Fossinn hái Jón Viðar áætlaði að Guðmundur Ögmundsson, sem sést á myndinni, hafi verið um 700 metra frá fossinum háa þegar myndin var tekin. Þeim ber saman um að veran í fjallasalnum á Morsárjökli sé áhrifamikil. Þar kveða við miklar drunur þegar ísstykkin falla 200-300 metra niður úr jökulbrúninni.
Fossinn hái Jón Viðar áætlaði að Guðmundur Ögmundsson, sem sést á myndinni, hafi verið um 700 metra frá fossinum háa þegar myndin var tekin. Þeim ber saman um að veran í fjallasalnum á Morsárjökli sé áhrifamikil. Þar kveða við miklar drunur þegar ísstykkin falla 200-300 metra niður úr jökulbrúninni. — Ljósmyndir/Jón Viðar Sigurðsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Hæsti foss landsins er vart undir 240 metrum á hæð, að mati Jóns Viðars Sigurðssonar jarðfræðings.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Hæsti foss landsins er vart undir 240 metrum á hæð, að mati Jóns Viðars Sigurðssonar jarðfræðings. Hann lagði leið sína á Morsárjökul á miðvikudaginn var ásamt Guðmundi Ögmundssyni, aðstoðarmanni þjóðgarðsvarðar í Skaftafelli. Erindið var að mæla betur hæð fossins sem myndast hefur í háum hömrum innarlega á Morsárjökli. Fyrirtækið Ísmar ehf. lánaði þeim tæki til mælinganna.

„Nú liggur niðurstaðan fyrir. Mæling okkar gefur 227,3 metra. Það er ekki fjarri 228 metrum sem við áætluðum með einfaldri mælingu hinn 12. júní. Það má því segja að sú mæling standi. Raunveruleg hæð fossins er því vart undir 240 metrum ef við tökum með þann hluta sem er hulinn á bak við skafl,“ sagði Jón Viðar. Þess má geta að til þessa hefur Glymur í Hvalfirði verið hæsti foss landsins en hann er 190 metra hár.

Hæð fossins í Morsárjökli var ákvörðuð frá þremur mælistöðum með þríhyrningamælingu. Nokkru frá berginu er mikill skafl og þar fyrir innan sprunga eða gjóta í jökulinn næst berginu. Áætlað er að gjótan sé 10-15 metra djúp. Stöðugt hrynur úr jöklinum sem gengur fram á bergbrúnina. Það er því óðs manns æði að fara alveg upp að fossinum til að mæla dýpt gjótunnar. Jón Viðar segir að fróðlegt geti verið að gera nákvæmari mælingu með betri tækjum í lok sumars þegar meira hefur bráðnað af skaflinum sem fossinn hverfur bak við.

En hvernig var rennslið í fossinum? var það breytt frá 12. júní?

„Rennslið var svipað í fossinum en hins vegar hafði rennsli á öðrum stöðum, þar sem vatn fossar undan jöklinum, aukist verulega,“ sagði Jón Viðar. Hann sagði að sitthvorumegin við háa fossinn kæmi líka vatn undan jöklinum og myndaði fossa. Þar hefði vatnsmagnið margfaldast á tveimur vikum. „Þetta er leysingavatn sem kemur undan jöklinum. Það hafði greinilega hlýnað það mikið í millitíðinni að það var miklu meira vatn í fossum sem falla þarna til sitt hvorrar handar,“ sagði Jón. Þarna er stöðugt íshrun, meðal annars fyrir ofan háa fossinn.

„Það gengur mikið á þegar maður er kominn inn í þessa skál eða sal þarna innst á jöklinum. Ísstykkin falla 200-300 metra niður á jökulinn og það verða miklar drunur og læti þegar þetta brotnar. Það brotnar úr stálinu á um 15 mínútna fresti og hrynur niður. Maður vogar sér ekki nær en 200-300 metra,“ sagði Jón Viðar.

