Sigríður Helgadóttir, aldrei kölluð annað en amma Sigga, er níræð í dag. Amma Sigga ólst upp með fimm bræðrum, gifti sig stuttu eftir að yngsti bróðirinn fæddist og eignaðist sjálf fimm syni. Það hefur ekki dugað henni að sjá um uppeldi eigin barna, heldur hefur hún gegnt mikilvægu hlutverki í lífi okkar barnabarnanna síðastliðna áratugi. Barnabarnabörnin eru líka alveg með það á hreinu hver amma Sigga er, þótt ekki væri nema fyrir þjóðlegan hádegisverð sem borinn er á borð á hverjum miðvikudegi á heimili hennar á Kjarrveginum (amma er jú alltof hress til að fara á elliheimili – mörg ár í það). Grjónagrautur og slátur – þetta finnst eiginlega öllum gott.

Hún er kjarnakona sem hefur lifað tímana tvenna. Það voru engin venjuleg húsverk sem biðu nútímakonunnar fyrir rúmri hálfri öld. Heimilishald án þvottavélar, þurrkara, uppþvottavélar, ofns, ísskáps og jafnvel sturtu er nútímakonunni næstum hlægileg tilhugsun – hugmyndin fráleit. En lífsspeki og jákvæðni ömmu hefur ætíð verið hennar styrkleiki. Hjá henni breytist rúgbrauðssneið með smjöri í danska jómfrúarsnittu, símaskráin verður jafnvel skemmtileg aflestrar og lífið dásamlega er eitt stórt ævintýri sem manni ber að njóta.

Amma Sigga er sálfræðingurinn okkar. Hún hlustar á okkur pústa og hún dæmir aldrei. Þrátt fyrir margvíslega erfiðleika í eigin lífi, lætur hún okkur aldrei heyra hvað okkar vandamál hljóma ómerkileg við hlið hennar, vegna þess að henni finnst þau ekki hljóma ómerkileg, þau eru bara öðruvísi en hennar. Og í hvert sinn sem við nefnum sigrana, þá samgleðst hún eins og enginn sé morgundagurinn. Amma Sigga hefur kennt okkur að vandamálin eru fyrir okkur að sigrast á. Það er gott að geta pústað, en þegar útpústun er lokið skal ekki liggja í sjálfsvorkunn og volæði, heldur hrista af sér slenið, standa aftur á fætur og halda áfram. Hvernig haldið þið að henni hafi tekist að tækla öll þessi 90 ár?

Um leið og við óskum ömmu til hamingju með áratugina níu, óskum við eftir því að í næstu útgáfu íslenskrar orðabókar verði orðið „amma Sigga“ sett sem samheiti við orðin „hetja, rauðsokka, kvenskörungur, sálusorgari, snillingur“. En ekki hvað?

Kristín, Sigríður, Frosti og Guðrún.