Á fimmtudaginn var Víkverja boðið á frumsýningu á tveimur íslenskum bíómyndum og frumsýningu á nýju verki í Þjóðleikhúsinu. Víkverji hristi hausinn yfir framboðinu. Það er með ólíkindum hvað menningarlífið er blómlegt á Íslandi.

Á fimmtudaginn var Víkverja boðið á frumsýningu á tveimur íslenskum bíómyndum og frumsýningu á nýju verki í Þjóðleikhúsinu. Víkverji hristi hausinn yfir framboðinu. Það er með ólíkindum hvað menningarlífið er blómlegt á Íslandi.

Einu sinni var það stórhátíð ef íslensk bíómynd var frumsýnd, núna eru tvær frumsýndar sama kvöldið. Útlit er fyrir að það verði ný íslensk bíómynd frumsýnd í hverri viku fram í nóvember. Þar af verða aftur tvær frumsýningar sama daginn um miðjan október þegar myndirnar Hetjur Valhalla: Þór og Borgríki verða frumsýndar.

Magn er ekki ávísun á gæði. En tilfellið er samt það að gæði íslenskra bíómynda hafa aukist. Önnur bíómyndanna sem frumsýndar voru á fimmtudaginn, Eldfjallið, hafði þegar farið víða um heim og hlotið lof allra helstu kvikmyndagagnrýnenda stóru blaðanna. Víkverja finnst það gaman. Hans litla íslenska hjarta slær aðeins hraðar ef útlendingar lofa og prísa einhvern íslenskan listamann.

Litla Ísland hefur ekki efni á því að gera bíómyndir sem eru dýrar. En íslenskir kvikmyndagerðarmenn láta þá bara útlendinga borga bíómyndirnar. Eldfjallið sem er rammíslensk mynd var að megninu til framleidd fyrir danskan pening. Hetjur Valhalla: Þór sem er dýrasta bíómynd Íslandssögunnar, en hún kostaði 1,4 milljarða króna, var líka að megninu til framleidd fyrir pening frá útlandinu.

Víkverji vill fá að kynnast þessum útlendingum sem eru alltaf að borga fyrir þessar fínu íslensku bíómyndir. Það væri athugandi hvort þeir nenntu ekki að borga rithöfundunum okkar og leikhúsfólkinu líka launin þannig að við þyrftum ekki að borga neitt af þessu sjálf.