Eldfjall Einstaklega falleg saga þótt harmleikur sé. Sögusvið myndarinnar, persónur og atburðir eru mjög raunhæfir og auðvelt að lifa sig inn í átakanlega söguna, að mati gagnrýnanda.
Eldfjall Einstaklega falleg saga þótt harmleikur sé. Sögusvið myndarinnar, persónur og atburðir eru mjög raunhæfir og auðvelt að lifa sig inn í átakanlega söguna, að mati gagnrýnanda.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Leikstjóri: Rúnar Rúnarsson. Aðalhlutverk: Theódór Júlíusson, Margrét Helga Jóhannsdóttir, Elma Lísa Gunnarsdóttir og Þorsteinn Bachmann. 95 mín.

Frumsýning kvikmyndarinnar Eldfjalls, í leikstjórn Rúnars Rúnarssonar, fór fram síðastliðinn fimmtudag og var margt um manninn í hátíðarsal Háskólabíós. Myndin er fyrsta mynd Rúnars í fullri lengd en hann hefur áður gefið út nokkrar stuttmyndir, þ.ám. Síðasta bæinn í dalnum, sem tilnefnd var til Óskarsverðlaunanna árið 2005. Mikil eftirvænting ríkti fyrir Eldfjalli, en hún hefur flakkað um heiminn á milli kvikmyndahátíða og hvarvetna fengið mjög góða dóma. Hún var m.a. valin í tvo flokka á kvikmyndahátíðinni í Cannes auk þess sem hún var bæði sýnd á kvikmyndahátíðinni í Toronto og í Karlovy Vary.

Myndin segir frá Hannesi (Theódór Júlíusson), eldri manni sem á yfirborðinu virðist kaldur og tilfinningasnauður. Stirt skapið hefur skaðað samband hans við börn sín og er hann fer á eftirlaun eykst skapvonskan. Hækkandi aldur Hannesar og það vonleysi sem virðist fylgja því veldur honum mikilli angurværð sem hann á erfitt með að tjá sig um við nokkurn mann. Hin hugljúfa eiginkona hans, Anna (Margrét Helga Jóhannsdóttir), gefst þó ekki upp á honum eins og börn þeirra hafa gert og umber mannfýluna í von um að það birti til í huga hans. Þegar Hannes virðist loks vera farinn að sjá að sér gerist voveiflegur atburður sem breytir tilvist hans og hlutverki. Tilvistarkreppan víkur skyndilega fyrir þeirri hryggð sem veikindi eiginkonu hans hafa í för með sér og hugur hans er nú allur hjá Önnu sem berst fyrir lífi sínu. Hannes finnur tilgang sinn í því að sjá um lamaða konu sína og sú barátta sem þau hjónakornin heyja við dauðann virðist auka lífsvilja hans.

Áhorfandinn nær mjög góðum tengslum við persónu Hannesar og það tilfinningalíf sem býr í brjósti hans. Það er líklegast bæði að þakka leikstjórnarhæfileikum Rúnars og frábærum leik Theódórs sem hefur sjaldan verið eins sannfærandi. Leikur Margrétar Helgu er ekki síðri og saman ná þau að mynda ansi áhrifamiklar senur sem standa upp úr í huga undirritaðs að mynd lokinni. Samvinna þeirra tveggja er hreint út sagt til fyrirmyndar og mynda þau klárlega eitt sterkasta par íslenskrar kvikmyndasögu en þau léku einnig hjón í mynd Friðriks Þórs Friðrikssonar, Englum alheimsins.

Kvikmyndataka er mjög góð og greinilegt að mikið er lagt í hana. Hver rammi er úthugsaður og mörg skot myndarinnar hefðu sómt sér vel sem ljósmyndir. Myndin er ekkert að flýta framvindu sinni og löng tilfinningaþrungin atriði fá að njóta sín. Sögusvið myndarinnar, persónur og atburðir eru einnig mjög raunhæfir og því auðvelt að lifa sig inn í átakanlega söguna.

Eldfjall var fyrir skemmstu valin af meðlimum Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar til að vera framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna 2011 og tel ég það fyllilega verðskuldað. Eldfjall er einstaklega falleg saga þótt harmleikur sé. Eins og Hannes komst að skyggir hversdagsleikinn oft á fegurð lífsins og ástæður til að lifa því koma oft ekki í ljós fyrr en of seint. Margtuggin tugga er ekki margtuggin að ástæðulausu; enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur.

Davíð Már Stefánsson