Krabbamein Hérlendis greinast að jafnaði um 17 konur árlega með leghálskrabbamein og um 300 með alvarlegar forstigsbreytingar þess.
Krabbamein Hérlendis greinast að jafnaði um 17 konur árlega með leghálskrabbamein og um 300 með alvarlegar forstigsbreytingar þess. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Hjörtur J. Guðmundsson hjorturjg@mbl.is Tveir árgangar stúlkna, fæddar 1998 og 1999, verða næsta skólavetur bólusettar gegn HPV-sýkingum (human papillomavirus) og leghálskrabbameini og hefst bólusetningin í september.

Fréttaskýring

Hjörtur J. Guðmundsson

hjorturjg@mbl.is

Tveir árgangar stúlkna, fæddar 1998 og 1999, verða næsta skólavetur bólusettar gegn HPV-sýkingum (human papillomavirus) og leghálskrabbameini og hefst bólusetningin í september. Í framhaldi af því er gert ráð fyrir að 12 ára stúlkur verði bólusettar árlega en bólusetningin á að vernda þær það sem eftir er ævinnar. Bólusetningin er á ábyrgð heilsugæslunnar og mun fara fram í skólum landsins, en fræðsluefni til stúlkna og foreldra þeirra verður dreift í byrjun næsta skólaárs.

Samningur var undirritaður á dögunum um kaup á bóluefni í þessu skyni en í kjölfar útboðs var samið við GlaxoSmithKline Íslandi um kaup á bóluefninu Cervarix en full bólusetning felur í sér þrjár sprautur af efninu á ári.

Yfir 300 greiningar hér

Hér á landi greinast að jafnaði um 17 konur á ári með leghálskrabbamein samkvæmt upplýsingum frá Landlæknisembættinu og þrjár látast af völdum þess. Meðalaldur þeirra sem greinst hafa er um 45 ár. Um 300 konur hérlendis greinast hins vegar árlega með alvarlegar forstigsbreytingar leghálskrabbameins.

„Með bólusetningunni verður komið í veg fyrir sýkingar af völdum HPV sem valdið geta leghálskrabbameini. Talið er að með almennri bólusetningu megi koma í veg fyrir 60-70% leghálskrabbameins og um 40% alvarlega forstigsbreytinga þess,“ segir í frétt á heimasíðu Landlæknisembættisins í vikunni.

274 þúsund deyja árlega

Leghálskrabbamein er næstalgengasta krabbamein hjá konum á heimsvísu samkvæmt því sem fram kemur á heimasíðu Landlæknisembættisins. Yfir 493 þúsund ný tilfelli greinast í heiminum árlega og um 274 þúsund konur deyja af völdum leghálskrabbameins á ári hverju.

Fram kemur að leghálskrabbamein sé sérstaklega algengt í þróunarríkjum þar sem ekki er fyrir að fara skipulagðri krabbameinsleit, en þar er leghálskrabbamein í efsta sæti yfir dánarorsakir af völdum krabbameins. Um 80% allra einstaklinga sem greinast með leghálskrabbamein sé að finna í þróunarlöndunum. Ennfremur kemur fram að HPV sé aðalorsakavaldur krabbameins í leghálsi og áætlað sé að yfir 11% alls krabbameins hjá konum í heiminum orsakist af þessum veirum.

Smitast við kynmök

HPV, sem einnig nefnist vörtuveira, veldur einnig kynfæravörtum og rannsóknir hafa leitt í ljós að hún berst á milli fólks við kynmök. Fram kemur í skýrslu á vegum Landlæknisembættisins sem kom út árið 2008 að sýking á kynfærum sé algengasta sýking HPV hjá bæði konum og körlum. Ennfremur að helstu áhættuþættir HPV-sýkinga tengist kynhegðun fólks og þá einkum aldri við fyrstu kynmök sem og fjölda rekkjunauta.

„Áætlað hefur verið að a.m.k. 40-50% kvenna sem stunda kynlíf sýkist af HPV innan 2-3 ára eftir fyrstu kynmök og flest verði þau á 8-14 mánaða tímabili. Þannig er talið að a.m.k. helmingur kvenna og karla sem stunda kynlíf sýkist af HPV á lífsleiðinni og sumar rannsóknir leiða í ljós að allt að 80% kvenna smitist,“ segir ennfremur í skýrslu Landlæknisembættisins.

Haraldur Briem

Tregða vegna kostnaðar

„Ætli það séu ekki um tíu ár síðan farið var að rannsaka þetta og við tókum nú þátt í slíkum rannsóknum. En það hefur staðið svolítið í þjóðum heims að taka þessar bólusetningar upp vegna kostnaðar en svo hafa þær ein af annarri verið að byrja að gera það. Við ætluðum að taka þær upp fyrir nokkrum árum en við bankahrunið breyttist það allt. Kostnaðurinn af þessu snarhækkaði,“ segir Haraldur Briem sóttvarnalæknir.

Síðan hafi vaknað vilji til þess að koma þessu á og fjárveiting hafi fengist til þess frá Alþingi. Í framhaldinu hafi síðan verið farið í útboð og út úr því hafi komið mjög hagstætt tilboð í bóluefni við leghálskrabbameini.