsilegan feril, feril án málamiðlana og án þess að hafa nokkurn tímann gefið eftir fyrir velgenginni, – og eftir að hafa fært okkur sína ómetanlega list, þá hefði þessi snjalli listamaður, Georg Guðni, átt að fá að njóta ávaxtanna af þeim pundum sem hann hafði ávaxtað; að njóta lífsins með stóru fjölskyldunni sem var honum, þegar allt kom til alls, það allra mikilvægasta. Hvernig saga hans endar, svo alltof fljótt, er hræðilega ósanngjarnt, fyrir íslenska þjóð, en vitaskuld einkum fyrir Sigrúnu og börnin.

Einar Falur og Ingibjörg.

Fáir menn hafa í huga mér jafn sterka tengingu við landið og Georg Guðni Hauksson, sem lést langt fyrir aldur fram þar sem hann var á ferðalagi í nágrenni við fjallið Heklu.

Engan þekki ég sem notað hefur hæfileika sína í þessu jarðlífi jafn vel og Guðni. Myndlist hans er algerlega handan orða en kemur við stað í okkur mannfólkinu, sem fáum tekst að hreyfa við í eitt augnablik, sem varir heila eilífð.

Umhverfis Guðna er stór og falleg fjölskylda, sem hefur alla tíð hjálpast að við að eiga gott líf, fylla það af dýrmætum augnablikum, fegurð og hlýju.

Guðni var ekki bara framúrskarandi myndlistarmaður og dásamlegur fjölskyldufaðir, hann var hugsuður og athafnamaður, sem skapaði í kringum sig heilan heim, sem gott var að vera í. Hann var heill í öllu sem hann tók sér fyrir hendur.

Heimurinn hans Guðna er áfram til, þó Guðni sé farinn og hann eftirlætur eftirlifendum að dvelja þar áfram. Þó er erfitt að tjá hversu sárt maður finnur til með fjölskyldunni, sem hefur alveg nýjan kafla að Guðna gengnum. Ég hugsa til Sigrúnar og barnanna fimm á daginn og nóttunni og vona að þau finni þann styrk, sem kalla má kraftaverk, til að halda áfram veginn, þess fullviss að Guðni dvelur þar sem fegurðin og ljósið ríkja.

Eva María Jónsdóttir

Georg Guðni Hauksson, einstaklega kær vinur og dýrmætur maður, er fallinn frá langt um aldur fram.

Mikið tómarúm myndast við fráfall þeirra sem manni eru kærir og utan þess tómarúms þyrlast upp óteljandi minningar í ringluðum huga breyttra aðstæðna.

Röddin, hláturinn, handahreyfingarnar, göngulagið, brosið og glettnislegt augnaráðið. Stoltið og gleðin yfir börnunum sínum, ástin til Sigrúnar og einstök samheldni og fallegt samband þessara tveggja einstaklinga sem bundust tryggðaböndum svo ung, umhyggjan fyrir stórfjölskyldunni. Húmorinn og vangavelturnar um lífið og listina, vitneskan um lifandi náttúru. Frásagnir frá Berangri í Rangárþingi, byggingarframkvæmdum og trjáræktinni þar, sögur frá sýningarferðum víðsvegar um heiminn, grínsögur af uppátækjum krakkanna.

Í örfáum orðum mætti lýsa eiginleikum Guðna: Hæfileikar, húmor, heilbrigð skynsemi, hógværð, yfirvegun, æðruleysi, trygglyndi, vinnusemi.

Það má líka sjá margt í myndum Guðna sem minnir á hann sjálfan. Milda birtan minnir á birtuna í hans persónu, grænu lendurnar minna á frjósama lífið hans, bláu litirnir fela í sér andlegan þroska hans, styrk og tæru hugsunina.

Aldrei nokkurn tíma heyrðist Guðni hallmæla eða dæma aðrar manneskjur og málefni heldur mat hann allt af stakri skynsemi og hógværð.

Það var stórkostlegt að sjá hvernig Guðni gat fullkomlega sökkt sér niður í vinnuna við málverkið á vinnustofunni heima á Rafstöðvarvegi þó litlu bræðurnir væru þar að leika sér við hlið hans eða mála sínar eigin myndir. Kom jafnvel fyrir að þeir löguðu aðeins til í myndum Guðna ef þannig stóð á að hann væri ekki á staðnum. Þessu gátu þau Sigrún skemmt sér kostulega yfir. Allt virtist einhvern veginn gerast auðveldlega og eðlilega. Þó er auðvitað ekki nokkur vafi á að mikillar skipulagningar og þrautseigju er þörf í 7 manna fjölskyldu. T.d. þegar allur hópurinn lagði upp í hálendisferðir á sérstaklega útbúnum fjallabíl. Úr þeim ferðum kom Guðni iðulega heim með bunka af býants- og kolateikningum eða vatnslitamyndum.

