Ívar Jónsson
Ívar Jónsson
Eftir Ívar Jónsson: "...verða Íslendingar jafn umkomulausir og hingað til og vonleysi mun ríkja. Framtíðarsýnin er þá „comprador kapítalismi“..."

Umræðan um erlendar fjárfestingar tók hliðarspor þegar Kínverjinn Huang Nubo hugðist kaupa 300 ferkílómetra af Íslandi. Mörgum þykir þetta mikið land sem leggja á undir óljósa viðskiptahugmynd. Öðrum þykir það sjálfsagt þar sem ýmsir Evrópumenn hafa þegar nælt sér í hluta af Íslandi. Enn öðrum er nokk sama því Íslendingar hafa hvort sem er glatað sjálfstæði sínu með EES-samningnum og því sé best að þiggja það sem hreytt er í landsmenn.

Umræðan um erlenda stóriðju á Íslandi er keimlík umræðunni um landssöluna. Sumir segja að íslensk borgarastétt (atvinnurekendur og hugmyndafræðingar þeirra í háskólunum) hafi brugðist í því að skapa forsendur fyrir uppbyggingu innlendrar atvinnustarfsemi og því sé erlend stóriðja eina lausnin. Aðrir segja stóriðju óásættanlegan valkost því henni fylgi eyðilegging íslenskrar náttúru, fábreytni á vinnumarkaði og ójafnvægi í atvinnusköpun kynjanna.

Til hvers?

Umræðan um erlendar fjárfestingar eins og hún blasir við á Íslandi er ólík því sem gerist erlendis. Í Bandaríkjunum lagði stjórn Clintons áherslu á að skapa infrastrúktúr menntunar, rannsókna- og þróunarstarfsemi sem myndi hvetja erlend/alþjóðleg fyrirtæki til að staðsetja í landinu þann hluta starfsemi sinnar sem hlutfallslega mestan virðisauka skapar, s.s. þróunardeildir, hönnun, markaðsmál og yfirstjórn. Sú hugsun sem þarna liggur að baki er að leita leiða til að hámarka margföldunaráhrif í tækniþekkingu, tekjum og atvinnusköpun.

Stefna ríkja Suðaustur-Asíu hefur verið af sama toga. Suður-Kórea og Taívan hafa haft þá stefnu að erlend fyrirtæki eru skuldbundin til að tiltekinn hundraðshluti af aðfangakaupum þeirra sé keyptur af innlendum aðilum. Með þessari stefnu dafnar innlend þekkingarsköpun, en þessi lönd hafa auk þess bundið erlenda fjárfestingu við atvinnugreinar sem talið er að verði hávaxtargreinar í framtíðinni.

Lærum af Kínverjum

Kínverjar hafa fylgt í fótspor nágranna sinna í Suðaustur-Asíu. Nýsköpunarstefna þeirra gengur út á að fjárfestingar erlendra fyrirtækja séu bundnar við þátttöku innlendra fyrirtækja í rannsóknar- og þróunarstarfsemi sem leiðir til þess að tækniþekking eflist, tækninýjungar skapist og kínverskum einkaleyfum eða patentum fjölgi. Um þetta er kínverska ofurhraðalestin gott dæmi og samstarf Kínverja við japanska fyrirtækið Kawasaki.

Auk markvissrar nýsköpunarstefnu hafa Kínverjar þá stefnu gagnvart erlendum fjárfestingum að land þeirra er alls ekki til sölu, heldur er það þjóðareign. Afnot af landi er aðeins í formi landleigu.

Framsækna stefnu þurfum við

Kjarninn í framsækinni stefnu um erlenda fjárfestingu er að 1) greina hávaxtargreinar framtíðarinnar sem skila hlutfallslega miklum virðisauka; 2) setja skilyrði um að erlend fjárfesting efli innlenda tækniþekkingu og nýsköpunarstarfsemi; 3) greina hvers konar starfsemi hefur mest margföldunaráhrif gagnvart atvinnusköpun; 4) greina hvers konar fyrirtæki skapa mesta fjölbreytni á vinnumarkaði og lágmarka ójafnvægi í atvinnutækifærum kynjanna.

Íslenskt vonleysi

Á meðan stefnan er að fá inn í landið erlenda fjárfestingu hvað sem það kostar verða Íslendingar jafn umkomulausir og hingað til og vonleysi mun ríkja. Framtíðarsýnin er þá „comprador kapítalismi“, þ.e. landsmenn verða leiguþý erlendra fjár- og landeigenda eða hinnar nýju fjölþjóðlegu auðvaldsstéttar. Minnumst orða Jóns Þorlákssonar í Morgunblaðinu 1929 þegar hann lagði áherslu á „...eign hjer búsettra manna og fjelaga, svo að allur arðurinn fellur til landsmanna. Þetta er stefnumark sem ekki má hvika frá“.

Höfundur er sviðsstjóri.