KVIKMYNDIR Hvað leynist þarna uppi í skýjunum? Skýjasögur Fjölskyldumyndin Skýjahöllin eftir Þorstein Jónsson er nú í hljóðvinnslu í Bíóhljóði jafnframt því sem unnið er við teiknimyndagerð vegna hennar í Þýskalandi.

KVIKMYNDIR Hvað leynist þarna uppi í skýjunum? Skýjasögur Fjölskyldumyndin Skýjahöllin eftir Þorstein Jónsson er nú í hljóðvinnslu í Bíóhljóði jafnframt því sem unnið er við teiknimyndagerð vegna hennar í Þýskalandi. Hún mun væntanlega verða sýnd í kvikmyndahúsum í Danmörku með dönsku tali og í Þýskalandi með þýsku tali. Sagði Þorsteinn, sem nýkominn er frá Cannes, að þessa dagana væri unnið í dreifingarmálum og hefðu allmargar sjónvarpstöðvar í Evrópu sýnt mikinn áhuga og bíða eftir að sjá hana fullgerða. Myndin verður fullkláruð í lok júní en hún verður frumsýnd í Sambíóunum nk. september.

g held það sé komið aftur í tísku að bjóða uppá myndir um venjulegt fólk og sögur úr daglega lífinu," sagði Þorsteinn í samtali, og það er á þann markað sem myndinni er stefnt. Hún er fyrir alla þá sem vilja ekki ofbeldi en hafa áhuga á dramatískri sögu." Hann sagði að hún væri ekki gerð sérstaklega sem barnamynd, hún segði alvörugefna sögu sem væri sviðsett ekkert síður fyrir fullorðna en börn. "Það eiga allir að geta notið hennar."

Skýjahöllin var tekin á 11 vikum á Ólafsfirði, í Langadal, á Blönduósi, í Bröttubrekku, við Hreðavatn en að mestu leyti í Reykjavík og nágrenni höfuðborgarinnar. Um 200 manns koma fram í henni að sögn Þorsteins en hún mun kosta 105 milljónir. Hún er gerð í samvinnu þýskra (Trans Film), danskra (Per Holst film) og íslenskra (Kvikmynd) aðila og styrkt af Norræna kvikmyndasjóðnum, Evrópusjóðnum, Kvikmyndasjóði Íslands, dönsku kvikmyndastofnuninni og Berlínarsjóðnum í Þýskalandi.

Teiknimyndirnar, sem unnar eru í Þýskalandi, koma inní myndina á þremur stöðum. Þeir sem lesið hafa söguna um Emil og Skunda eftir Guðmund Ólafsson, sem myndin byggist á, þekkja skýjasögurnar en þær urðu til í fjöruferðum fjölskyldu Emils þar sem spunnar voru sögur af því sem gerðist í skýjunum. Þaðan er nafn myndarinnar, Skýjahöllin, fengið. Skýjasögurnar eru þrjár og verða allar teiknaðar og skotið inní myndina þar sem þær koma fyrir.

Emil, leikinn af Kára Gunnarssyni, er átta ára strákur sem langar að eignast hvolp sem kemur í stað hunds sem afi missti og fær leyfi föður síns til þess en þegar til kemur brýtur hann loforðið - hann vill setja alla peninga í nýja húsið þeirra - en Emil kaupir samt hvolpinn og strýkur með hann að heiman.

Þorsteinn benti á tvennt sem heyrði til nýbreytni í kvikmyndagerðinni. Annars vegar beittu þeir svokallaðriblue screen" eða bláskjártækni sem gerði Emil kleift að sýnast hjóla uppi í skýjunum. Þá er hann myndaður á hjóli fyrir framan sérstakt blátt tjald og geta kvikmyndagerðarmenn sett inn hvaða bakgrunn sem er. Sagði Þorsteinn þessa tækni ekki hafa verið notaða áður í íslenskri bíómynd en hún er vel þekkt úr sjónvarpinu sérstaklega. Í annan stað héldu Þorsteinn og menn hans n.k. prufusýningar á myndinni grófklipptri fyrir hópa barna sem síðan gerðu athugasemdir. Það hjálpaði okkur að losna við veika punkta," sagði Þorsteinn.

Skrifað í skýin; svipmyndir úr Skýjahöllinni.