Dóra Tómasdóttir, f. Dora Green, fæddist í Walkden, Greater Manchestser, 28. maí 1928. Hún lést á líknardeild Landspítalans á Landakoti 3. desember 2011. Foreldrar hennar voru Thomas Green, starfsmaður hjá kolanámufyrirtæki, f. 1886, d. 1943, og Sarah Ann Green hjúkrunarfræðingur, f. 1895 í Dowles, Wales og d. 1970. Bjuggu þau lengst af á 25 Memorial Road í Walkden. Nokkru eftir fráfall manns síns fluttist Sarah Ann að 111 Whittle Street, Walkden. Þau eignuðust fjórar dætur, Phyllis, f. 1922, Alice, f. 1924, Joan, f. 1926, og Dora, sem var yngst. Phyllis lést aðeins 29 ára að aldri. Alice og Wilf eignuðust eina dóttur, Jean, sem giftist Geoffrey Butcher og eignuðust þau þrjú börn, Julie, Robert og Tracey. Dóttir Tracey er Amber, f. 2000, og sonurinn Joel, f. 2011. Sambýlismaður hennar er Jamie Hughes. Síðari maður Jean er Michael Shaw heyrnarsérfræðingur og búa þau nú í Blackpool á vesturströnd Englands. Joan giftist Edgar Whitcombe og bjuggu þau í Ottery St. Mary, nálægt Exeter í Devonshire. Þau eru bæði látin. Þeirra börn voru Barbara og Peter. Dóra giftist Sölva Eysteinssyni kennara árið 1954 og eignuðust þau tvo syni, Davíð, f. 10. mars 1956, og Tómas, f. 22. apríl 1962. Davíð giftist Katrínu Þórisdóttur og eignuðust þau þrjú börn, Rakel, f. 2.8. 1982, Sölva, f. 22.10. 1984, og Söru, f. 19.5. 1993. Rakel býr með Hrafni Harðarsyni og eiga þau eina dóttur, María Dóru, f. 17.8. 2009. Davíð og Katrín skildu og býr hann nú með Lindu Björk Ólafsdóttur lögreglukonu. Útför Dóru fer fram frá Neskirkju í dag, 13. desember 2011, og hefst athöfnin kl. 15.

Að þurfa að  kveðja ömmu Dóru er eitthvað það erfiðasta sem ég hef gert á lífsleiðinni.  Fyrir mér er  það mjög erfitt að skrifa stutta grein um ömmu mína þar sem allt sem ég hef um hana að segja gæti fyllt heila bók, jafnvel  bókaflokk!
Amma mín var heldur engin venjuleg amma. Hún var einstök á allan hátt. Hún var ekki bara sú jákvæðasta og skemmtilegasta kona sem ég hef kynnst,  heldur var hjarta hennar svo ótrúlega tært og fallegt og vildi hún öllum vel sama hver það var. Ég geri mér svo mikla grein fyrir því núna þegar ég horfi til baka hversu marga amma virkilega snerti með góðvild sinni og gleði. Amma var ekki bara gullfalleg að innan heldur var hún einnig stórglæsileg að utan og geislaði af henni fegurðin. Ég þekki engan annan en mig sjálfa sem hefur talað jafn oft og mikið um ömmu sína  við alla í kringum sig og það er kannski ástæðan fyrir því að svo margir vinir mínir þóttust þekkja ömmu á einn eða annan hátt þrátt fyrir að hafa kannski aldrei hitt hana. Ég hafði alltaf svo margar skemmtilegar, fyndnar og fallegar sögur að segja af ömmu.
Amma leit alltaf á jákvæðu hliðarnar á öllu og kvartaði aldrei undan neinu. Hún var hetjan mín og ég mun alltaf líta upp til hennar svo lengi sem ég lifi. Sama hversu kvalin hún var í sínum veikburða líkama síðasta árið kvartaði hún aldrei og tók alltaf á móti okkur fjölskyldunni með brosi á vör og skemmtilegum sögum af skrýtna fólkinu í bingó, tilraunum hennar við að þrífa svalagluggana við misjafnar undirtektir nágrannanna eða prófraun hennar í að gefa fuglunum við Olís eitthvað gott í gogginn.