Jökullinn varasamur yfirferðar

Nýja fossinn er hægt að sjá frá Kristínartindum í um sex kílómetra fjarlægð. Þá sést örla fyrir efsta hluta hans af þjóðvegi 1 á Skeiðarársandi sem er um 20 km frá fossinum. Þeir Jón Viðar og Guðmundur eru sammála um að það sé ekki skynsamlegt fyrir fólk að ganga inn jökulinn að fossinum nema það sé vant jöklagöngum og með nauðsynlegan búnað, mannbrodda og ísexi, og kunni að nota hann.

„Ég ræð fólki frá því að reyna þetta nema það hafi þjálfun til þess,“ sagði Jón Viðar. „Aðstæður geta verið mjög breytilegar. Jökullinn er á hreyfingu. Stundum er einfalt að komast upp á jökulsporðinn en viku seinna getur verið erfitt að komast upp.“

„Þetta er dálítið magnað umhverfi,“ sagði Guðmundur, aðstoðarmaður þjóðgarðsvarðar. Hann sagði að hughrifin væru sterk við að koma þarna og staðurinn sérstakur. Guðmundur sagði það ekki standa til hjá Vatnajökulsþjóðgarði að hefja skipulagðar skoðunarferðir í hamrasalinn að skoða fossafansinn. Það væri glapræði fyrir óvana og vanbúna ferðamenn að reyna að leggja á jökulinn.

„Það er erfitt að komast inn á jökulinn og erfiður kafli um miðbik hans,“ sagði Guðmundur.

Hugmyndasamkeppni

Fjölbreyttar tillögur að fossnafni

Alls barst 1.991 tillaga að nafni á hæsta foss landsins sem er í klettabelti innarlega á Morsárjökli. Gerðar voru tillögur að 986 ólíkum nöfnum en nokkuð var um að fólk hefði fengið sömu eða svipaða hugmynd að nafni.

Flestir lögðu til nafnið Morsárfoss eða 119, næst komu nöfnin Klettafoss og Morsi hvort með 56 tilnefningar. Þá var Jökulfoss með 50 tilnefningar og Morsárfossar með 45. Séu nöfnin Morsárfoss og Morsárfossar tekin saman voru það 164 tilnefningar.

Margar góðar hugmyndir felast í þessu safni og sumar úthugsaðar. Breiðufossar, Breiðukvíslafossar, Slæðufoss og Fléttufoss vísa til þess hvernig fossinn breiðir úr sér. Í mörgum hugmyndum er fossinn kendur við hamra eða berg og má nefna nafnið Hamraslæða til dæmis um það. Þá tengdust margar hugmyndir hæð fossins svo sem Stórifoss, Tröllafoss, Háifoss og Miklifoss. Felufoss og Huldufoss vísar til þess að fossinn er hálffalinn. Nöfnin Hrynjandi og Þrymur tengjast íshruninu sem er stöðugt við fossinn. Jökulbúi og Klakafoss vísa til nánasta umhverfis fossins. Nokkrar tillögur tengjast nálægum örnefnum svo sem Öræfafoss, Birkidalsfoss, Birkifossar, Skarðafossar og Hnútufoss. Þá voru nokkrar skondnar tillögur eins og Undanrenna sem vísar til þess að vatnið rennur undan jökli.

Morsárfoss, Klettafoss, Morsi og Þrymur

Fá viðurkenningar fyrir nöfnin

Þrjár nafnatillögur voru áberandi algengastar. Það eru Morsárfoss, Klettafoss og Morsi. Þrír einstaklingar af þeim sem sendu inn þessar tillögur voru valdir með slembiúrtaki. Þetta eru þau Ester Helgadóttir með tillöguna Morsárfoss, Jón Þór Ólafsson með tillöguna Klettafoss og Jón Fornason með tillöguna Morsi. Þau fá að launum bókina Sögustaðir – Í fótspor W.G. Collingwoods eftir Einar Fal Ingólfsson. Þá fær Jón Viðar Sigurðsson jarðfræðingur, sem mældi fossinn, sérstaka heiðursviðurkenningu fyrir tillöguna Þrymur. Nafnið kemur úr norrænni goðafræði og er einnig keimlíkt nafninu Glymur sem hingað til hefur verið talinn hæsti foss landsins og tengir þá saman með þessum hætti. Jón Viðar fær sömuleiðis bókina Söguslóðir.