Ragnar Leifur Þrúðmarsson fæddist í Miðfelli í Hornafirði 31. mars 1953. Hann lést í Reykjavík 9. desember 2011.

Foreldrar hans eru Hólmfríður Leifsdóttir, f. 7. mars 1930, og Þrúðmar Sigurðsson, f. 24. apríl 1927. Systkini Ragnars Leifs eru 1) drengur, f. 6. október 1951, d. 5. desember sama ár, 2) Þrúðmar Sigurður, f. 14. desember 1954, kvæntur Ingibjörgu Ævarr Steinsdóttur, f. 2. apríl 1953, 3) Jóhanna Lilja, f. 9. maí 1959, gift Sigurbjarti Pálssyni, f. 27. mars 1960, 4) Rúnar Þrúðmarsson, f. 13. maí 1967, í sambúð með Ernu Hlín Þórðardóttur, f. 11. júlí 1969.

Ragnar Leifur kvæntist 20. febrúar 1975 Sigurbjörgu Snæbjörnsdóttur frá Nolli í Grýtubakkahreppi, f. 16. apríl 1955. Þau slitu samvistir. Þeirra börn eru: a) Snæbjörn Sölvi, f. 4. júní 1976, b) Þrúðmar Kári, f. 16. desember 1981, sambýliskona hans er Waraporn Chanse, f. 2. mars 1974, c) Hildur Björg, f. 15. nóvember 1988, unnusti hennar er Heiðar Ingi Eggertsson, f. 28. júlí 1988.

Frá árinu 1998 hefur Ragnar Leifur átt Gunnþóru Gunnarsdóttur, f. 11. nóvember 1948, að unnustu.

Ragnar Leifur stundaði nám við héraðsskólann að Reykholti í Borgarfirði veturna 1970-1972. Haustið 1972 hélt hann til Danmerkur í lýðháskóla og eftir það tók við starf á dönskum búgarði um tíma. Hann byrjaði ungur að vinna á skurðgröfu hjá Pétri Hauki Jónssyni í Akurnesi og síðar hjá Ræktunarsambandi Austur-Skaftafellssýslu. Ragnar Leifur lærði rafvirkjun við Iðnskólann í Reykjavík og hjá meistara sínum Birni Gíslasyni á Höfn, sem hann starfaði einnig hjá eftir námið. Síðar vann hann hjá RARIK á Höfn, meðal annars við línulagnir og einnig hjá Bjarna Þór Jakobssyni rafvirkjameistara. Hann rak gröfuþjónustu á tímabili, tók ófáa húsgrunna og snyrti lóðir. Einnig tók hann margar grafir í kirkjugörðum Hornafjarðar. Þá var hann sjómaður um tíma, byrjaði á bátum hjá öðrum en smíðaði sér svo sinn eigin bát og var aflasæll. Á árunum 2003 til 2010 starfaði Ragnar Leifur við virkjanaframkvæmdir á Austurlandi og tiltekt eftir þær, fyrstu árin hjá fyrirtækinu Arnarfelli, síðan Hraunaveitu, Ístaki og að lokum Skútabergi. Síðasta ár hefur hann stjórnað steypustöð hjá Skútabergi á Akureyri.

Útför Ragnars Leifs verður gerð frá Hoffellskirkju í dag, 17. desember 2011, og hefst athöfnin klukkan 14.

Elsku sonur.

Það kertaljós sem lifir jólum á

er lítið tákn um æðstu hugsjón manns,

um frið á jörðu, frið sem allir þrá

og flestir týna' á lífsins kólgusjá

- en gleym ei brosi barns við kertaljós,

sem boðar ríki Guðs á helgri stund,

það gefur hverjum fagra friðarrós

sem fagnar því og veitir ástarhrós,

og bæn þess er að alla dreymi rótt

í örmum Guðs á helgri jólanótt.

(Sigurður H. Björnsson)

Ástarkveðjur,

mamma og pabbi.

Elsku Ragnar.

Þá er okkar ævintýri lokið hérna megin. Mikið á ég eftir að sakna þín. Enginn átti von á að þú færir svona fljótt frá okkur, ekki heldur þú sjálfur því þó alvaran hefði barið að dyrum var baráttuandinn enn til staðar, hugrekkið og krafturinn. Sagðir alltaf „allt gott“ þegar þú varst spurður og mörg gullkornin hafa flogið frá þér síðustu vikur sem léttu lund okkar sem vorum í kring um þig. Það sem við huggum okkur við núna er að þú fékkst að fara í svefni og þurftir ekki að þjást heldur lifðir með reisn til hinstu stundar. Það var þér samboðið.

