Deilur Umræðan um stjórnun fiskveiða hefur að nýju tekið flugið.
Deilur Umræðan um stjórnun fiskveiða hefur að nýju tekið flugið. — Morgunblaðið/Rax
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
FRÉTTASKÝRING Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra kom að gerð stjórnarfrumvarpsins um heildarlög um stjórn fiskveiða. Auk hennar komu Jón Bjarnason, sjávarútvegsráðherra, Steingrímur J.

FRÉTTASKÝRING

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra kom að gerð stjórnarfrumvarpsins um heildarlög um stjórn fiskveiða. Auk hennar komu Jón Bjarnason, sjávarútvegsráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, og Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra, sem gegndi á sínum tíma formennsku í sáttanefndinni svokölluðu, að gerð frumvarpsins. Athygli vakti athygli í Kastljósi Sjónvarpsins í fyrrakvöld þegar forsætisráðherra sagði að frumvarpið hefði verið gallað að mörgu leyti.

Þingmennirnir Ólína Þorvarðardóttir, Helgi Hjörvar og Róbert Marshall frá Samfylkingu og þau Björn Valur Gíslason og Lilja Rafney Magnúsdóttir frá VG komu einnig að vinnu við undirbúning frumvarpsins ásamt Atla Gíslasyni áður en hann sagði skilið við þingflokk VG.

Margar athugasemdir hafa borist meðal annars frá hagsmunasamtökum, sveitarfélögum, verkalýðsfélögum, fjármálastofnunum, Fiskistofu og fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytis. Þá kom hörð gagnrýni á frumvarpið fram í skýrslu hagfræðingahóps, sem ráðherra fékk til að meta hagræn áhrif frumvarpsins, m.a. um framsal og veðsetningu.

Fölsk eignabóla

Í bréfi til ráðherra svara Lilja Rafney Magnúsdóttir og Ólína Þorvarðardóttir, formaður og varaformaður sjávarútvegsnefndar, ýmsum athugasemdum sem fram hafa komið um frumvarpið og segir m.a. um skýrslu sérfræðinganna: „Hér skal til þess litið að verðmyndun á aflaheimildum undanfarin ár hefur verið að byggjast upp á innbyrðis viðskiptum greinarinnar. Í þeim viðskiptum hefur verð skrúfast upp meira en raunveruleg innistæða er fyrir. Þetta hefur leitt af sér óeðlilega hátt verðmæti aflaheimilda („froðu“) í efnahagsreikningum fyrirtækja sem sýnt hafa betri eignastöðu að nafninu til og leitt til yfirveðsetningar í greininni. Þar með hefur myndast fölsk eignabóla innan greinarinnar. Þennan raunveruleika verða bankar sem aðrir að horfast í augu við og taka afleiðingunum af honum.“

Þá leggja þær til að skilið verði milli veiða og vinnslu þannig að rekstrarumhverfi sjávarútvegsins verði gagnsærra en nú er. Hagfræðistofnun HÍ skilaði sjávarútvegsráðherra skýrslu í vor um kosti þess og galla að aðskilja fjárhagslega fiskveiðar og vinnslu sjávarútvegsfyrirtækja. Þar segir m.a. í niðurstöðukafla: „Útgerðir sem ekki hafa örugga kaupendur að vöru sinni eru ólíklegri til að ráðast í miklar fjárfestingar. Slíkt hið sama gildir um fiskvinnslur sem ekki hafa öruggan aðgang að hráefni. Samþætt fyrirtæki er því líklegra til að ráðast í nauðsynlegar fjárfestingar.“

Pólitísk óvissa

Ekki er ljóst hvað næst gerist í þessu stóra deilumáli og hæpið að útspil síðustu daga leiði til lausna. Í ágripi af niðurstöðum sérfræðingaskýrslunnar segir: „Að síðustu vill sérfræðihópurinn benda á þau neikvæðu áhrif sem ósætti og deilur um fyrirkomulag fiskveiðistjórnunar hafa á rekstrarskilyrði útgerðarinnar, áhuga á fjárfestingum í greininni og nýliðun. Útgerð er áhættusöm atvinnugrein. Óvissa um þróun stofnstærða, skilyrði til veiða og ástand á mörkuðum er mikil. Ofan á þessa óvissu bætist síðan pólitísk óvissa um framtíð fiskveiðistjórnunar.

Mikilvægt er að þær breytingar sem nú standa fyrir dyrum séu vandaðar í hvívetna svo tryggja megi sjávarútveginum stöðuga umgjörð sem er forsenda hagkvæmrar langtímanýtingar auðlinda sjávar.“

Gagnrýni
» Alþýðusamband Íslands telur frumvarpið í núverandi mynd svo gallað að það leggst gegn samþykkt þess.
» Samtök fiskvinnslustöðva, Samtök atvinnulífsins og Landssamband íslenskra útvegsmanna lýsa sig í öllum atriðum ósaamála efni frumvarpsins og leggja til að það nái ekki fram að ganga.
» Er það mat Landsbankans að endurskoða þurfi frumvarpið frá grunni þar sem tillögur þess, ef samþykktar verða, muni fela í sér skerðingu á hagkvæmni í sjávarútvegi og rýrari lífskjör í landinu. Jafnframt lýsir Landsbankinn yfir sérstökum áhyggjum af þeim áhrifum sem samþykki frumvarpsins hefði á fjárhafgsstöðu bankans og þar með á fjárhagslegar afleiðingar fyrir íslenska ríkið, stærsta hluthafa bankans.
» Eins og að framan er rakið fær frumvarpið mjög neikvæða umsögn hjá Sjómannasambandi Íslands og er það ekki samið í sátt eða samráði við sambandið. Því er mælst til þess að frumvarpið verði ekki að lögum.