Sameiginlegar ferðir okkar, bæði erlendis og hérlendis til að auðga myndlistarsýnina og aðventufundir litla hópsins okkar, sem byrjaði að hittast hjá Sverri og Ingibjörgu fyrir margt löngu, svo og góðar heimsóknir Guðna og Sigrúnar í gegnum árin voru alltaf til gleði og fróðleiks og eru dýrmætar perlur í minningaperlufestinni og fyrir þetta allt þökkum við.

Georg Guðni skilur eftir sig fallegan vitnisburð um líf sitt. Börnin fimm, mikið og einstakt safn verka og víðáttumikla gróðurreiti. Um áhrif og afrek hans í myndlistinni er annarra að fjalla um en víst er að í málverkum Guðna býr einhver æðri máttur og tilfinning og þau lifa dýrmætu lífi. Við trúum því að Guðni dvelji nú í nýju vori og finni þar mörg mótív í myndir nýrra vídda sem við fáum seinna að sjá.

Elsku Sigrún, Elísabet, Gígja, Tómas, Tumi og Jón Guðni og fjölskyldan öll. Missir ykkar er óumræðanlega mikill. Megi Guðs blessun styrkja ykkur og leiða inn í auðveldari og bjartari tíma.

Þakka þér fyrir samfylgdina, elsku vinur, landið mun alltaf minna okkur á þig.

Blessuð sé minning þín.

Gunnar og Þórdís.

Okkur bættist góður liðsauki í hlaupahópinn Árbæjarskokk þegar Georg Guðni hóf að æfa með okkur fyrir tæpum tveimur árum. Hann hafði þá þegar nokkra reynslu af langhlaupum og reyndist góður félagi, mætti reglulega og tók þátt í félagsstarfi hópsins eftir því sem tök voru á. Hann hafði mikinn áhuga á langhlaupum og lagði sig fram um að ná auknum árangri, hópurinn fylgdist með og gaf hvatningu og góð ráð. Það er í eðli hlaupahópa að þar koma saman einstaklingar af flestum sviðum þjóðlífsins en Georg Guðni var eini listmálarinn í okkar hópi, vel þekktur af verkum sínum, en hógvær um persónulega sigra sína á þeim vettvangi. Í okkar hópi snérist umræðan um árangur og markmið í hlaupum og Georg Guðni hafði sett markið á Laugavegshlaup í sumar og ferð með hópnum í Berlínarmaraþon í haust. Enginn átti von á öðru en þær áætlanir myndu standast.

Félagar í Árbæjarskokki senda ástvinum Georgs Guðna sínar dýpstu samúðarkveðjur við fráfall hans.

Hávar Sigurjónsson.

Góðir myndlistarmenn breyta sýn okkar á veruleikann. Á gangi úti á Geldinganesi árla morguns sunnudaginn 19. júní sá ég Akrafjall eins og Georg Guðni ímyndaði sér það, sem einskæra hugmynd að fjalli, málaða með þeirri sérkennilegu blöndu jarð- og okkurlita, með stöku skiptingum yfir í blá- og svargráa sveipi, sem framan af voru einkenni á handbragði listmálarans. Og eins og iðulega gerist í verkum Georgs Guðna, var engu líkara en hugmyndin væri einhvern veginn réttari en fjallið sjálft, ef til vill vegna þess að hún var gersneydd þeim aukamerkingum sem í tímans rás hafa hlaðist á náttúruna í kringum okkur. Það fjall sem ég sá var hrein nánd, mynd af sjálfri sér.

Og þar sem ég sökkti mér niður í þessa nánd, án þess að hugsa sérstaklega til jarðnesks höfundar hennar, svo mjög er hún orðin hluti af náttúruskynjun nútíma Íslendinga, hringdi síminn og grimmúðugur veruleikinn þröngvaði sér inn í vitund mína. Georg Guðni hafði látist skyndilega og ófyrirséð í skauti náttúrunnar sem hafði reynst honum svo gjöful.

Hvort sem okkur líkar betur eða verr eigum við Íslendingar okkur aðeins eina samfellda myndlistarhefð með óslitið þróunarferli frá úthallandi 19. öld og til dagsins í dag. Þessi hefð grundvallast á íslensku landslagi. Þær listastefnur sem gengið hafa yfir íslenska myndlist í hartnær heila öld, hafa ekki náð að ýta henni til hliðar, heldur samsamast henni. Meðvitundin um íslenskt landslag brýst fram í geómetrískum abstraktverkum, hún er fyrir hendi í hrúgöldum SÚM-listamanna, og innsetningar- og láðlist síðari áratuga eru uppfullar með skírskotanir til íslenskrar náttúru.