Þótt mikill losarabragur hafi verið á okkar sambúð þá gilti ekki hið sama um okkar samband. Það var alla tíð heilt, fallegt og gott og þegar við vorum saman þá var alltaf gaman. Svo notuðum við símalínurnar þess á milli. (Æ, þetta heita kannski ekki línur lengur en þú veist hvað ég er lítil tæknimanneskja, öfugt við þig.)

Þú varst snillingur í öllu sem þú gerðir og svo frjór í hugsun að þú gast sífellt komið á óvart. Ég veit ekki um margar sem hafa fengið sextíu rauðar rósir sendar á sextugsafmælinu sínu og svo stóra myndavél í ofanálag. Þú varst höfðingi og áttir ekki langt að sækja það. Ávallt voru veislur þegar ég kom til þín, hvort sem boðið var upp á þær heima í Hoffelli eða á björtum sumarnóttum inni í Hoffellsdal eða Geitafelli. Sú síðasta er eftirminnileg, miðnætursteik í Brekkugötunni á Akureyri í byrjun október þar sem kertaljósin sindruðu um allt.

Þú tókst líka gjarnan matargerðina í þínar hendur hér á Otrateignum og á gamlársdag settir þú upp sannkallað tilraunaeldhús.

Handarverkin þín minna á þig enda var verklagni þín einstök og alltaf varstu að bæta allt í kringum þig. Ég man þegar við skruppum til Köben um árið og gistum fáeinar nætur á gistiheimili sem rekið var af heilsulítilli konu. Þegar við yfirgáfum það varstu búinn að gera við bæði krana og snerla. Í Svíþjóðarferðinni í haust varstu heldur ekki í rónni fyrr en þú varst búinn að laga öll ljós í íbúðinni hjá Gunnari Steini og Hönnu Rósu.

Þú vannst mikið og hlífðir sjálfum þér í engu. En hvort sem þú sigldir um úfinn sæ, stjórnaðir vinnuvél við stórhættulegar aðstæður eða varst á ferð í vitlausu veðri og ófærð þá varstu svo skarpvitur og laginn að þér tókst ávallt að sigrast á erfiðleikunum. Svo lifðir þú nú ekki beint heilsusamlegu lífi en tókst ábendingum um það með umburðarlyndi og fórst svo auðvitað ekkert eftir þeim.

Vinur minn. Það er með miklum trega sem ég hripa niður þessi fátæklegu orð og þau eiga ekkert skylt við þau eftirmæli sem þú ættir skilið. Tilgangur þeirra er bara að þakka þér fyrir allt það sem þú varst mér og mínum börnum. Þú lifir áfram í hugum okkar og þú lifir líka áfram í börnunum þínum.

Nú ertu kominn heim og færð legstað í þeirri mold sem þér er kærust, undir hinu tignarlega Hoffellsfjalli.

Ég bið Guð að blessa þig á nýjum brautum. Ég bið hann líka að blessa foreldra þína, börn og systkini og hjálpa þeim að takast á við þessa þungu raun.

Þú verður alltaf elskaður.

Þín,

Gunnþóra.

Minn elskulegi faðir. Við áttum góðar stundir saman áður en þú kvaddir okkur. Ég mun ávallt sakna þín og minnast þín. Ég er líka stoltur af verkum þínum og dugnaði. Þú gerðir hlutina á þinn hátt, varst hugkvæmur og mikill smiður og það var fátt sem hindraði þig, þú áttir svo auðvelt með að búa til hluti og laga.

Ég man alltaf þegar við vorum að hakka kjöt heima í Hoffelli og hakkavélin okkar bilaði. Það leið ekki á löngu þar til þú fannst gamla handsnúna hakkavél í geymslunni og sagðir brosandi við mömmu að nú þyrftum við að nota hana. Það leit ekki vel út að þurfa að handhakka allt þetta kjöt sem við áttum eftir en þú hafðir nú hugsað þér annað. Skrappst út í smá stund og þegar þú komst aftur breyttir þú handsnúnu hakkavélinni í rafmagnsknúna á 10 mínútum. Þegar þú settir gripinn á borðið heima gátum við ekki annað en hlegið, þetta var borvélin þín tengd í hakkavélina nema nú var engin sveif til að snúa. Þú stakkst borvélinni í samband og við byrjuðum að hakka kjötið sem gekk svo vel að við létum aldrei laga hina hakkavélina okkar og notuðum bara borvélina í staðinn.

