Sérsveitin Lögreglan er að kljást við harðsvíraða glæpamenn í bíómyndinni Borgríki og þarf oft að notast við vafasamar aðferðir.
Sérsveitin Lögreglan er að kljást við harðsvíraða glæpamenn í bíómyndinni Borgríki og þarf oft að notast við vafasamar aðferðir.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Börkur Gunnarsson borkur@mbl.is Bíómyndin Borgríki sem frumsýnd var í síðustu viku er óvenju ofbeldisfull bíómynd af íslenskri mynd að vera.

Börkur Gunnarsson

borkur@mbl.is

Bíómyndin Borgríki sem frumsýnd var í síðustu viku er óvenju ofbeldisfull bíómynd af íslenskri mynd að vera. Ofbeldisatriði myndarinnar eru mjög vel heppnuð og var lögreglumaður og bardagaíþróttakappi, Jón Viðar Arnþórsson, fenginn til að stýra þeim atriðum. Hann er formaður Mjölnis og er einn stofnandi þessa bardagaíþróttafélags. En hann hefur verið í bardagaíþróttum frá því hann var 13 ára. Byrjaði í karate og svo prófaði hann kick-box og box og er núna í blönduðum bardagaíþróttum. Hann er einnig barnsfaðir og kærasti Ágústu Evu Erlendsdóttur sem leikur eitt aðalhlutverkanna í myndinni.

Aðspurður hvernig það hafi komið til að hann féll fyrir bardagaíþróttum segir hann það hafa gerst þegar hann var 12 ára og sá myndina Mortal Combat. „Þegar ég sá hana þá varð ekki aftur snúið,“ segir hann og hlær. „Ég féll algjörlega fyrir henni. Ég horfði svo oft á hana að ég kunni orðið handritið utan að. En ég gæti ekki horft á hana núna. Ég man að hún fékk ekki nema eina eða eina og hálfa stjörnu hjá gagnrýnendum og ég átti ekki til orð. Þessir gagnrýnendur skilja ekki neitt, hugsaði ég,“ segir hann og hlær.

Atriðin raunveruleg

Aðspurður hvort hann hafi unnið við eitthvað svona áður segist hann hafa stýrt stönt-atriðum í auglýsingum og í bíómyndinni Mýrinni, þegar ráðist var á Erlend í skýrslutöku. „Ingvar E. Sigurðsson er móðurbróðir minn og fékk mig í að aðstoða við það atriði,“ segir Jón Viðar. „Ég aðstoðaði líka við svipuð atriði í bíómyndinni Svartur á leik sem verður frumsýnd á næsta ári. En ég hef aldrei verið með svona stór atriði einsog í Borgríki þótt maður fari mjög svipað að. Fyrst er þetta kóreografað, svo er þetta æft aftur og aftur á dýnum í Mjölni. Síðan er farið á settið og þetta gert fyrir framan vélarnar. Það er mikið af smáatriðum sem þarf að passa uppá. Hafa þetta sem raunverulegast en líka að passa uppá að enginn meiðist. Þetta er oft öðruvísi eftir því hvort þetta eru menn sem eru vanir að slást eða hvort þetta eru leikarar sem eru vanir að leika en ekki slást. Við vorum átta klukkutíma að taka eitt atriðið í Borgríki, þótt það sé ekki nema í fimmtán sekúndur í myndinni. Það var þegar ráðist var á Andreu og Björn Thors. En þetta voru svona fjögur, fimm virkileg ofbeldisatriði sem við þurftum að einbeita okkur að. Við vildum hafa þetta sem raunverulegast. Ekki einhver kung fu árásaratriði. Ekki um einhverja sem taka fullt af höggum og láta sem ekkert sé. Menn finna fyrir höggunum í myndinni rétt einsog það er í raunveruleikanum. Ég vann líka með þeim í ráðgjöf varðandi handritið.

Við vildum ekki að lögreglumenn myndu hrista hausinn þegar þeir horfðu á myndina. Þetta eru mjög trúverðug slagsmál. Raunveruleikinn var settur í forgrunn. Allt er mjög raunverulegt; hvernig lögreglan fer í málin, hvernig er á vettvangi, hvernig skýrslutakan er, hvernig prósessinn er. Hvað löggan segir og þessháttar þegar þeir eru að hafa afskipti af fólki. En það er náttúrulega ekki raunverulegt þegar löggan er teiknuð upp sem svona spillt, þannig er það ekki. En það gerir þetta skemmtilegra í handritinu og í myndinni.

Það var Mjölnis-sýning um helgina og viðtökurnar hjá þeim voru rosalega góðar. Það var virkilega gaman að fara með hópnum á myndina. Hún vakti mikla lukku. Svo verður boðssýning fyrir lögregluna í kvöld, mánudagskvöld. Ég fer líka með þeim og hlakka til að sjá viðbrögðin,“ segir Jón Viðar.

SPENNUMYND

Eiturlyfin

Í bíómyndinni Borgríki er fylgst með fjórum ólíkum einstaklingum yfir eins mánaðar tímabil í Reykjavík. Einstaklingarnir eru annaðhvort lögreglumenn eða glæpamenn í mismunandi fylkingum glæpaheimsins. Erlend samtök harðjaxla af Balkanskaganum ákveða að taka yfir eiturlyfjamarkaðinn á Íslandi og beita ofbeldi til þess.