Vigdís Hauksdóttir
Vigdís Hauksdóttir
Eftir Vigdísi Hauksdóttur: "Rangfærslur Gylfa í blaðinu hinn 30. september eru hrópandi."

Þegar Gylfi Arnbjörnsson gerði mér það ljóst snemma árs 2009 að ég þyrfti að velja á milli lögfræðistöðu hjá ASÍ eða þess að fara í framboð fyrir Framsóknarflokkinn í Reykjavík var ég hvött til þess að fara í mál við ASÍ á grunni 65. gr. stjórnarskrárinnar en hún hljóðar svo: „Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.“ Ég hef ekki skeytt um að sækja rétt minn en vissulega væri ég að skapa fordæmi þar sem um hjarta verkalýðsbaráttunnar er að ræða – sjálft flaggskipið sem á að standa vörð um störf fólks – bæði á grunni pólitískra skoðana og ekki síður kvenréttindabaráttu. Rangfærslur Gylfa í blaðinu hinn 30. september eru hrópandi. Ég var ekki varaþingmaður Framsóknarflokksins er mér var boðin lögfræðingsstaða hjá ASÍ og ég var launalaus þegar ég sótti héraðsdómsnámskeið. Ég sótti ekki um launalaust leyfi hjá ASÍ því mér var sagt upp störfum. Sannleikurinn er sá að þegar ljóst var að uppstillingarnefnd Framsóknarflokksins ætlaði að gera tillögu um nafn mitt í oddvitasæti í Reykjavík hringdi ég í Gylfa Arnbjörnsson – snemma á laugardagsmorgni – til að tjá honum tíðindin. Sagði ég honum jafnframt að kosið yrði um tillögu uppstillinganefndar því tveir aðilar hefðu gefið kost á sér í sama sæti. Gylfi gerði mér það ljóst þennan morgun að ef ég tæki oddvitasætið þá jafngilti það uppsögn hjá ASÍ. Urðu vitni að þessu símtali og það sáu allir að ég var mjög slegin en tók ákvörðun og áhættu um að vinna að kjöri mínu launalaus. Um starfslok mín hjá ASÍ ræði ég ekki frekar.

Gylfi skeytir engu um að svara mér efnislega og útskýrir ekki að hann hafi algjörlega brugðist félagsmönnum sínum á haustdögum 2008 er hann fór fyrir verðtryggingarnefnd forsætisráðherra sem hafnaði aftengingu verðtryggingar á húsnæðislán tímabundið. Hann svarar ekki gagnrýni minni á stuðning ASÍ við ríkisstjórnina og útgreiðslu séreignalífeyrissparnaðar. Hann útskýrir ekki stjarnfræðilegt tap lífeyrissjóðanna upp á 400-500 milljarða samkvæmt upplýsingum frá Seðlabankanum. Gylfi beitir ASÍ til stuðnings aðlögunarferlinu að ESB og talar grimmt niður íslenskan landbúnað – þrátt fyrir að um 10.000 félagsmenn hans hafi atvinnu af störfum tengdum landbúnaði. Gylfi skuldar mér ekki svör – heldur félagsmönnum sínum. Ég gleðst yfir því að greinarkorn mitt hafi vakið Gylfa og verkalýðsforystuna af meðvirkninni með ríkisstjórninni – þótt hljómurinn sé holur.

Höfundur er lögfræðingur og þingmaður Framsóknarflokksins í Reykjavík.