Árin með þér voru mér dýrmæt og ömurlegt að missa þig svo fljótt en þú munt alltaf lifa í hjarta mínu sem ástkær og hugdjarfur faðir. Ég er stoltur af þér og lít upp til þín.

Hugur minn er hjá þér

hvert sem ég fer

þar til líf mitt slokknar

þá sameinumst við á ný.

Þinn sonur,

Þrúðmar Kári Ragnarsson.

Elsku pabbi minn. Það er erfitt að sjá þig fara svona skyndilega frá okkur. Þín verður sárt saknað. Þessar síðustu vikur sem við fengum saman voru ómetanlegar og fannst mér alveg ótrúlegt hversu sterkur þú varst í gegnum þetta allt saman. Þú varst svo duglegur að hressa okkur systkinin upp og aðra sem komu og heimsóttu þig og var því ágætlega mikið brosað og hlegið.

Við áttum nú okkar hefð þegar þú komst í bæinn. Við fórum í Kringluna og í Tiger að leita að gleraugum, Dressman ef þig vantaði sokka og stöku sinnum í Hagkaup ef þig vantaði buxur. Síðan enduðum við alltaf á Bláhorninu og fengum okkur eitthvað gott að drekka. Ég mun nú fara reglulega og setjast í básinn okkar.

Eitt sem situr fast í minni er afmælið mitt, líklega árið 2000. Þú varst að tengja rafmagnið í verslunarmiðstöðinni Miðbæ á Hornafirði og vannst sólarhringum saman enda átti að opna seinna þennan dag. Ég hoppaði yfir götuna og hljóp til þín kl. 6 að morgni, svo spennt að hitta þig. Þú stóðst uppi í stiga og varst að hengja upp rafmagn. Ég stóð og horfði upp til þín og heilsaði þér og þú brostir til mín á móti. Ég beið eftir að þú áttaðir þig á því að ég ætti afmæli, en það bara kom aldrei og ég labbaði sár heim. Auðvitað mundir þú svo eftir því aðeins seinna. Á næsta afmæli gleymdir þú mér sko ekki, þú sendir mér gjöf og þetta æðislega afsökunarbréf um að þú hafir alveg óvart gleymt mér þennan morgun og það myndi sko aldrei koma fyrir aftur, sem það gerði ekki.

Þú varst alveg æðislegur í alla staði og ég hlakka til að hitta þig aftur einn daginn. Þú munt ávallt verða í hjarta mínu og ég hef dúkkuhundinn Ragnar sem þú gafst mér í jólagjöf fyrir ekki svo löngu síðan til að líta eftir mér á næturnar.

Ég elska þig, pabbi minn.

Þín,

Hildur.

Elsku Raggi.

Það er erfitt að reyna að sætta sig við og horfast í augu við að sá sem öllu ræður hefur kallað þig til sín til þeirra starfa sem hann hefur ekki treyst neinum öðrum fyrir. Vitum að amma, afi og bróðir hafa tekið vel á móti þér og umvafið þig ást og hlýju, en eftir sitja ástvinir þínir og reyna að skilja órannsakanlega vegi almættisins. Það eru margar minningarnar sem koma upp í hugann síðustu daga og vikur, en þær geymum við og varðveitum, hvert fyrir sig.

Í vanmætti þeim sem við finnum svo vel fyrir koma þessar línur upp í hugann, sem einhvern tíma urðu á vegi okkar og festust í minni.

Nú okkar bestu hjartans þakkir hljóttu

þig herrann Jesús geymi dag sem nóttu.

Hans blessunar þér biðjum við í hljóði

vor bróðir góði.

Hve dýrmæt orð og indæl slík er vissa.

Þeim öllum, vin, er burt í fjarlægð missa.

Þá söknuð hjartna sigrar trúar kraftur.

Við sjáumst aftur.

(Höf. ók.)