Tveir listmálarar eiga stærri þátt í mótun þessarar myndlistarhefðar en aðrir, þeir Jóhannes Kjarval og Georg Guðni Hauksson. Kjarval beindi sjónum okkar að innviðum öræfanáttúrunnar, mosa, skófum, melum og lyngi, auk þess sem hann skilgreindi upp á nýtt „staðinn“ í íslenskri náttúru, sem uppsafnaða merkingu alls þess sem gerst hafði við eða í námunda við hann. Georg Guðni var fulltrúi nýrrar kynslóðar listmálara sem hreinsa vildi viðfangsefni sín af hefðbundnu trússi, hverfa til upprunalegrar merkingar þeirra. Hann þróaði það sem kalla mætti meta-landslag, huglægar eftirmyndir þekktra fjalla, heiða og strýtna, stundum svo einfaldaðar að jaðraði við hið óhlutlæga, en samt í fullu samræmi við skynreynslu okkar.

Samskipti listamanna og okkar milliliðanna, sýningarstjóra, gagnrýnenda og listfræðinga, einkennast stundum af misskilningi eða tortryggni. Það fylgdi því ævinlega sérstök ánægja að umgangast Georg Guðna. Skarpskyggni, rökfesta og víðsýni einkenndu viðmót hans, að ógleymdri glaðværð hans og hjálpsemi.

Samband Georgs Guðna við fjölskyldu sína var einstakt; á stundum kom maður að honum á vinnustofunni með penslana á lofti og barnahópinn við alls konar iðju allt um kring. Harmur er kveðinn að stórri fjölskyldu.

Öllum aðstandendum Georgs Guðna Haukssonar sendi ég hugheilar samúðarkveðjur.

Aðalsteinn Ingólfsson.

Hinsta kveðja frá Íþróttafélaginu Fylki

Georg Guðni Hauksson var mikilvægur hlekkur og félagi í Fylki á fyrstu árum félagsins. Hann iðkaði íþróttir í skjóli Fylkis og var mjög efnilegur handknattleiksmaður. Guðni var lykilmaður í meistaraflokki Fylkis aðeins 17 ára að aldri en hætti ungur og var sárt saknað af félögum sínum. Guðni snéri aftur til starfa fyrir Fylki eins og svo margir sem foreldri þegar hann fylgdi börnum sínum eftir á æfingar og leiki. Alltaf með bros á vör og tilbúinn að leggja félaginu lið í smáu sem stóru. Missir okkar er mikill en þó mestur hjá fjölskyldunni. Íþróttafélagið Fylkir þakkar Georg Guðna samferðina og stuðninginn og sendir innilegar samúðarkveðjur til fjölskyldu hans. Megi minning Georgs Guðna lifa með okkur öllum.

F.h. Íþróttafélagsins Fylkis,

Örn Hafsteinsson.

Þetta hlýtur að vera misskilningur, var það fyrsta sem kom upp í huga okkar þegar við fengum þær sorglegu fréttir að elsku vinur okkar, Georg Guðni Hauksson, væri látinn.

Síðustu daga höfum við hjónin rifjað upp margar yndislegar minningar um Georg Guðna, sem við kölluðum alltaf bara Guðna, og Sigrúnu konu hans. Það fyrsta sem kemur upp í hugann er hversu samheldin þau Sigrún voru í öllu sem þau tóku sér fyrir hendur. Við skynjuðum svo vel þann kærleika og virðingu sem ríkti þeirra á milli.

Þau voru ófá ferðalögin sem við fórum í saman og við erum mjög þakklát fyrir það að hafa fengið að njóta þess að ferðast með honum um hálendi Íslands og fengið að læra af því sem hann hafði fram að færa.

Guðni kunni betur en nokkur annar að njóta augnabliksins. Gilti þá einu hvort við vorum föst í snjóskafli uppi á fjöllum, á sandauðn í blindþoku, í mistri í dalverpi eða á sólríkum degi. Hann sá náttúru Íslands með öðrum augum en margur annar, kunni að njóta staðar og stundar og gat komið allri þessari fegurð og dýpt á striga. Þannig gat hann fært okkur hinum fegurðina eins og hann sá hana.

Við munum sérstaklega eftir dýrmætum og ógleymanlegum augnablikum á okkar mörgu ferðalögum, hvort sem var um vetur eða sumar. Til að mynda þegar við stoppuðum á góðum stað til að búa til kaffi í forláta kaffikönnu sem hann var með og/eða til að gista.

