Forseti Búrma tilkynnti í gær að stjórn landsins hefði ákveðið að fresta gerð umdeildrar stíflu sem ráðgert var að reisa í samstarfi við kínverskt stórfyrirtæki.

Forseti Búrma tilkynnti í gær að stjórn landsins hefði ákveðið að fresta gerð umdeildrar stíflu sem ráðgert var að reisa í samstarfi við kínverskt stórfyrirtæki.

Mikil andstaða hefur verið við Myitsone-stífluna í Irrawaddy-fljóti sem á að vera 152 metra há og ein hæsta stífla í heimi. Verði ráðist í framkvæmdirnar verður til 760 ferkílómetra miðlunarlón, tugir þorpa hverfa undir vatn og flytja þarf minnst 10.000 íbúa þeirra af svæðinu. Framkvæmdirnar myndu einnig valda óbætanlegu tjóni á svæði sem er þekkt fyrir óvenjumikinn líffræðilegan fjölbreytileika.

Kveðst virða vilja þjóðarinnar

Ljúka átti stíflunni árið 2019 til að reisa orkuver í samstarfi við stórt kínverskt orkufyrirtæki. Ráðgert var að mikill meirihluti orkunnar yrði fluttur út til Kína.

Hershöfðingjar, sem hafa verið við völd í Búrma, mynduðu fyrr á árinu ríkisstjórn sem er borgaraleg að nafninu til, en er aðallega skipuð fyrrverandi herforingjum. Orkumálaráðherra stjórnarinnar sagði nýlega að hvergi yrði hvikað frá áformunum um virkjunina þrátt fyrir andstöðuna. Thein Sein, forseti Búrma, tilkynnti þó í gær að framkvæmdunum yrði frestað, að minnsta kosti til ársins 2015 þegar skipunartímabili stjórnarinnar lýkur. Hann sagði ástæðuna þá að stjórnin vildi „virða vilja þjóðarinnar“. Að sögn fréttaskýrenda er ákvörðunin til marks um að stjórnin vilji auka stuðning sinn meðal landsmanna með því að sýna að hún taki tillit til almenningsálitsins.

Aung San Suu Kyi, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, er á meðal þeirra sem hafa lagst gegn stíflunni. bogi@mbl.is