Atvinnulaus Aron Einar Gunnarsson verður atvinnulaus frá og með morgundeginum. Miðað við áhuga liða verður það ekki lengi.
Atvinnulaus Aron Einar Gunnarsson verður atvinnulaus frá og með morgundeginum. Miðað við áhuga liða verður það ekki lengi. — Ljósmynd/Hilmar Þór
Guðmundur Hilmarsson gummih@mbl.is Landsliðsmaðurinn Aron Einar Gunnarsson er með tilboð frá einu ensku úrvalsdeildarliði, tveimur liðum úr ensku 1. deildinni og einu liði úr þýsku 1. deildinni en samningur hans við enska 1.

Guðmundur Hilmarsson

gummih@mbl.is

Landsliðsmaðurinn Aron Einar Gunnarsson er með tilboð frá einu ensku úrvalsdeildarliði, tveimur liðum úr ensku 1. deildinni og einu liði úr þýsku 1. deildinni en samningur hans við enska 1. deildarliðið Coventry rennur út í dag. Coventry vill gera nýjan samning við Aron Einar en miðjumaðurinn öflugi segir nær öruggt að hann verði ekki áfram hjá Coventry á næstu leiktíð.

„Ég er búinn að ræða við fjögur félög sem öll eru búin að bjóða mér samning og ég býst við því að málin komist á hreint mjög fljótlega. Ég verð atvinnulaus á morgun en ég er bjartsýnn á að vera kominn með nýtt lið í næstu viku,“ sagði Aron Einar í samtali við Morgunblaðið í gær en hann er staddur í Dubai þar sem hann er að safna kröftum eftir langt og strangt tímabil.

Búnn að ræða við tvo þjálfara

Aron vildi ekki greina frá því hvaða félög um er að ræða þar sem hann er í viðræðum við þau en hann staðfesti við Morgunblaðið að eitt þeirra væri úr ensku úrvalsdeildinni og eitt úr efstu deildinni í Þýskalandi. „Það veltur á því hvað þjálfararnir segja. Ég er búinn að ræða við þjálfarana úr liðunum í ensku 1. deildinni sem hafa boðið mér samning og þeir sögðu mér báðir að ég yrði fastamaður í þeirra liðum en ég mun gera upp hug minn þegar ég er búinn að ræða við alla þjálfarana,“ sagði Aron, sem er 22 ára gamall, gekk í raðir Coventry frá hollenska liðinu AZ Alkmaar árið 2008 og hefur verið einn af lykilmönnum liðsins.

„Coventry vill halda mér en eins og staðan er í dag þá reikna ég fastlega með því að fara frá liðinu,“ sagði Aron, sem heillaði marga með frammistöðu sinni á Evrópumóti U21 árs landsliða í Danmörku.