Elsku Sölvi, Kári, Pon, Hildur, Heiðar, Gunnþóra mín og börnin þín, elsku mamma, pabbi og systkini, missir okkar er mikill og eru orðin ein vanmegnug á slíkri stundu. Þið eruð í huga okkar og bænum. Megi ljós minninganna fylla huga okkar, leiða og styrkja, minnug þess, að minningin lifir, hana tekur enginn frá ykkur og okkur öllum.

Góða nótt kæri bróðir og mágur.

Þrúðmar (Dúddi) og Ingibjörg.

Það er búið að vera kalt undanfarna daga. Eftir nóvember sem lengi vel leit út fyrir að slá myndi met í hita, kólnaði snögglega og vetur konungur herti tökin. Það var að morgni eins þessara köldu daga, 9. desember,að símtalið kom að Raggi mágur minn hafi dáið þá um nóttina. Hvernig má þetta vera? Hversu stutt getur verið milli lífs og dauða? Af hverju kom kallið svona fljótt?

Minningarnar hrannast upp um sameiginlega vegferð sem staðið hefur í rúmlega þrjátíu og fimm ár. Man eins og gerst hefði í gær eftir fyrstu kynnum. Rólyndur, traustur, dagfarsprúður og með tímanum mikill vinur. Laghentur svo eftir var tekið. Hvort sem verkefnið var smíðar með tré eða járn, vinna með vélum, skrúfjárni eða klípitöng. Lagnin og lipurðin aðdáunarverð.

Svo allt í einu er þessu lokið. Lífið hefur kvatt og við hin stöndum eftir dofin og máttvana yfir þeim grimmu örlögum sem okkur eru búin að kveðja þennan góða dreng hinstu kveðju svona fljótt.

Hafðu kæra þökk fyrir samfylgdina.

Þó í okkar feðrafold

falli allt sem lifir

enginn getur mokað mold

minningarnar yfir.

(Bjarni Jónsson frá Gröf)

Sigurbjartur Pálsson.

Ragnar Leifur hefur kvatt þennan heim, áratugum of snemma. Við sem kynntumst honum eigum erfitt með að sætta okkur við það og fyllumst bæði sorg og reiði yfir því að annar eins öðlingur hafi fallið frá.

Allt fram á síðasta dag virtist það vera sjálfskipað starf Ragnars að breiða út gott skap. Þegar hann bauð til matar skyldu allir fá eitthvað við sitt hæfi þó að það þýddi að hann bæri fram margar tegundir af aðalréttum og sitthvort meðlætið með þeim öllum.

Jól og áramót voru tími þar sem hugmyndaflug hans í matargerð tók völdin. Í fyrra eldaði hann til dæmis bæði kengúru og pekingönd á áramótunum og gerði það af sinni einstöku snilld. Auk þess var alltaf sérstakur matur á aðfangadagskvöld fyrir þá sem ekki vildu hamborgarhrygg og lagði hann mikið á sig við þá eldamennsku.

Ragnar var maður sem hugsaði í lausnum en ekki vandamálum. Ef eitthvað þurfti að laga virtist Ragnar ekki þurfa að gera annað en að horfa á verkefnið og þá var það leyst. Lagfæringarnar gerðust svo snöggt og snyrtilega að fáir urðu þess varir á meðan á því stóð.

Hann var mikill tækjakarl og vildi hafa allt í topp standi. Mömmu okkar stóð oft ekki á sama þegar hann tók sig til og uppfærði gömul og úrelt tæki heimilisins með nýjustu græjum. En hún kunni þó alltaf að meta nýjungarnar fyrir rest, þegar hún hafði lært á þær.

Ragnar myndi seint hafa titlað sig sem listaspíru. Hann myndi heldur kjósa að fara í byggingavöruverslun en sitja í þrjá tíma yfir óperu eða annarri eins listsýningu. Það gerði hann þó nokkrum vikum áður en hann féll frá, okkur hinum til samlætis. Þegar flestir gestir Hörpu undruðust sönghæfni fólksins á sviðinu undraðist Ragnar hversu margir mættu. Þetta var kannski ekki alveg hans tebolli, en hann lét það ekki aftra sér frá því að verja kvöldinu með vinum. Einnig þótti honum handbragð suðumannsins sem sá um handriðið við sætaröðina okkar alveg til fyrirmyndar.