Þá kom Guðni sér fyrir á góðum útsýnisstað, lyfti aðeins upp höfðinu svo hann sæi betur yfir landið, lyfti hendinni upp til að benda, puttinn aðeins boginn, og vætti varirnar svona til að undirbúa sig. Síðan þuldi hann upp fjallanöfnin í kringum okkur og stundum kom saga í lokin. Skipti engu hvar við vorum stödd á Íslandi, hann kunni öll nöfn og staðarheiti.

Sérstaklega var gaman að hlusta á hann þylja upp fjallanöfnin í kringum Berangur, en sá staður var honum og fjölskyldu hans einkar kær.

Núna sitja þeir eflaust saman bræðurnir, Guðni og Tommi vinur okkar, sem féll frá fyrir 24 árum, og þylja upp fjallanöfnin saman á góðum útsýnisstað.

Við eigum eftir að sakna Guðna sárt.

En margar yndislegar minningar um hann munu lifa áfram í hugum okkar. Framvegis þegar við reynum að rifja upp íslenku fjallanöfnin munum við hugsa til Guðna og alls þess sem hann hefur kennt okkur.

Elsku Sigrún, Elísabet, Guðrún Gígja, Tómas, Tumi, Jón Guðni og fjölskylda, hugur okkar er hjá ykkur sem aldrei fyrr.

Frá Granada,

Óli Þór Barðdal og

Agnes Jónsdóttir.

Kæri Georg.

Ég frétti að þú hefðir í skyndingu yfirgefið okkur, um það leyti sem sumarið seildist inn í norðrið. Sú hörmulega fregn hryggir mig óumræðilega og fyllir mig sársauka, eins og hún hlýtur að gera Sigrúnu eiginkonu þinni, börnum ykkar, foreldrum, ættingjum, sem og vinum þínum og aðdáendum út um allan heim. Þú hefur veitt okkur svo óendanlega mikinn innblástur með málverkum þínum, skýrri hugsun, góðmennsku, staðfestu, tryggð og frábærri kímnigáfu.

Kannski er mér farið eins og fleirum sem þig þekktu – að syrgja af eintómri sjálfselsku minni persónutöfra þína og lífsgleði. Þar sem ég hef lengi dáðst að vinnubrögðum þínum og afrakstri þeirra, þykir mér sárt að fá ekki að njóta þeirra verka sem þú áttir ógerð.

Aðeins tíminn fær breytt hinum fyrstu viðbrögðum sorgar í góðar minningar um einstakan dreng, og ég vonast til að geta fylgt þínu fallega fordæmi í því að horfa, hlusta og finna til, alla þá daga og allar þær nætur sem mér eru gefnar hér á jörð.

Takk fyrir líf þitt og vináttu.

Ást,

Viggo Mortensen.

Fréttin af ótímabæru andláti Georgs Guðna kom okkur í opna skjöldu líkt og nístandi kuldakast, einmitt þegar sól var loksins tekin að ryðja úr vegi leifunum af þrálátu vorhreti. Svo ríkur hluti var hann af íslenskum listheimi að hann skilur eftir sig stórt skarð sem verður trauðla fyllt. Við sjáum á bak nánum vini og velunnara sem með nærveru sinni, áhuga og eðlislægri hlýju var listalífi landsins ómetanleg stoð. Fyrir utan fjölmargar sýningar í Listasafni Íslands sem skörtuðu verkum hans tók Guðni virkan þátt í starfsemi safnsins, meðal annars með setu í safnráði þess. Þótt hann legði stund á landslag líkt og fjölmargir forverar hans var list hans engu lík. Skilningur hans á íslenskri náttúru, veðurfari, víðrými, auðn og andrúmslofti var einstæður, svo enginn fór í fötin hans þótt margir vildu Lilju kveðið hafa.

Það er þyngra en tárum taki að kveðja þig, en vittu að verk þín munu halda áfram að hræra okkur með sínum sígilda slagkrafti og lifa með okkur rétt eins og þú sjálfur. Um leið og við drúpum höfði og þökkum fyrir samveruna sendum við Sigrúnu þinni og börnum okkar innilegustu samúðarkveðjur. Megi minningin um þig styrkja þau í sorginni.

Kveðja frá starfsmönnum Listasafns Íslands,

Halldór Björn Runólfsson.

HINSTA KVEÐJA
Ég kveð þig minn kæri vinur: Í dulúðugu og margbrotnu rými verka þinna munt þú lifa um alla tíð.
Öllum aðstandendum sendi ég mínar dýpstu samúðarkveðjur.
Kristinn E. Hrafnsson.
Á sumardagsins fyrsta fund
fellur hrímkalt haust.
Lífið varir litla stund
en listin endalaust.
(HH)
Hallgrímur Helgason