Ragnheiður Elín Árnadóttir
Ragnheiður Elín Árnadóttir
Eftir Ragnheiði Elínu Árnadóttur: "Og nú er aftur búið að framlengja um 90 daga. Ég veit ekki til þess að utanríkismálanefnd hafi verið kölluð saman, og ég veit ekki hvort Steingrímur Joð hefur verið spurður álits í þetta sinn."

Lítil frétt á heimasíðu Atlantshafsbandalagsins vakti athygli mína. Fréttin er tæplega tveggja vikna gömul, frá 21. september, og segir frá ákvörðun Norður-Atlantshafsráðsins um að framlengja hernaðaraðgerðir Atlantshafsbandalagsins í Líbíu um 90 daga. Ákvarðanir ráðsins eru teknar einróma og hefur hvert aðildarríki neitunarvald.

Aðgerðir bandalagsins í Líbíu hófust eins og kunnugt er í mars sl. og var ákvörðun um yfirtöku hernaðaraðgerða á grundvelli ályktunar Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna tekin með samþykki allra aðildarríkja, þ.m.t. ríkisstjórnar Vinstri grænna á Íslandi. Steingrímur J. Sigfússon var reyndar ekki spurður álits, eins og fram kom í máli hans á Alþingi daginn eftir.

En svo var tekin ákvörðun í júní um að framlengja hernaðaraðgerðirnar um 90 daga. Þá mætti utanríkisráðherra Íslands í utanríkismálanefnd, ræddi málin og Vinstri grænir bókuðu mótmæli. En allt kom fyrir ekki, Vinstri grænir héldu áfram að styðja hernaðaraðgerðir Atlantshafsbandalagsins í Líbíu þegar fulltrúi Íslands greiddi framlengingunni atkvæði sitt.

Og nú er aftur búið að framlengja um 90 daga. Ég veit ekki til þess að utanríkismálanefnd hafi verið kölluð saman, og ég veit ekki hvort Steingrímur Joð hefur verið spurður álits í þetta sinn. „Við erum staðráðin í að halda aðgerðum áfram eins lengi og þörf er á,“ er haft eftir framkvæmdastjóra bandalagsins í fréttinni.

Kannski finnst honum líka að það þurfi ekkert að spyrja Steingrím.

Höfundur er formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins.