Félagar Reimar Vilmundarson og Sigurður Hjartarson slá saman til að bæta þjónustuna við ferðamenn.
Félagar Reimar Vilmundarson og Sigurður Hjartarson slá saman til að bæta þjónustuna við ferðamenn. — Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is „Það ræðir enginn um ísbirni nema í góðlátlegu gríni.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

„Það ræðir enginn um ísbirni nema í góðlátlegu gríni. Fólk veit að svæðið er vaktað og ekki nein ástæða til að hafa áhyggjur af ísbjörnum,“ segir Reimar Vilmundarson, útgerðarmaður í Bolungarvík við Ísafjarðardjúp, sem flytur ferðafólk í Jökulfirði og Hornstrandir og komst í sviðsljósið þegar hann fann ísbjörn á Hornströndum í byrjun maí.

Reimar hefur í mörg ár flutt ferðafólk frá Norðurfirði á Ströndum norður í Bolungarvík á Ströndum þar sem hann rekur gistiheimili og á fleiri staði þar um slóðir. Sigurður Hjartarson hefur verið með ferðir frá Bolungarvík, ekki síst í Jökulfirði. Þeir ákváðu í vetur að sameina krafta sína og auka þjónustuna. Þeir koma hvor með sinn bátinn inn í samstarfið og keyptu saman þriðja bátinn sem þeir eru að gera upp í þessum tilgangi.

Þróa nýjar gönguleiðir

„Hugmyndin er að fjölga ferðum í Jökulfirði og á Hornstrandir næsta sumar og koma betra skipulagi á áætlunina. Þá ætlum við að brydda upp á nýjungum í gönguferðum um svæðið,“ segir Reimar.

Ekki virðist vera mikil framþróun í hinum hefðbundnu gönguferðum um Hornstrandir þar sem göngufólkið ber með sér farangurinn. Reimar telur að sóknarmöguleikarnir séu í því að þjóna fólki sem vill hafa betri aðstæður í gönguferðunum. „Mér finnst vera vakning meðal fólks sem á ættir að rekja norður og hefur aðgang að húsum. Fólkið sækir mikið þangað og við reynum að þjóna því með flutninga,“ segir Reimar.

Þótt minni umsvif séu í ferðunum frá Norðurfirði í Bolungarvík nyrðri mun Reimar bjóða upp á þær í sumar og segir ekki útilokað að því verði haldið áfram á næstu árum þótt áherslan verði á ferðir frá Bolungarvík við Djúp.

Hefur upplifað margt á Ströndum

Alvöru birnir og úr plasti

Reimar er alinn upp í Bolungarvík, veiðimaður mikill og meðvitaður um hættuna sem stafar af ísbjörnum. Hann fer því helst aldrei byssulaus á sjó. Það gerðist þó í byrjun maí þegar hann sá ísbjörninn, eins og frægt varð. „Ég hef upplifað margt á Ströndum,“ segir Reimar en hann sá eitt sinn ísbjörn sem táningur. „Pabbi var alltaf með byssu á bak við hurðina heima. Eitt vorið, þegar hafís hafði verið, kom hann og sagðist hafa fundið ísbjörn. Það reyndist vera plastbjörn sem rekið hafði á fjöru.“