Amma á mikinn heiður af þeirri manneskju sem ég er í dag en þar sem ég ólst upp með annan fótinn heima í notalegheitunum hjá ömmu og afa á Kvisthaganum kenndi hún mér svo ótalmargt sem ég  mun vera henni ævinlega þakklát fyrir.  Kvisthaginn var mitt annað heimili og barnæskuminningar mínar eru af stórum hluta komnar þaðan. Ég mun aldrei gleyma öllum þeim stundum  sem ég kom þreytt á Kvisthagann eftir langan skóladag  þar sem amma beið mín tilbúin með eitthvert góðgæti og badmintonspaða á ganginum - það var aldrei heimsókn án þess að taka smá game of tennis.
Hún var snillingur í að láta manni líða vel.   Eitt það mikilvægasta sem amma kenndi mér og það sem hún sagði aldrei of oft við mig er að með því að koma vel fram við allt og alla og vera alltaf reiðubúinn að hjálpa öðrum myndi maður fá það til baka seinna meir. Amma lifði samkvæmt þessari gullnu reglu alla ævi og það skilaði sér augljóslega til hennar aftur.  Hún var elskuð og dáð af öllum sem í kringum hana voru og það var ekki hægt að líka illa við hana.  Til er gott dæmi um góðmennsku ömmu og er það mér mjög minnisstætt. Fyrir fáeinum árum síðan var það hefð hjá henni að fara í Kringluna og rölta um, kíkja í Tigerbúðina og fá sér eitthvað gott í gogginn. Í Kringlunni hitti amma oft konu sem ráfaði um með kerruna sína og átti víst voða erfitt. Í hvert sinn sem ég kom til ömmu á þessum tíma  talaði hún um þessa tilteknu konu og fann voða til með henni. Með tímanum urðu amma og konan málkunnugar og endaði á því að um ein jólin laumaði amma peningaumslagi til hennar. Þetta er bara eitt dæmi af mörgum sem er algjörlega lýsandi fyrir ömmu. Hún lifði fyrir það að hitta fólk og var alltaf hrókur alls fagnaðar á öllum samkomum. Hún vildi hafa gleðina ríkjandi í kringum sig og ef það var ekki happdrætti, söngvarar eða önnur skemmtiatriði var partíið algjörlega vonlaust. Í mörg ár var amma svo ómissandi þáttur í  afmælum mínum. Ég hélt ár eftir ár upp á afmæli fyrir 20 hressar stelpur sem voru spenntar að koma og sjá hvað amma myndi taka upp á í það skiptið. Amma var alltaf mætt fyrst með blöðrur, gjafir og fínerí og búin að undirbúa leiki, happdrætti eða raffle eins og hún kallaði það.  Enn þann dag í dag minnast stelpurnar á þessi afmæli og ekki síst ömmu sem þær lýstu sem dúllunni sem var alltaf syngjandi, hlæjandi og glamrandi á píanóið.
Ég mun sakna þess að geta ekki farið á Vatnsstíginn þar sem amma tekur á móti mér syngjandi  og þyljandi upp allt sem hún hefur í boði fyrir mig; Oh, its just in the lucky drawer , myndi hún segja, með Kitkat, súkkulaðirúsínur, súkkulaðikex, bland í poka í ísskápnum, kleinuhringi, Nóakropp, gingerbread, popp, kók.... þetta er amma.  Svo myndum við setjast niður í hægindastólana okkar og horfa út á hafið sem henni þótti svo vænt um  og ræða saman um alla heima og geima. Við amma vorum svo samstíga í skoðunum og hún dæmdi mig aldrei, sama hvað það var. Blood and stomach pills myndi hún svo segja þegar ég segði henni frá einhverju sem henni líkaði ekki alveg við, Jesus Mary, Mother of God!.  Hún vildi bara allt það besta fyrir okkur systkinin.  Það var virkilega erfitt að horfa upp á ömmu berjast við sjúkdóminn sem leiddi hana til dauða, sérstaklega undir það síðasta. Það tók á að horfa á lúinn líkama hennar taka völdin en  það sem hana langaði mest af öllu var að geta gert það sem veitti henni og öðrum gleði.  Ég trúi því að amma mín sé komin á betri stað þar sem henni líður vel í hraustum líkama.  Þó það verði virkilega tómlegt án ömmu Dóru, þá trúi ég því líka að hún sé með okkur öllum stundum og vaki yfir okkur um ókomna tíð.
Elsku amma,  ég  sakna þín svo óstjórnanlega mikið og mun gera það svo lengi sem ég lifi. Þú munt alltaf eiga stóran hluta af hjarta mínu og ég tel mig vera heppnustu stelpu í heimi fyrir að hafa fengið að kynnast þér. I love you granny.

Sara.