Lágt lyfjaverð Haukur Ingason apótekari ásamt glaðlegu starfsfólki í Garðs Apóteki. Hann segist finna fyrir þakklæti viðskiptavina á hverjum degi.
Lágt lyfjaverð Haukur Ingason apótekari ásamt glaðlegu starfsfólki í Garðs Apóteki. Hann segist finna fyrir þakklæti viðskiptavina á hverjum degi. — Morgunblaðið/Sigurgeir S.
Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is „Við finnum fyrir þakklæti viðskiptavina á hverjum degi og hingað kemur sama fólkið aftur og aftur,“ segir Haukur Ingason, apótekari í Garðs Apóteki við Sogaveg.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

„Við finnum fyrir þakklæti viðskiptavina á hverjum degi og hingað kemur sama fólkið aftur og aftur,“ segir Haukur Ingason, apótekari í Garðs Apóteki við Sogaveg. Í niðurstöðum verðkönnunar Alþýðusambands Íslands á lausasölulyfjum, sem greint var frá í vikunni, var Garðs Apótek oftast með lægsta verðið og á undanförnum árum hefur apótekið iðulega verið í fremstu röð að því er lágu vöruverði viðkemur.

En hver er galdurinn?

„Það er ekki flókið,“ segir Haukur. „Við náum að halda verðinu lágu með minni álagningu og hagkvæmni í rekstri. Við höldum ágætu lífi og sjáum ekki ástæðu til að kvarta.“

Spurður hvort lyfjakeðjur ættu ekki að geta boðið lægra vöruverð í ljósi hagræðis og samlegðaráhrifa, svarar Haukur því til að því sé haldið fram í fræðunum, en keðjurnar verði að svara fyrir það. „Staðreyndin er hins vegar sú að minni apótekin hafa staðið sig vel og það eru enn nokkrir geirfuglar eins og við eftir í þessu.“

Í leiðinni fyrir marga, en aðrir taka strætó

Á horninu á Sogavegi og Réttarholtsvegi voru í eina tíð nokkrar verslanir og síðan var útibú Íslandsbanka þarna. Af verslunum eru nú aðeins apótekið og söluturninn Kúlan eftir á horninu. Staðurinn er því ekki beinlínis verslunarmiðstöð, en Haukur segir fólk ekki setja það fyrir sig þó það þurfi að leggja á sig smávegis ferðalag til að komast í apótekið.

„Þessi staður er samt í leiðinni fyrir mjög marga, örstutt frá Miklubrautinni, og fólk kemur hingað alls staðar að af höfuðborgarsvæðinu,“ segir Haukur.

„Flestir koma akandi, en það er líka eitthvað um að fólk komi hingað í strætó gagngert til að sækja lyfin sín og leið 17 stoppar hérna beint fyrir utan. Þetta á sérstaklega við um eldra fólkið, sem horfir í eyrinn og hefur rúman tíma til að taka strætó. Hérna getur fólk sest niður og fengið sér kaffibolla í rólegheitum, lesið tímarit, beðið eftir strætó eða lyfjum eftir atvikum, en við reynum þó að hafa biðtímann eftir lyfjum sem stystan,“ segir Haukur.

Fastheldið á lyfjaverslanir

Hann segir að öll apótekin kaupi vörur að mestu af sömu birgjunum og þegar hann er beðinn að lýsa þessum markaði segir hann: „Mér finnst ótrúlegt að fólk skuli ekki velta verðinu meira fyrir sér heldur en raun ber vitni og það virðist fastheldið á að versla við lyfjakeðjur, þó að þar sé alls ekki að finna lægsta verðið.“

MIKILL VERÐMUNUR

Lægstir í tvígang

Í nýjustu lyfjaverðskönnun ASÍ var Garðs Apótek við Sogaveg oftast með lægsta verðið á lausasölulyfjum eða í 20 tilvikum af 36. Verðmunur á lausasölulyfjum var frá 23% upp í 93%, en í flestum tilvikum var munur á hæsta og lægsta verði 30-60%.

Í mars í vetur var Garðs Apótek einnig oftast með lægsta verðið á algengum lausasölulyfjum, sem eru seld án lyfseðils, eða í 16 tilvikum af 34. Þá var verðmunur á milli einstakra lyfja allt að 85% en í 23 tilvikum af 34 sem skoðuð voru í könnuninni var 33-50% munur á hæsta og lægsta verði.