Ragnar mun ávallt lifa í hjörtum þeirra sem urðu þeirrar gæfu aðnjótandi að kynnast honum og það er með miklum söknuði sem við kveðjum hann.

Þar sem englarnir syngja sefur þú

sefur í djúpinu væra.

Við hin sem lifum, lifum í trú

að ljósið bjarta skæra

veki þig með sól að morgni.

Farðu í friði vinur minn kær

faðirinn mun þig geyma.

Um aldur og ævi þú verður mér nær

aldrei ég skal þér gleyma.

Svo vöknum við með sól að morgni.

(Bubbi Morthens)

Guðrún Beta Mánadóttir, Gunnar Steinn Mánason og Fjalarr Páll Mánason.

Alltaf kemur það manni jafnmikið á óvart þegar við þurfum að kveðja fólk sem yfirgefur jarðneskt líf. Alltaf vakna upp spurningar eins og hvers vegna? Hver er tilgangurinn? Við fáum ekki svör eða skilning á þessum hluta lífsins.

Í dag kveð ég Ragga í Miðfelli. Hann var frændi minn og afar góður vinur pabba míns og mömmu. Á mínum yngri árum áttu Raggi og hans fjölskylda þó nokkurn þátt í mínu lífi. Fjölskyldan hans og okkar fóru saman í útilegur og við áttum oft heimboð í Miðfell. Mér er það minnisstætt þegar við sátum við eldhúsborðið í Miðfelli og ég loksins þorði að spyrja Ragga hvað hafi eiginlega orðið um baugfingurinn hans. Ef ég man rétt þá var hann að gera við risa hrærivél og eitthvað fór úrskeiðis og fingurinn af. Raggi opnaði svo litla öskju og sýndi mér .... þarna geymdi hann beinið af fingrinum. Ég man að mér fannst þetta allt stórmerkilegt. Svo var það aðfangadagur. Það var enginn aðfangadagur nema Raggi mætti til okkar í jólapakkaskipti. Við settumst við eldhúsborðið í Hæðargarðinum og nörtuðum í hangiket og laufabrauð, allir slakir en kannski var það vindlalyktin sem hafði þessi áhrif. Eftir því sem árin liðu og við fluttum úr Nesjunum minnkuðu samskiptin. Það var svo þegar ég var að vinna í Kárahnjúkum að leiðir okkar lágu saman aftur. Raggi frændi birtist og vorum við því orðnir vinnufélagar. Þar átti ég oft spjall við hann í matsalnum eftir kvöldmat. Hann spurði alltaf um mömmu og pabba og hvernig lífið færi með mig.

Raggi var alltaf bóngóður. Það var eitt sinn á Eyjabökkum að ég var eitthvað að þvælast utanvegar, ætlaði að stytta mér leið. En viti menn ég festi bílinn og nú voru góð ráð dýr. Í hvern átti ég að hringja? Ég var svo heppin að Raggi var á vakt og ég bjallaði á hann. Hann mætti við annan mann. Vinnubíllinn hans dugði ekki til og Raggi mætti með 966 hjólaskófluna. Hann fór afar gætilega því hann vildi nú ekki skemma bílinn minn. Það tók smá stund að ná bílnum upp en það hafðist að lokum. Brunað var beint á steypustöðina og Raggi hjálpaði mér að skola af bílnum. Hann hafði líka orð á því við mig „Jenný mín, ef þú ætlar í framtíðinni að stytta þér svona leið eða jeppast eitthvað þá skaltu ekki fara þar sem hvítu blómin vaxa.“ Hann átti við fífurnar.

Þegar ég frétti af veikindum hans var ég staðráðin í að heilsa upp á hann. Ég var bara svo viss um að ég hefði nægan tíma. En þegar kallið kemur þá er enginn tími eða fyrirvari. Við erum aldrei og verðum aldrei tilbúin að kveðja þá sem okkur þykir vænt um. Þín verður sárt saknað og ekki síst af pabba mínum. Ég veit að það verður tekið vel á móti þér í þeirri ferð sem framundan er.

Elsku Gunnþóra, Sölvi, Kári og Hildur, Bogga, Fríða og Þrúðmar, Dúddi, Lilja, Rúnar og ykkar fjölskyldur, megi Guð vera með ykkur og styrkja í þessari miklu sorg.

Hjartans kveðja.

Jenný Magnúsdóttir,

Magnús og Steinunn.